fbpx

TRENDNÝTT

HÉR ER – NÝR VEFUR UM TÍSKU OG HÖNNUN

FÓLKKYNNING

HÉR ER er nýlegur vefur í eigu Smáralindar þar sem sagt er á metnaðarfullan hátt frá því nýjasta úr tísku- og hönnunarheiminum. Trendnet vildi vita meira um þessa systursíðu okkar og tók ritstýruna, Helgu Kristjáns, á tal.

Helga er reynslubolti úr fjölmiðlabransanum með brennandi áhuga á tísku. Hún er förðunarfræðingur að mennt og hefur starfað sem stílisti, förðunarfræðingur, blaðamaður og förðunarritstjóri hjá bæði Glamour og Nýju lífi. Helstu áhugamál Helgu eru ljósmyndun, tíska, förðun, matur og menning en hún er jafnframt eins og gangandi alfræðiorðabók þegar kemur að tískubransanum.

Helga Kristjáns, ritstjóri HÉR ER og samfélagsmiðlari Smáralindar

Hvað er HÉR ER?
HÉR ER er tísku-og lífsstílsvefsíða sem fjallar um heitustu trendin hverju sinni, gefur ráðleggingar og sýnir það nýjasta úr verslunum. Kemur með hugmyndir að stíl, veitir innblástur og við viljum vera vinkona sem fólk leitar til á netrúntinum og treystir.

 

Hvernig lýsir þú stílnum þínum?

Hann er frekar klassískur en ég aðhyllist seventísstílinn mikið. Dagsdaglega klæðist ég mest gallabuxum, skyrtu, belti og blazer með axlapúðum. Lash úr Weekday er uppáhalds gallabuxnatýpan mín, háar upp og beinar niður og blazerasafnið mitt úr Zöru er gulls ígildi. Kamellitur og brúnir tónar eru í mestu uppáhaldi og ég elska hausttískuna þegar maður fær að umvefja sig hlýjum efnum og stórum kápum. Svo má ekki gleyma gleraugunum! Ég elska falleg gleraugu og þau nýjustu í safninu mínu eru sólgleraugnaumgjörð sem koma úr smiðju Fendi en ég lét setja styrkleikagler í þau. Seventís-gleraugu frá Saint Laurent og cat eye-týpa frá Tom Ford eru líka mikið notuð. Uppáhaldsfylgihluturinn minn er svo úr sem mamma gaf sjálfri sér í þrítugsafmælisgjöf og er mínimalískt gull og silfur úr frá YSL. 

Hefur þú alltaf spáð í tísku?
Í einu orði sagt, já. Frá því ég man eftir mér hef ég haft skoðun á því hvernig allt í kringum mig lítur út. Ég horfði með stjörnurnar í augunum á mömmu hafa sig til fyrir vinnuna í Alþingi um miðjan níunda áratuginn með tilheyrandi hárspreynotkun í permað hárið, „indjánapúðri“ og Girl boss-drögtum. Gylltar YSL-snyrtivöruumbúðir voru aldrei langt undan og litadýrðin í augnskuggum í fyrirrúmi. Þegar ég rambaði inn í litla bókabúð niðrí bæ og kynntist ítalska Vogue í kringum fermingaraldurinn var ekki aftur snúið. Ég gjörsamlega heillaðist að listrænum myndunum. Nokkrum árum síðar fóru tískutímaritin á ensku að heilla og ég gekk um með litla stílabók sem ég fyllti af orðum sem mig langaði að fletta upp í orðabók og nota síðar. Það má segja að ferill minn hafi verið skrifaður í skýin, þó ég hafi farið lengri leiðina að markinu.

Áttu uppáhalds verslun í Smáralind?
Þeir sem þekkja mig vita að það er ekkert launungamál að Zara er í miklu uppáhaldi. Það má varla koma blazer í Zöru án þess að hann verði minn. En fallegasta búð landsins finnst mér vera Monki og þó víðar væri leitað. Maður sér alltaf eitthvað nýtt og spennandi þar inni og sú verslun verður að teljast Instagram-væddasta verslun sem fyrir finnst. Svo er H&M Home alltaf með eitthvað hrikalega chic fyrir heimilið, og og og…!

Blómavasar úr H&M Home sem voru að koma í verslunina í Smáralind.

Klæðir þú þig eftir skapi?
Yfirleitt aðhyllist ég nokkurn veginn það sama, þægindin skipta mig mestu máli og að mér líði eins og ég sjálf. En ef ég vakna eitthvað öfug fer ég frekar í þykka peysu og trefil, svona til að hjúfra mig upp að á hryssingslegum haustmorgnum.

Ertu með eitthvað á óskalista fyrir haustið?
Kápa er alltaf á óskalistanum mínum. Það er sú flík sem gerir bókstaflega átfittið á haustin. Þær eru nokkrar í Zöru sem ég er með augastað á, allavega ein þeirra verður mín áður en langt um líður.

Yfirhafnir eru veikleiki Helgu, hér eru nokkrar frá Zöru sem eru á óskalistanum.

Hverju ert þú sjálf spenntust fyrir að klæðast í haust?
Fallegum prjónapeysum, húfum og kápum. Djúsí!

Eitthvað að lokum? Mér þætti mjög vænt um að fá þig í heimsókn á HÉRER.IS og fylgdir Smáralind á Instagram. Svo minni ég auðvitað á hið margrómaða Kauphlaup sem byrjar á miðvikudaginn 30. september og stendur yfir í viku, þar er hægt að gera þrusugóða díla.

Við þökkum Helgu fyrir gott spjall og hvetjum ykkur til að bæta HÉR ER við netrúntinn ykkar.

//TRENDNET

Er flottasta ísbúð landsins í Perlunni?

Skrifa Innlegg