fbpx

LÍFIÐ ER ÞJÁNING

andleg vellíðan

Neikvæðu fréttirnar

Lífið er erfitt. Lífið er ófullkomið og lífið  er þjáning. Það inniheldur óvissu, kvíða, stress, áskoranir, hindranir, veikindi, vonbrigði og loks dauðann sjálfan. Ykkur finnst ég kannski vera full dramatískur en þetta eru óumflýjanlegir þættir lífsins. Það er ansi líklegt að þú hafir lent í einhverjum erfiðleikum á lífsleiðinni. Ef ekki, þá er líklegt að þú eða einhver þér nákominn muni lenda í erfiðleikum á næstu fimm  árum.

Jákvæðu fréttirnar

Nóg af neikvæðninni. Jákvæðu fréttirnar eru þær að sama hversu erfitt eða slæmt lífið er, þá er það í þínum höndum hvernig þú bregst við þeim erfiðleikum. Það er rosalega auðvelt að detta í það að vorkenna sjálfum sér, spila sig sem fórnarlamb eða halda því fram að lífið sé óréttlátt. En hvað græðum við á þessu hugarfari? Nákvæmlega ekkert. Við verðum bara bitur, leið, pirruð og þunglynd.

Faðmaðu neikvæðu tilfinningarnar rétt eins og þær jákvæðu

Ég er alls ekki að segja að það sé ekki í lagi að líða illa. Við eigum að faðma eikvæðar tilfinningar rétt eins og þær jákvæðu. Stundum þarf manni að líða illa til að maður átti sig á hvað það er að upplifa hamingju. Markmiðið á ekki að vera að bæla niður allar neikvæðar tilfinningar . Það er líka hægt að líta á kvíða, stress og óvissu með jákvæðum augum. Þessar tilfinningar láta okkur finna að við séum virkilega á lífi. Lífið væri hundleiðinlegt ef við vissum allt fyrir fram og ekkert væri krefjandi.

Viktor Frankl og frelsið

Viktor Frankl var fangi í útrýmingarbúðum í Auschwitz. Hann lifði við vægast sagt hræðilegar aðstæður þar sem hann óttaðist um líf sitt á hverjum degi. Hann náði að lifa af fangabúðirnar með því að finna  merkingu og tilgang í þjáningunni. Viktor sagði að það eina sem ekki væri hægt að taka frá einstaklingnum  væri frelsið og getan til að ráða hvernig maður bregst við aðstæðum í lífinu.

Hvað er til ráða?

Einblíntu á það sem þú getur haft stjórn og áhrif á. Þú getur haft stjórn á því hvernig þú bregst við erfiðleikum og það er undir þér komið hvort þú viljir láta þá draga þig endalaust niður eða styrkja þig. Breyttu hugsuninni þinni og hvernig þú bregst við þjáningu lífsins. Sjáðu það jákvæða í erfiðum aðstæðum, finndu merkingu og tilgang í þjáningunni og breyttu hugsunarhættinum með því að skipta óhjálplegum hugsunum út fyrir hjálplegar hugsanir. Ef Viktor Frankl gat snúið hugsun sinni sér í hag í sínum aðstæðum, þá getur þú það!

 

Masteraðu innri leikinn - Fit & Run Expo

Skrifa Innlegg