Afhverju borða ég plöntufæði?
Veganismi er mikið í umræðunni þessa dagana. Hvort sem við erum að tala um Amazon eldanna eða grænmetisfæði í skólum, þá er fólk mikið að ræða og deila um áhrif plöntufæðis á lífið sjálft.
Fólk er að vera meðvitaða um heilsuna sína, áhrifin sem þeirra daglega venjur hafa á umhverfið og siðferðisleg málefni. Ég tel þetta afar jákvæða þróun og ég fagna umræðunni. Við eigum að hjálpast að gera heiminn að betri stað og færa hann nær góðu og fjær illu.
Ég elskaði kjöt. Ég skildi ekki fólk sem borðaði ekki kjöt. Hvað þá þeir sem borðuðu ekki kjöt og voru í íþróttum? Þvílíkir aumingjar. Ég skil alla sem eru með þessa hugsun enda hugsaði ég það nákvæmlega sama einu sinni.
Fordómar byggjast á fáfræði. Því meira sem við erum meðvituð, því meira getum við skilið sjónarhorn annarra. Ef við höldum að okkar sannleikur sé sá eini rétti þá erum við á rangri hillu í lífinu. Þá miðar okkur ekkert áfram. Þá lærum við ekkert nýtt. Maður verður að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum og sjónarmiðum þar sem það er miklu meira í þessum heimi sem við vitum ekkert um en það sem við vitum um.
Heilsa, umhverfið, siðferðiskenndin
Ég byrjaði að borða plöntufæði því ég vildi gera allt til þess að komast í atvinnumennsku í fótbolta. Eitt af því sem skiptir gríðalega miklu máli í íþróttum er mataræði. Þegar ég var að afla mér upplýsingar um plöntufæði sá ég á mörgum stöðum að plöntufæði gæti bætt endurheimt og orku, sem eru tvö lykilatriði í íþróttum í dag.
Seinna meir færðist hvatningin mín líka á aðra heilsuávinninga plöntufæðis. Plöntufæði er talið geta komið í veg fyrir ýmsa lífstílsjúkdóma, t.d. hjartasjúkdóma og krabbamein. Þetta eru sjúkdómar sem í kringum 50% af dauða mannkyns nú til dags má rekja til.
Í dag hefur fókusinn líka færst yfir á umhverfisávinninga plöntufæðis. Að sleppa því að borða kjöt er eitt það áhrifamesta sem við getum gert sem einstaklingar til þess að hafa góð áhrif á umhverfið. Pælið í því, það fara 3500 lítrar af vatni í að búa til eina 250 gr steik. Það er eins og að sleppa því að fara í sturtu í þrjá mánuði. Bið að heilsa ykkur.
Undanfarið hefur aukist verulega í siðferðiskenndina mína. Iðnaðurinn og þjáningin bakvið það að maður geti gætt sér á kjöti er viðbjóðslegur. Flestir myndu ekki fá sér kjöt ef þeir þyrftu að slátra dýrinu sjálfir. Við lítum meðvitað blint framhjá hvað gerist í þessum verksmiðjum þar sem við viljum ekki sjá þjáningunna á bakvið það sem við erum að borða. Mér finnst bragðlaukarnir mínir ekki mikilvægari en þjáning dýra.
Mín reynsla:
Allt mitt líf hélt ég að ég þurfi kjöt, egg, mjólkurvörur og skyr til að vera hraustur. Skilaboð sem voru prentuð í hausinn á mér frá barnæsku. Ég hafði rangt fyrir mér. Ég hef borðað einungis plöntufæði í 4 ár og ég elska það. Það hefur góð áhrif á mína líðan. Ég jafna mig hraðar eftir æfingar. Ég er orkumikill. Ég man ekki eftir hvenær ég var veikur síðast. Ég er í góðu formi.
Helsta ástæðan í stuttu máli:
Af því að ég get það. Af því öll rökin sem ég finn styðja við plöntufæði. Af því mér finnst það hinn eðlilegast hlutur. Af því það hefur marga góða ávinninga.
Mér finnst engin ástæða til þess að borða kjöt. Afhverju ætti ég að gera það þegar ég get sleppt því? Ég hef allavegana ekki fundið nein góð rök hingað til og trúiði mér ég hef leitað.
Þrjár myndir sem ég mæli með að horfa ef þið viljið sökkva ykkur í veganisma:
Forks over knives – Heilsumynd
Cowspiracy – Umhverfismynd
Earthlings – Siðferðismynd (ekki fyrir viðkvæma)
Takk fyrir að lesa, áfram plöntur!
Skrifa Innlegg