fbpx

DAUÐINN – HVERJU MYNDIR ÞÚ SJÁ EFTIR Í LÍFINU?

 

Ég ætla að nota þessa færslu í að fjalla um viðkvæmt málefni; dauðann. Flest okkar pæla ekkert í dauðanum og lifa lífinu eins og við séum aldrei að fara að deyja. Ástæðan fyrir því er sennilega sú að hugsanir um dauðann veldur fólki óþægilegum tilfinningum. Að lifa lífinu án þess að hugsa um dauðann skapar hinsvegar ákveðið vandamál. Dauðinn er nefnilega óumflýjanlegur. Dauðinn er það eina sem er víst að gerist í þessum heimi. Verst er kannski að við vitum aldrei hvenær hann kemur en sannleikurinn er sá að hann getur komið hvenær sem er.

Dauðinn bankar á dyrnar hjá mörgum einstaklingum á ákveðnum tímapunktum í lífinu, t.d. þegar fólk á afmæli, verður fyrir alvarlegum veikindum, lendir í alvarlegu slysi eða við missi á nákomnum einstaklingi. Við þessi augnablik breytist oft sjónarhornið á lífið. Þessir einstaklingar hugsa t.d. hverju í andskotanum þeir séu búnir að eyða sínum dýrmæta tíma í hingað til, hlutunum sem þeir sjá eftir og hvað sé raunverulega mikilvægast fyrir þeim í lífinu.

Þú getur litið á dauðann með letjandi augum og lifað í meðvitaðri blindni um að hann sé ekki til og muni aldrei banka upp á. Hin leiðin er að samþykkja dauðann og líta á hann með hvetjandi augum. Hann getur hvatt okkur í að lifa lífinu sem við virkilega viljum, forgangsraða hlutum í lífinu, einblína á réttu hlutina, að minnka óþarfa áhyggjur, að vera trúr sjálfum sér, að viðhalda tengslum við vini og fjölskyldu, að taka lífinu ekki of alvarlega, að hafa hugrekki í að tjá tilfinningarnar sínar, lifa í núinu og vera þakklát/ur fyrir tilveruna.

Afhverju getum við ekki minnt okkur á dauðann áður en við lendum í einhverju? Mér finnst nefnilega ömurlegt að einstaklingar þurfi að lenda í einhverju til þess að átta sig á hvernig lífi þeir vilja lifa. Það getur nefnilega orðið leiðinlega seint fyrir marga einstaklinga sem hafa eytt lífinu sínu í vitlausa hluti. Hvernig getum við bankað í hausinn á okkur daglega til að minna okkur á að lifa lífinu sem við virkilega viljum? Hvernig getum við einblínt á hluti sem við virkilega viljum einblína á en sjáum ekki útaf við lifum í meðvitaðri blindni gagnvart dauðanum?

Ein leið er að spyrja sig að þessari spurningu: Hverju munt þú sjá eftir í lífinu þegar þú ert orðin/n hund gömul/gamall og lítur til baka? Ég skal svara fyrstur. Ég myndi sjá eftir því að taka lífinu of alvarlega, hafa of miklar áhyggjur af óþarfa hlutum og að eyða tímanum mínum í ranga hluti. Nú er komið að þér.

Lífið er alltof stutt til að eyða því í kjaftæði. Hættu að lifa í meðvitaðri blindi og byrjaðu að lifa lífinu sem þú vilt lifa.

MILLIVEGURINN #17 - JÓN JÓNSSON

Skrifa Innlegg