Bakað pizzadeig með cheddar osti, parmesan, blaðlauk, hvítlauk og steinselju er afar einfalt að útbúa og svakalega gott. Monkey bread er brauð sem er samansett úr litlum brauðbitum þannig að hægt er toga bitana úr. Skemmtilegt að bera fram í veislum eða boðum. Ég útbjó þetta í gær og vá hvað brauðið var fljótt að hverfa ofan í okkur. Namm! Mæli með að prófa þetta. Ég notaði pizzadeig frá Brauð & Co en annars er örugglega mjög gott að nota pizzadeig sem fæst í matvöruverslunum eða gera það bara sjálfur.
1 pkn tilbúið pizzadeig
150 g rifinn cheddar ostur
80 ml rifinn parmesan ostur
50 ml smjör, rifið með rifjárni
80 ml blaðlaukur, smátt skorinn
60 ml fersk steinselja, smátt skorin
2 hvítlauksrif, rifin
Cayenne pipar, má sleppa
Salt og pipar
Aðferð
- Hitið ofninn í 200°C
- Blandið saman cheddar osti, parmesan osti, smjöri, blaðlauk, steinselju, hvítlauksrifi og kryddi í skál. Hrærið vel saman. Takið ca. ¼ af ostablöndunni til hliðar.
- Þrýstið deiginu aðeins út með höndunum svo það verði kassalaga. Skerið það í 6-8 lengjur og skerið síðan þvert á lengjurnar svo úr verði litlir bitar. Bitarnir eiga að vera í kringum 3 cm.
- Blandið deiginu saman við ostablönduna þannig að hver biti verður þakinn osti.
- Smyrjið eldfast form eða pönnu sem má fara inn í ofn og raðið deiginu í það.
- Slökkvið á ofninum þegar það eru ca. 10 mínútur þangað til þið setjið deigið í hann. Setjið álpappír yfir formið og látið deigið hefast í heitum ofninum í 20 mínútur.
- Takið álpappírinn af og kveikið aftur á ofninum. Stillið á 190°C og bakið í 18-20 mínútur.
Dreifið restinni af ostinum yfir og bakið í 7-10 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður. - Berið brauðið fram heitt.
Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)
VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!
// HILDUR RUT
INSTAGRAM: @hildurrutingimars
Skrifa Innlegg