fbpx

TIL KARLMANNA: VERIÐ HUGRAKKIR OG TJÁIÐ TILFINNINGAR

andleg heilsaandleg vellíðan

Sælir Herramenn,

Ég er ekki að skrifa þessa færslu til ykkar til að tala um eitraða karlmennsku eða setja út á karlmennsku yfirhöfuð. Það eru margir góðir eignleikar við svokallaða karlmennsku og mér finnst ég ekki knúinn til þess að tala um ákveðna persónulega eiginleika sem annað hvort karllæga eða kvennlæga.

Hinsvegar vil skrifa færslu um mikilvægi þess að tjá tilfinningar, eitthvað sem virðist mörgum körlum ábótavant og hreinlega tabú að tala um eða þora að viðurkenna að maður hafi. Ég skil það vel, enda eigum við samkvæmt félagslegum normum í gegnum tíðina að vera harðir, bíta á jaxlinn og alls ekki sýna veikleikamerki og gefa færi á okkur.

Þetta skapar ákveðið vandamál, því það gerir það að verkum að okkur finnst ansi erfitt að tjá tilfinningarnar okkar því þá erum við að berskjalda okkur gagnvart öðru fólki og við viljum það ekki. Við höldum allavegna að við viljum það ekki, því við höldum að allir karlmenn séu harðir af sér og upplifi ekki neinar erfiðar tilfiningar. Þetta gefur ákveðna skekkta mynd af raunveruleikanum.

Því miður er lífið ekki svona einfalt. Lífið er erfitt og það ganga allir í gegnum óumflýjanlega erfiðleika. Það er ekki raunhæft að vera alltaf harður, hamingjusamur og með allt á hreinu. Lífið er samblanda af ánægju og sorg, að vera harður og auðmjúkur, að vera kvíðinn og hamingjusamur. Við eigum að leyfa okkur að upplifa allan skalann af því sem lífið hefur uppá að bjóða. Það er það fallega við lífið.

Hugsanlega kemur óvissa og kvíði í veg fyrir að við séum duglegri að tjá okkar tilfinningar. Óvissan um hvernig aðrir muni sjá okkur, hvernig aðrir munu bregðast við, hvernig þú munt taka því og hvort að aðrir muni nýta sér þínar takmarkanir.

Hugsanlega lætur þessi óvissa þig stökkva á órökrétta útkomu hvernig aðrir muni sjá þig. Þú heldur eflaust að aðrir munu dæma þig sem veikburða einstakling því samkvæmt þinni vitund átt þú ekki að sína tilfinningar. Sannleikurinn gæti ekki verið fjarri. Það fallega við óvissuna er að við vitum ekkert hvað hún ber í skauti sér en oft höfum við skekkta mynd af henni sem flækir lífið aðeins.

Lykilatriði í að líða vel

Að tala um hluti, að leyfa sér að finna fyrir tilfinningum og segja það sem manni liggur á brjósti er lykilatriði í því að líða vel. Það að tala við eitthvern, hvort sem það er vinur, fjölskyldumeðlimur eða sálfræðingur gerir fólki rosalega gott. Ég gef því mín hinstu meðmæli. Að hafa ekki verið nógu hugrakkur til að tjá tilfiningarnar sínar er eitt af því sem fólk sér eftir í lífinu.

Mín reynsla

Ég skal taka á skrefið og byrja á að berskjalda mig fyrir ykkur. Mér líður ekki alltaf vel. Það koma augnablik sem ég er óöruggur, kvíðinn og þungur. Ég er langt í frá með allt á hreinu. Stundum langar mig til að gráta og þegar sú tilfining kemur upp þá græt ég. Ég held tárunum ekki inni heldur leyfi mér láta þau gossa.

 Mér finnst mjög gott að tjá tilfinnigarnar mínar og það sem liggur mér á brjósti. Oftast lendir Hildur í því að þurfa vera kletturinn minn og hlusta á mig. Hvað finnst mér gott við það? Mér finnst það losa um eitthvað sem er erfitt að útskýra en það eru eitthverskonar spenna og togstreita sem losast við það að tjá tilfiningarna sínar.

Mér það líka gott upp á að skipuleggja og átta mig á því sem ég er að upplifa. Ég næ að átta mig betur á kvíðanum eða depurðinni sem ég er að ganga í gegnum með því að tala um mína líðan og það sem ég er að hugsa.

Ég dæmi mig ekki fyrir mínar tilfinningar. Ég skoða þær, án þess að neita þeim eða bæla þær niður. Ég verð forvitinn. Segjum að ég finni fyrir kvíða, þá verð ég forvitinn um þá tilfinningu. Ég leyfi mér að finna fyrir henni og þegar ég samþykki hana án þess að dæma, þá verður auðveldara að eiga við þær. Það er ekkert neikvætt við þessar tilfinningar.

Hvað þarf til að tjá tilfiningarnar sínar?

Hugrekki. Ég þyrfti í rauninni ekki að skrifa neitt annað. Hugrekki til að berskjalda sig gagnvart öðrum og sýna tilfiningar, þrátt fyrir óþægindin og óvissuna sem því fylgir. Hugrekki er eitt mikilvægasta verkfæri lífsins.

Það gæti hjálpað til að lesa þessa punkta:

  • Lífið er erfitt
  • Allir upplifa erfiðar tilfinningar á eitthverjum tímapunkti í lífinu
  • Það er eðlilegt og hreinlega nauðsynlegt að tjá tilfinningar
  • Þú þarft ekki að uppfylla eitthverja staðlaða ímynd af karlmennsku
  • Þú þarft ekki að vera harður og vera með allt á hreinu.
  • Þú mátt gráta, vera kvíðinn eða líða illa.

Það er styrkleiki, ekki veikleiki að berskjalda sig gagnvart heiminum og þora að tjá tilfinningar. Ekki bæla tilfiningar niður því þær geta komið hressilega í bakið á þér seinna meir.

Finndu eitthvern sem þú treystir, hvort sem það er góður vinur, fjölskyldumeðlimur eða sálfræðingur og  segðu honum frá hvað liggur þér á brjósti. Þú munt átta þig betur á hvað þú ert að upplifa og þungu fargi verður létt af öxlunum þínum. Vertu hugrakkur og tjáðu tilfiningarnar þínar.

MILLIVEGURINN #32 - GÍSLI MARTEINN

Skrifa Innlegg