Hæ elsku lesendur! Strákurinn minn, Unnar Aðalsteinn, varð 9 ára í vikunni og við héldum uppá afmælið um helgina fyrir allra nánustu fjölskyldu. Ég er oft í smá vandræðum með hvað ég á að bjóða uppá og ég veit að sumir eru í sama pakka. Allt heppnaðist svo vel þannig að mig langar að deila því með ykkur. Ég læt fylgja link á uppskriftirnar með. Ég tók reyndar ekkert merkilegar myndir af veitingunum en læt þær samt fylgja með. Við notuðum skreytingar frá Söstrene grene, bæði gamalt sem við höfum geymt og nýtt.
VEITINGAR:
Afmæliskaka með Dumle kremi
Ég bræddi 140 g af Dumle karamellum og setti í kremið í staðinn fyrir venjulega karamellur. Fékk hugmyndina frá Döðlur og gott. Svo ljúffeng og einföld kaka.
Brownies með þristum
Ég bræddi ½ poka af þristum með smá rjóma og dreifði yfir nýbakaða kökuna. Sjúklega gott og ég mæli mikið með! Einnig góð sem eftirréttur með ís.
Frosin kókosbollumarengs
Mamma útbjó þennan góða kókosbollumarengs með ferskum berjum. Hún braut marengsbotn og blandaði saman við rjóma. Skar kókosbollur í tvennt og smurði yfir. Smurði rjóma svo yfir allt saman og frysti. Dreifði svo ferskum berjum yfir rétt áður en það átti að bera kökuna fram en mikilvægt að bera fram meðan enn er frost í kökunni. Mjög gott
Litlar baguette samlokur
Prófaði þetta í fyrsta skiptið, mjög sniðugt. Keypti baguette brauð og skar endana burt. Skar svo þvert á brauðið í miðjuna og útbjó samloku. Smurði báðar hliðar með majónesi og eina hliðina með honey dijon sinnep. Setti svo kál, tómata, silkiskorna skinku, salami og ost. Lokaði samlokunni, skar í margar litlar samlokur og stakk tannstöngli í miðjuna til að halda þeim saman.
Tortillur með cheddar ostasalati
Litlar tortillurúllur fylltar með uppáhalds ostasalatinu.
Heitur brauðréttur frá Eldhússögum
Þennan rétt hef ég gert margoft og alltaf jafn góður! Mæli mikið með.
Heitur brauðréttur með skinku og aspas
Mamma útbjó þennan klassíska og góða brauðrétt en spilaði af fingrum fram og notaði enga sérstaka uppskrift. En þessi hér er mjög góð.
Klassískt ostasalat með vínberjum
Edda tengdamamma mín útbjó geggjað ostasalat frá Evu Laufey og bar fram með kexi. Alltaf klassískt og gott!
Takk fyrir að lesa & vonandi næ ég að hjálpa einhverjum með afmælisplön :)
// HILDUR RUT
INSTAGRAM: @hildurrutingimars
Skrifa Innlegg