Þú ert liðsmaður, sama hvernig þú lítur á það. Þú ert hluti af heild, hvort sem þú lítur á þig sem hluta af vinnustaðnum, æfingarhópnum eða fjölskyldunni. Við erum óumflýjanlega umkringd öðru fólki og það skiptir ótrúlega miklu máli hvernig maður hagar sér í tengslum við annað fólk. Það getur haft veruleg áhrif á hvernig þér og fólkinu í kringum þig líður.
Þessvegna er mikilvægt að vera góður liðsmaður. Hvað einkennir eiginlega góðan liðsmann?
Góður liðsmaður tekur eins mikla ábyrgð og hann getur. Hann tekur ábyrgð á hvernig hann bregst við öðrum einstaklingum í liðinu. Hann hugsar um hagsmuni liðsins og reynir allt í sínu valdi til að draga það besta úr fólkinu í kringum sig. Hann tekur öllum leikmönnum liðsins eins og þeir eru og áttar sig á að einstaklingar eru misjafnir. Hann áttar sig á styrkleikum annarra liðsmanna og einblínir á þá í staðinn fyrir að pirra sig á veikleikum þeirra.
Hann segir sannleikann og kemur sínu á framfæri, jafnvel þó það geti verið erfitt að segja hvað liggur manni á brjósti. Hann er krefjandi og gagnrýnir einstaklingana í kringum sig á uppbyggilegan máta til þess að lyfta einstaklingum upp á annað plan. Hann tekur samt tillit til einstaklinga sem eru viðkvæmir fyrir gagnrýni og fer öðruvísi að þeim.
Hann er jákvæður í garð liðsmanna og hrósar þeim reglulega. Hann lætur aðra finna að þeir skipti máli, sama hvort honum líki vel við þá eða ekki. Hann hlustar á hvað aðrir einstaklingar hafa að segja og tekur sjónarmið þeirra inn í myndina. Hann setur liðið í forgang fyrir sjálfan sig og þarf oft að taka hluti á sig þó það sé ekki beint sanngjarnt.
Í liði eru allir að stefna að sama markmiði. Því eiga allir að vinna saman í því að draga það besta úr hvor öðrum en ekki að vinna á móti hvor öðrum. Vertu alvöru liðsmaður. Með því að vera alvöru liðsmaður bætir þú sjálfan þig og aðra í kringum þig sem verður til þess að þið upplifið meiri ánægju og náið betri árangri í því sem þið takið ykkur fyrir hendur.
Skrifa Innlegg