fbpx

ÞEKKTU SJÁLFAN ÞIG

andleg heilsaandleg vellíðan

Fæstir þekkja sjálfan sig nógu vel. Það boðar ekki gott þar sem það mun koma dagur þar sem gervigreindin mun þekkja þig betur en þú sjálfur. Ég ætla ekki í neinar framtíðarpælingar í þessari færslu heldur færa rök fyrir mikilvægi þess að þekkja sjálfan sig þar sem það getur haft verulega góð áhrif á lífið þitt.

Hvað meina ég með að þekkja sjálfan sig?

Að átta sig á sínum persónuleika, ekki bara ákjósanlegu eiginleikana við þig heldur líka á þínum skugga hliðum. Þó svo að það sé mikilvægt að átta sig á góðum karakterseinkennum (styrkleikum) og hvað maður stendur fyrir (gildi), ætla ég hér að neðan að tala um ávinningana sem fylgja því að þekkja skuggann sinn.

Hvað meinaru með þessum skugga og afhverju á ég að þekkja skuggann minn?

Skugginn þinn eru ákveðnir ómeðvitaðir eiginleikar við þig sem þú hefur þrýst niður útaf óþægindum sem eru að hafa ómeðvituð áhrif á þitt líf. Þessir dimmu eiginleikar perónuleikans, sem við erum ekki meðvituð um, hafa áhrif á hvernig þú hagar þér í samskiptum við aðra, hvernig þú bregst við uppákomum, hvernig þú tekur ákvarðanir og hvernig þú tengist lífinu.

Carl Jung sálfræðingur talaði fyrir því að þekkja sínar skugga hliðar til þess að láta hana vinna með sér í staðinn fyrir á móti sér. Þegar við erum meðvituð um okkar skugga, þá hefur hann ekki eins mikil áhrif á lífið okkar, við tökum eftir honum og við þekkjum okkur betur.

Að verða meðvitaðari um skuggann sinn

Það getur verið óþæginlegt að þekkja sínar dimmu hliðar og að samþykkja þá eiginleika við sjálfan sig. Hugsanlega eru þetta eiginleikar sem þú hefur þrýst niður útaf ákveðnu áfalli eða erfiðleikum í lífinu. Þá þarf að fara varlega þegar maður kýs að verða meðvitaðari um sjálfan sig því það geta komið allskonar tilfiningar upp.

Eitt veit ég, það er auðveldara að bæla þessa eiginleika niður heldur en að gangast í augu við þá. Það þarf hugrekki til að þekkja sjálfan sig en það leiðir til þess að þú tengir meira við sjálfan þig, hefur góð áhrif á tengslin þín við aðra og þínar ákvarðanir. Það getur hjálpað fólki gríðalega mikið í lífinu að þekkja sjálfan sig.

Hugsanlega ertu sjálfselskur, öfundsjúkur, gráðugur, bitur, óöruggur og fjandsamur einstaklingur. Hugsanlega finnst þér erfitt að samþykkja þessa eiginleika við þig. Hinsvegar, ef þú þekkir þá geturu látið þá vinna með þér. Þegar þú lendir í aðstæðum þar sem þessir eiginleikar koma upp geturu tekið eftir þeim og notað þá til að vinna með þér, annaðhvort sem vopn eða meðvitað dregið úr þeim.

Mér finnst gífurlega jákvætt að viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður sé ekki 100% góði einstaklingurinn sem maður heldur að maður sé. Þá áttar maður sig á hvað maður er að gera rangt og maður minnkað óþarfa þjáningu sem maður veldur sér og öðrum í lífinu. Lífið er nógu erfitt fyrir!

Þegar við hugsum um fangabúðirnar í Auschwitz, þá ímyndum við flest okkur að við séum fangar í búðunum. Hvað lætur þig halda að þú sért fanginn en ekki fangavörðurinn? Fangaverðirnir sem gerðu virkilega slæma hluti í fangabúðunum voru bara venjulegir einstaklingar, rétt eins og þú og ég. Aldrei vanmeta hvað aðstæður geta kallað fram í fólki.

Hvernig þekki ég sjálfan mig?

Sjálfsþekking getur meðal annars bætt leiðtogahæfni, persónulegan vöxt, getuna að setja sig í spor annarra, sköpunargáfu, sjálfsumhyggju og minnkað líkur á kulnun.

Hver einasta vegferð í átt að sjálfþekkingu er sérstök. Þú ert þinn besti sérfræðingur. Það eru margar leiðir til þess sem hjálpa þér að vera meðvitaður um sjálfan þig. Ég ætla nefna fjórar.

Þjáflunarsálfræði, sálfræðitími, markþjálfun

Frábær leið til að þekkja sjálfan sig betur. Hvort sem það er að fara í þjálfunarsálfræðitíma, fara til sálfræðings eða til markþjálfa, þá færðu þar tíma og öruggt svæði til að segja frá þér án þess að vera dæmd/ur.

Að spyrja aðra

Getur verið góð leið að spyrja sína nánustu einstaklinga um persónuleikann sinn. Þó svo þú þurfir ekki að fara 100% eftir áliti þessar einstaklinga, þá getur endurgjöf frá þeim gefið þér ákveðnar vísbendingar um sjálfan þig.

Hugleiðsla

Að sitja með sjálfum sér og vera meðvitaður um hvaða hugsanir og tilfinningar koma upp er góð leið til að þekkja sjálfan sig. Ekki dæma sjálfan þig fyrir það sem kemur upp. Ef þú hugleiðir ertu líka líklegri til að vera meðvitaðari um þínar tilfiningar og hugsanir út daginn.

Lærdómur

Að læra eitthvað nýtt er frábær leið til að þekkja sjálfan sig. Það þarf ekki að vera eitthver sjálfsmeðvitundarbók eða grein sem þú þarft að lesa. Þetta getur verið hvað sem er. Þegar við lærum eitthvað nýtt og komum okkur í stöður sem við þekkjum ekki fáum við betri innsýn í okkur sjálf.

Lokapælingar:

Ég held oft að ég sé kominn með heildarmynd af mér sjálfum og að ég þekki minn skugga algjörlega. Hinsvegar lendi ég reglulega í augnablikum þar sem ég er að kynnast nýjum eiginleikum við sjálfa mig. Ég elska að vera meðvitaðari og þekkja sjálfan mig betur og betur með hverjum deginum. Þetta er vinna sem mun halda áfram út lífið. Þekktu sjálfan þig.

UPPFÆRSLA UM LÍFIÐ

Skrifa Innlegg