Þetta ljúffenga og holla kebab útbjó ég í samstarfi við Íslenskt lambakjöt. Uppskrift að lambakjöti með Ras el hanout kryddblöndu og fullt af girnilegu grænmeti, cheddar osti og dásamlegri sósu borið fram í vefjum. Mjög góður réttur sem ég mæli hiklaust með. Íslenskt lambakjöt er svo bragðgott og er hágæða hráefni. Það inniheldur mikið af OMEGA 3 og járni, hollt og próteinríkt og án GMO. Þennan rétt er tilvalið að útbúa þegar þið eigið lambakjötsafganga af helgarlærinu eða hryggnum. Annars notaði ég lambainnralæri í réttinn og það var mjög meyrt og gott.
Uppskrift fyrir 4
(ég mæli með 1-2 vefjum á mann, það fer eftir því hvað þið setjið mikið á vefjurnar)
500-600 g lambainnralæri
2 msk ólífuolía
2 msk Ras el hanout + 1 msk (fæst t.d. í Hagkaup)
Salt og pipar
1 lítill kúrbítur
250 g sveppir
1 lítill rauðlaukur
1 stór pimento paprika eða nokkrar litlar
2 tómatar
1-2 dl smátt skorin gúrka
Cheddar ostur eftir smekk
Tortillur eftir smekk (ég notaði heilhveiti)
Sósa:
1 dós sýrður rjómi
1-2 msk ferskt dill
½ tsk hvítlauksduft
½ tsk laukduft
½ tsk paprikuduft
Cayenne pipar eftir smekk
Salt og pipar
Aðferð
- Byrjið á því að skera kjötið í bita og setja í skál. Blandið 2 msk af Ras el hanout kryddblöndu, ólífuolíu, salti og pipar saman við.
- Skerið kúrbít, sveppi, papriku og rauðlauk í litla bita. Skerið tómata og gúrku smátt.
- Blandið öllum hráefnunum í sósuna saman í skál. Endilega smakkið ykkur til og kryddið eftir smekk.
- Steikið lambakjötið upp úr ólífuolíu á meðalháum hita. Takið til hliðar þegar það er orðið eldað í gegn.
- Steikið kúrbít, sveppi, papriku og rauðlauk á sömu pönnu upp úr ólífuolíu. Kryddið með 1 msk af Ras el hanout, salti og pipar.
- Blandið lambakjötinu saman við.
- Smyrjið sósu á tortillurnar, dreifið lambakjöts-og grænmetisblöndunni ofan á og svo tómötunum og gúrkunni. Stráið cheddar ostinum yfir og rúllið tortillunni upp. Gott að dreifa öllu á annan endann á tortillunni, brjóta hana saman eins og umslag og rúlla henni upp.
- Steikið tortillurnar uppúr ólífuolíu við vægan hita þar til þær verða stökkar og gylltar.
- Berið fram með sósunni og njótið.
VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)
// HILDUR RUT
INSTAGRAM: @hildurrutingimars
Skrifa Innlegg