fbpx

LAMBAKJÖTS KEBAB Í VEFJUM

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Þetta ljúffenga og holla kebab útbjó ég í samstarfi við Íslenskt lambakjöt. Uppskrift að lambakjöti með Ras el hanout kryddblöndu og fullt af girnilegu grænmeti, cheddar osti og dásamlegri sósu borið fram í vefjum. Mjög góður réttur sem ég mæli hiklaust með. Íslenskt lambakjöt er svo bragðgott og er hágæða hráefni. Það inniheldur mikið af OMEGA 3 og járni, hollt og próteinríkt og án GMO. Þennan rétt er tilvalið að útbúa þegar þið eigið lambakjötsafganga af helgarlærinu eða hryggnum. Annars notaði ég lambainnralæri í réttinn og það var mjög meyrt og gott.

Uppskrift fyrir 4
(ég mæli með 1-2 vefjum á mann, það fer eftir því hvað þið setjið mikið á vefjurnar)
500-600 g lambainnralæri
2 msk ólífuolía
2 msk Ras el hanout + 1 msk (fæst t.d. í Hagkaup)
Salt og pipar
1 lítill kúrbítur
250 g sveppir
1 lítill rauðlaukur
1 stór pimento paprika eða nokkrar litlar
2 tómatar
1-2 dl smátt skorin gúrka
Cheddar ostur eftir smekk
Tortillur eftir smekk (ég notaði heilhveiti)

Sósa:
1 dós sýrður rjómi
1-2 msk ferskt dill
½ tsk hvítlauksduft
½ tsk laukduft
½ tsk paprikuduft
Cayenne pipar eftir smekk
Salt og pipar

Aðferð

  1. Byrjið á því að skera kjötið í bita og setja í skál. Blandið 2 msk af Ras el hanout kryddblöndu, ólífuolíu, salti og pipar saman við.
  2. Skerið kúrbít, sveppi, papriku og rauðlauk í litla bita. Skerið tómata og gúrku smátt.
  3. Blandið öllum hráefnunum í sósuna saman í skál. Endilega smakkið ykkur til og kryddið eftir smekk.
  4. Steikið lambakjötið upp úr ólífuolíu á meðalháum hita. Takið til hliðar þegar það er orðið eldað í gegn.
  5. Steikið kúrbít, sveppi, papriku og rauðlauk á sömu pönnu upp úr ólífuolíu. Kryddið með 1 msk af Ras el hanout, salti og pipar.
  6. Blandið lambakjötinu saman við.
  7. Smyrjið sósu á tortillurnar, dreifið lambakjöts-og grænmetisblöndunni ofan á og svo tómötunum og gúrkunni. Stráið cheddar ostinum yfir og rúllið tortillunni upp. Gott að dreifa öllu á annan endann á tortillunni, brjóta hana saman eins og umslag og rúlla henni upp.
  8. Steikið tortillurnar uppúr ólífuolíu við vægan hita þar til þær verða stökkar og gylltar. 
  9. Berið fram með sósunni og njótið.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

OFNBÖKUÐ LANGA MEÐ KRÖSTI Í RJÓMAOSTASÓSU

Skrifa Innlegg