fbpx

FJÓRAR LEIÐIR TIL AÐ UNDIRBÚA SIG FYRIR MIKILVÆGA FYRIRLESTRA

andleg vellíðan

Eins og þið flest hafið eflaust tekið eftir þá hef ég verið að halda fyrirlestra fyrir ýmis fyrirtæki, félög, stofnanir, viðburði og aðra hópa. Ég hef meðal annars haldið fyrirlestur fyrir Sýn, Origo, Unicef, Miðstöð símenntunar og Fjölbrautarskóla Vesturlands svo eitthvað sé nefnt. Mig langar að miðla minni reynslu og þekkingu til ykkar um hvernig hægt sé að undirbúa sig vel undir það að halda fyrirlestur.

Það verða margir einstaklingar stressaðir og kvíðnir við að halda fyrirlestur, hvort sem það er í skólanum eða vinnunni. Ég skil það bara mjög vel enda getur það verið virkilega krefjandi. Mig langar því að segja ykkur frá fjórum þáttum sem hafa hjálpað mér í að standa mig eins vel og ég get þegar ég held fyrirlestra. Þetta hefur líka hjálpað mínum skjólstæðingum í þjálfunarsálfræðinni.

1. Æfa, æfa og aftur æfa.

Augljósasti punkturinn. Þú getur ekki æft fyrirlesturinn of mikið. Það er alltaf pláss fyrir bætingar. Æfðu þig fyrir framan spegilinn. Farðu með fyrirlesturinn fyrir sjálfan þig. Farðu með fyrirlesturinn fyrir maka, fjölskyldumeðlim eða vin. Þú lærir helling af því.

2. Sjáðu fyrirlesturinn fyrir þér

Margir hverjir sem stunda íþróttir sjá fyrir sér keppnina sem þeir eru að fara í. Það er hægt að yfirfæra það á þegar fólk er að fara halda fyrirlestur. Þegar við ímyndum okkur eitthverja hæfni þá virkjast nefnilega svipaðar taugabrautir í heilanum og þegar við framkvæmum hæfnina. Sjáðu fyrir þér fyrirlesturinn með því að sjá fyrir þér aðstæðurnar, áhorfendur og þig halda fyrirlestur þar sem allt er að heppnast. Reyndu að ímynda þér  eins nákvælmega og þú getur með því að nota öll skynfærin. Hvað sérðu? Hvað heyriru? Hvernig er að labba upp á sviðinu? Hvernig lykt er? Hvernig bragð finnuru í munninum? Það getur líka verið gott að ímynda sér hvernig þú ætlar að bregðast við þegar eitthvað klikkar t.d. með því að ímynda sér ef maður gleymir hvað maður er að fara segja, hvernig ætlaru að bregðast við því?

Að sjá fyrir sér fyrirlesturinn gerir það að verkum að þú ert búinn að upplifa fyrirlesturinn áður en þú mætir á staðinn þannig þú veist hvað þú ert að fara út í, þú hefur meiri trú á sjálfum þér og þú ert tilbúinn að bregðast við ef eitthvað klikkar.

3. Taktu eftir órökréttum hugsunum og hugsaðu á rökréttari máta

Í hausnum er rödd sem ég kalla oft dómara. Hann hefur vond áhrif á þig og dregur þig niður. Með öðrum orðum er dómarinn óhjálpleg hugsun sem býr til óþarfa vandamál byggt á órökréttum upplýsingum. Taktu eftir dómaranum og hugsaðu á rökréttari máta.

Þegar við erum að fara halda fyrirlestur koma oft raddir upp í hausnum sem segja: “Ég þarf að vera með fullkominn fyrirlestur”, “Ég má ekki gera mistök”, “Ég á eftir að gera mistök”, “Ef ég stend mig ekki verð ég rekin/n”, “Fyrirlesturinn verður annaðhvort geggjaður eða ömurlegur”, “Áhorfendurnir eru að dæma mig”. Þetta eru allt dæmi um óhjálplegar hugsanir sem geta haft neikvæð áhrif á frammistöðuna þína.

Það getur verið gott að spyrja sig: Hverjar eru sannanirnar fyrir þessum hugsunum? Er dómarinn að hugsa rökrétt? Hvernig get ég hugsað á rökréttari máta svo að hugsanirnar mínar hafi góð frekar en slæm áhrif á mig? Eflaust nærðu að hugsa; Er raunhæft að flytja fyrirlestur á fullkominn hátt og gera engin mistök? Það eru engar sannanir fyrir því að ég sé að fara gera mistök en ef ég geri ein til tvö mistök þá er það allt í lagi og ég bregst við því. Fyrirlesturinn þarf alls ekki að vera fullkominn en ég ætla að gera mitt besta. Ég verð ekki rekinn í vinnunni þó svo að fyrirlesturinn heppnist ekki 100%. Fyrirlesturinn verður sennilega eitthversstaðar á milli þess að vera frábær og allt í lagi. Áhorfendurnir eru sennilega ekki að dæma mig þar sem þeir hafa enga ástæðu til þess.

Með því að hugsa á rökréttari og hjálplegri máta tekst þú betur á við fyrirlesturinn með því að verða hæfilega stressuð/aður í staðinn fyrir að halda að heimurinn sé að farast sem ýtir undir betri frammistöðu.

 

4. Endurhugsaðu kvíðann

Það er ekki raunhæft að vera laus við allt stress sem fylgir því að halda fyrirlestur. Það er ekki raunhæft að eiga líf sem er án alls kvíða og stress. Það kemur alltaf smá hnútur í magann. Það þarf hinsvegar ekkert að vera slæmt. Það er ekkert slæmt við það að vera kvíðinn fyrir fyrirlrestur. Það er hægt að líta á kvíðann sem hamlandi og láta hann hafa vond áhrif á þig og þína frammistöðu en það er líka hægt að líta á hann sem hvetjandi. Það er hægt að líta á hann þannig að maður sé spenntur, að maður sé virkilega á lífi, að maður sé að gera eitthvað sem skiptir sig máli, að maður sé að gera eitthvað krefjandi sem gerir mann að betri einstaklingi. Þú lærir ekki að vera minna kvíðinn heldur þróar þú með þér hugrekki á að takast á við kvíðann. Hættu að ofhugsa hlutina. Faðmaðu óvissuna, taktu ábyrgð og þróaðu hugrekki til að takast á við þessa áskorun. Mér myndi allavegana finnast hundleiðinlegt að halda fyrirlestur ef það væri bara ekkert mál!

MILLIVEGURINN #12 - ANDRI ICELAND (ÍSLENSKI ÍSMAÐURINN)

Skrifa Innlegg