Það er heilmikil fórn falin í því að ákveða að deila lífinu með öðrum einstakling. Við erum öll ólíkir persónuleikar, með ólíka sýn á heiminn og með mismunandi þarfir, vætningar, gildi og reynslu. Það getur skapað ákveðið vandamál þar sem þrjóskan við að ríghalda í sína heimsýn getur verið ansi kröftug og haft mikil áhrif á sambandið milli tveggja einstaklinga.
Þar sem þú eyðir gífurlega miklum tíma með makanum þínum yfir ævina er mikilvægt að spá í hvernig maður getur stuðlað að ánægjulegu og heilsusamlegu sambandi. Stundum þarf maður að standa fastur á sínu, stundum þarf maður að gefa eftir, stundum þarf maður að taka makanum sínum eins og hann er og líta á hlutina frá fleiri en eigin sjónarhorni. Ég ætla að segja ykkur frá nokkrum þáttum sem gætu haft góð áhrif á ykkar sambönd.
Heiðarleiki – Segðu sannleikann
Ég tel að heiðarleiki sé mikilvægasti þátturinn í að stuðla að góðu sambandi. Það er fáránlega mikilvægt að segja sannleikann og það sem manni liggur á brjósti. Sannleikurinn er sagna bestur. Það getur hinsvegar verið erfitt að segja sannleikann sem gerir það að verkum að einstaklingar „fresta“ því. Það er miklu auðveldara að gleyma vandamálinu heldur en að tala um það.
Þessi leið er ekki líkleg til árangurs. Að fresta sannleikanum og lifa í meðvitaðri blindni nagar þig nefnilega meira seinna meir og hefur sennilega meiri áhrif á þig en þú heldur. Það getur haft þau áhrif að þú verður reiðari í langan tíma, það þarf minna til að stuða þig, tilfinningarnar hlaðast upp og að lokum er mjög líklegt að þú hreinlega springir.
„Ég er búin að vera í óhamingjusömu sambandi í þrjú ár“ – Af hverju í fjandanum þurftirðu að bíða í þrjú ár með að segja sannleikann? Myndirðu nenna að sóa þremur árum af lífinu þínu bara út af því að þú varst hrædd/ur við að segja sannleikann?
Taktu ábyrgð, sýndu hugrekki og segðu sannleikann þó svo það sé erfitt. Það er erfitt á því augnabliki en til lengri tíma ertu miklu líklegri til að eiga í góðu sambandi. Segðu það sem liggur þér á brjósti, því fyrr því betra.
Það þýðir samt ekkert að þú hafir alltaf rétt fyrir þér. Þetta snýst ekki um að vinna samræðurnar. Í staðinn fyrir að vinna á móti hvoru öðru að vandamálinu þá eigið þið að vinna saman að því. Það þarf að vera jafnvægi milli þess að segja sannleikann og að sýna auðmýkt og að taka sannleikann frá hinum aðilanum inn í myndina. Ef báðir aðilar segja það sem liggur þeim á brjósti er líklegra að það komi einhver millivegur þar sem báðir aðilar eru hæfilega sáttir með niðurstöðuna.
Bættu hlutfallið milli jákvæðra og neikvæðra skilaboða.
Skilaboð á milli einstaklinga sem lifa í ánægjulegu sambandi eru fimm á móti einu. Semsagt fyrir hver fimm jákvæð skilaboð er eitt neikvætt. Settu þér markmið um að bæta þetta hlutfall. Þú getur gert það með því að sýna ást, hrósa og tjá þakklæti í garð maka þíns.
Svaraðu á virkan og uppbyggilegan máta
Þegar einstaklingar deila jákvæðum fréttum upplifa þeir jákvæðar tilfinningar. Þessar tilfinningar geta aukist enn fremur háð því hvernig aðrir einstaklingar svara þessum jákvæðu fréttum.
Það eru fjórar leiðir til að svara þegar einstaklingar segja þér frá jákvæðri upplifun (sjáðu hér að neðan). Svaraðu á virkan og uppbyggilegan máta þegar makinn þinn segir þér frá jákvæðri upplifun. Sýndu stuðning og svaraðu af áhuga.
Jákvæð upplifun: „Hey, ég fékk stöðuhækkun í vinnunni í dag“
Virkt uppbyggilegt svar:
Vá, algjör snilld. Vel gert! Hvað finnst þér um það? Hvernig leið þér þegar yfirmaðurinn tilkynnti þér það? Þú ert búin/n að vera rosa dugleg/ur
Óvirkt uppbyggilegt svar:
Það er snilld.
Virkt óuppbyggilegt svar:
En þarftu þá ekki að vinna meira? Hvernig ætlarðu að fara að því? Heldurðu að þú hafir tíma í það? Ég myndi ekki taka að mér meiri vinnu ef ég væri þú.
Óvirkt óuppbyggilegt svar:
Ég fór að borða áðan og maturinn var…
Að lokum getur verið gott að minna sig á að samband milli tveggja aðila er ekki alltaf dans á rósum, rétt eins og lífið. Að vera í sambandi getur innihaldið góða tíma og slæma tíma, sigra og töp, mistök og árangur. Það er mikilvægt að kunna að meta allar upplifanir þar sem þær geta kennt manni margt.
Settu vinnu í sambandið. Það skilar sér margfalt til baka!
Skrifa Innlegg