Mörg okkar eru á því að þau verði hamingjusöm þegar tiltekinn áfangi næst í lífinu. Hvort sem það er að fá draumavinnuna, eignast draumahúsið eða komast í draumaformið, þá er hamingjan okkar oft mjög háð því að ákveðnir áfangastaðir sem við höfum stefnt að í langan tíma verði að veruleika.
Fólk leggur það mikla áherslu á að ákveðinn áfangi muni veita þeim langvarandi hamingju að það leyfir sér ekki að vera hamingjusamt á leiðinni. Þar af leiðandi, ótrúlegt en satt, verður fólk í rauninni fyrir vonbrigðum þegar það mætir loksins á áfangastaðinn.
Ekki miskilja mig, það er frábært að stefna að einhverju og það er yndisleg tilfinning að ná markmiði sem maður hefur unnið að í langan tíma. Hinsvegar varir sú ánægjutilfinning afar stutt en yfirleitt fer mjög langur tími í að láta markmiðin verða að veruleika.
Því er gríðarlega mikilvægt að njóta leiðarinnar að áfangastaðnum. Njóta þess að leggja hart að sér. Njóta þess að lenda í erfiðleikum og yfirstíga þá. Njóta litlu sigrana á leiðinni. Njóta þess að verða betri einstaklingur en maður var með hverjum degi.
Eins og vinur minn Búdda sagði eitt sinn: „Það er engin leið að hamingju. Hamingjan er leiðin.“ Leiðin er nefnilega það sem hversdagslegt líf snýst um og mestur tími okkar fer í. Leiðin er lífið. Njóttu þess að klifra upp á fjallið því það tekur mikið lengri tíma heldur en tilfinningin sem fylgir því að vera kominn á toppinn.
Takk fyrir að lesa!
Skrifa Innlegg