fbpx

ÍTALSKAR KJÖTBOLLUR & PARMESAN KARTÖFLUMÚS

AÐALRÉTTIRUPPSKRIFTIR

Þessar kjötbollur klikka ekki. Einfaldar og fljótlegar ítalskar kjötbollur bakaðar í ofni með ferskum mozzarella og bornar fram með parmesan kartöflumús.  Kjötbollurnar eru bragðgóðar og ekki skemmir fyrir að þær eru bakaðar í ofni með tómat passata og ferskum mozzarella. Toppaðar með ferskri basilíku sem setur punktinn yfir i-ið. Einnig er gott að bera kjötbollurnar fram með spaghettí í staðinn fyrir kartöflumús.

Uppskrift gerir 20-24 kjötbollur
500 g nautahakk
1 egg
1/2 laukur
1 dl brauðrasp
2 dl rifinn parmesan ostur
Salt og pipar
Ítölsk hvítlauksblanda (frá Pottagöldrum)
Ólífuolía
Ferskur mozzarella ostur (125 g eða meira)
Fersk basilíka
350-400 g tómat passata

Parmesan kartöflumús fyrir 2-3
5-7 kartöflur
1 dl parmesan ostur
3 msk smjör
3 msk rjómi
Salt og pipar
Hvítlaukskrydd
Fersk steinselja (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið laukinn mjög smátt og blandið saman við nautahakk, egg, lauk, brauðrasp og parmesan ost. Kryddið með ítalskri hvítlauksblöndu, salti og pipar.
  2. Hnoðið þessu vel saman og notið hendurnar til að móta 20-24 kjötbollur.
  3. Hitið pönnu vel á miðlungshita og steikið þær upp úr olíu.
  4. Hellið tómat passata yfir þegar kjötbollurnar eru orðnar steiktar að utan. Bragðbætið svo sósuna með hvítlauksblöndunni, salti og pipar.
  5. Skerið mozzarella í sneiðar og dreifið þeim yfir kjötbollurnar.
  6. Ég nota pönnu sem má fara inn í ofn og eru bollurnar bakaðar við 190°C í 15-20 mínútur. Ef að þið eruð ekki með pönnu sem má fara í ofn þá setjið þið kjötbollurnar ásamt sósunni í eldfast form, dreifið mozzarella sneiðunum yfir og bakið.
  7. Dreifið að lokum basilíku þegar kjötbollurnar eru komnar úr ofninum og berið fram með kartöflumús.

Parmesan kartöflumús

  1. Skrælið kartöflurnar og skerið þær í tvennt.
  2. Sjóðið í kringum 20-30 mínútur, tíminn fer eftir stærðinni á kartöflunum.
  3. Sigtið vatnið frá og bætið smjöri, rjóma, parmesan osti, salti, pipar og smá hvítlaukskryddi út í. Það er smekksatriði hvernig þið viljið hafa áferðina á kartöflumúsinu. Bætið því rjóma eða smjöri eftir smekk og stappið vel saman.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)

// HILDUR RUT

HOLLARI NAMMIBITAR

Skrifa Innlegg