Góða kvöldið kæru Trendnet lesendur!
Bergsveinn Ólafsson heiti ég, stundum kallaður Beggi Ólafs og ég er nýr bloggari á Trendnet. Ég gæti skilgreint mig á ansi marga vegu en ég ætla reyna segja ykkur frá mér í stuttu máli. Ég er 25 ára og bý í Kópavogi. Ég spila fótbolta með Fjölni og samhliða því er ég fyrirlesari og mastersnemi í Hagnýtri jákvæðri sálfræði og þjálfunarsálfræði. Ég er örlítið frábrugðinn öðru íþróttafólki þar sem ég borða bara plöntufæði. Ég mikill áhugamaður um allt sem tengist heilbrigðu líferni. Þá hef ég sérstakan áhuga á andlegri vellíðan og á þáttum sem styðja við að einstaklingar blómstri í lífinu.
Ég er ekki alveg nýr í bloggheiminum þar sem ég hef verið að blogga á beggiolafs.com síðastliðið ár. Þar, ásamt því að vera blogga á hefbundinn máta, hef ég líka verið að vlogga (Videoblogga).
Á Trendnet mun ég bæði blogga og vlogga um þætti sem tengjast heilbrigðu líferni. Mín aðal áhersla verður að fjalla um þætti sem styðja við andlega heilsu og vellíðan í lífinu. Þar að auki ætti ekki að koma ykkur á óvart ef ég myndi fjalla eitthvað um plöntufæði og ávinninga þess.
Ástæðan fyrir því að ég er að blogga er að mér finnst gaman að gefa af mér. Mitt helsta markmið er að fólk geti hagnýtt eitthvað frá mér í sitt daglega líf. Því mun ég koma til með að fjalla um viðfangsefni fyrir fólk sem er metnaðargjarnt og vill koma með mér í þann leiðangur að hámarka sjálfan sig í lífinu.
Ég hlakka til komandi tíma á Trendnet og vona að þið munið hafa gaman af!
Í lokin langaði mér að segja ykkur að ég reyni að vera mjög virkur á Instagram: @beggiolafs. Þar er ég meðal annars með “Lífsráð dagsins” á hverjum virkum degi en ég mun klárlega koma til með að deila því með ykkur hér líka. Ég læt nokkrar myndir af Instagraminu mínu fylgja með hér að neðan!
Skrifa Innlegg