fbpx

PIZZA MEÐ BUTTERNUT SQUASH

AÐALRÉTTIRGRÆNMETIS- & VEGANRÉTTIRUppskriftir

Við fjölskyldan erum dugleg að útbúa heimagerðar pizzur á föstudögum eða um helgar og mér finnst svo gaman að prófa eitthvað nýtt og öðruvísi á pizzuna. Við prófuðum pizzu með graskeri síðustu helgi og mmm hvað hún var góð! Pizza með butternut squash, sveppum, lauk, hvítlauksmjöri, nóg af osti og borið fram með klettasalati. Ég krydda butternut squash með norður afrísku kryddblöndunni Ras el hanout sem setur punktinn yfir i-ið. Kryddið er frá Kryddhúsinu og fæst t.d. í Hagkaup. Ég hvet ykkur til að prófa ef að þið viljið eitthvað öðruvísi og gómsætt!

Uppskrift að einni pizzu
Pizzadeig  (ég notaði uppskrift frá Ljúfmeti nema ég setti spelt í staðinn fyrir hveiti)
½ butternut squash
Ólífuolía
Ras el hanout
Salt & pipar
1 lítill laukur
5-7 sveppir
2 hvítlauksrif, pressuð
3-4 msk smjör
Rifinn cheddar ostur
Rifinn mozzarella ostur
Philadelphia rjómaostur
Klettasalat

Aðferð:

  1. Skerið hýðið af graskerinu og skerið það í litla bita. Blandið bitunum saman við ólífuolíu, Ras el hanout, salti og pipar
  2. Setjið graskerið í eldfast mót eða á bökunarplötu þakta bökunarpappír og bakið við 190°C í 25-30 mínútur eða þar til graskerið er orðið mjúkt. Hrærið 1-2 sinnum í því á meðan það er að bakast.
  3. Skerið laukinn í sneiðar og sveppina í fjóra báta og steikið upp úr smjöri. Hrærið hvítlauknum saman við í lokinn og saltið og piprið.
  4. Fletjið deigið út og dreifið smjörblöndunni með lauknum og sveppunum yfir.
  5. Dreifið mozzarella ostinum, cheddar ostinum og rjómaostinum yfir.
  6. Að lokum dreifið butternut squash bitunum yfir og bakið inn í ofni í 12-15 mínútur við 220°C eða þar til osturinn er bráðnaður og pizzabotninn bakaður.
  7. Berið fram með klettasalati og sýrðum rjóma eða hvítlaukssósu fyrir þá sem vilja.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

LJÚFFENGIR HAUSTDRYKKIR

Skrifa Innlegg