Þegar við hugsum um hamingju þá hugsa flestir um jákvæðar tilfinningar án neikvæðra tilfinninga. Flestir tengja hamingju við ánægjulegar stundir eins og að eignast nýja hluti, klára erfiða vinnutörn og þegar þeir ná loksins markmiðinu sem þeir eru búnir að stefna að í langan tíma.
Þessar jákvæðu tilfinningar standa hinsvegar ekki oft lengi yfir eins og flest ykkar hafið eflaust upplifað. Við höfum oft verið að bíða eftir einhverju, að komast í sumarfrí, útskrifast úr námi eða ná einhverjum ákveðnum stað sem við trúum að gefi okkur langvarandi hamingju en svo komum við á staðinn og verðum fyrir miklum vonbrigðum.
Við sem samfélag höfum verið að leggja alltof mikla áherslu á það að stefna að vera hamingjusöm í lífinu. Að það sé eini rétti tilgangur lífsins. Endalausar fréttir, fyrirlestrar og aðrir sérfræðingar að segja þér hina sönnu leið að hamingju. Bara ef lífið væri svona einfalt og allir gætu fylgt eftir sömu leyniuppskriftinni að hamingju.
Þessar áherslur gera það að verkum að einstaklingar eru stöðugt að reyna að finna hamingjuna eins og þegar þeir týna lyklunum sínum. En hvað ætlar þessi einstaklingur að gera þegar hann er ekki hamingjusamur? Þá líður honum eins og það vanti einhvað í lífið hans, að hann sé ekki nóg og að honum sé að mistakast að upplifa hinn sanna tilgang lífsins. Þetta er ekki gott fyrir þennan einstakling.
Það er ekki raunhæft að eignast líf sem inniheldur einungis jákvæðar tilfinningar án neikvæðra tilfinninga. Lífið er samblanda af þessum þáttum. Lífið er dásamlegt og erfitt á sama tíma. Við myndum ekki vita hvað hamingja væri ef við myndum ekki finna fyrir sorg. Við getum alltaf fundið eitthvað neikvætt við það svokallaða jákvæða og eitthvað jákvætt við það svokallaða neikvæða.
Við þurfum að hugsa og nálgast hamingjuna á aðra vegu. Ég tel að við eigum að stefna að merkingarfullu lífi í staðinn fyrir hamingjusömu lífi. Hamingjan getur svo komið sem afleiðing þess að lifa merkingarfullu lífi. Að hún komi sem afleiðing af okkar hegðun og hugsun án þess að þurfa spá mikið í henni.
Í merkingarfullu lífi er líka pláss fyrir erfiðleika og neikvæðar tilfinningar. Við getum nefnilega dregið ávinninga á að upplifa það sem við skilgreinum sem neikvætt. Við getum vaxið í kjölfar erfiðleika, við getum áttað okkur á hvað við viljum ef við upplifum neikvæðar tilfinningar, við getum skilið hlutina betur ef við leyfum okkur og sýnum hugrekki til þess að standa á móti erfiðleikum og neikvæðum tilfinningum.
Við þurfum að endurhugsa hamingjuna sem ánægjulandið hans Péturs Pan. Að endurhugsa að hamingja sé þæginlegur staður sem við komumst einhverntímann á. Haminga er ferli en ekki áfangastaður. Hamingja er allt það sem lífið hefur upp á að bjóða og það tekur bæði inn jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Erfiða tíma og góða tíma. Hamingju og sorg. Leyfðu þér að upplifa allan skalann á því sem lífið hefur upp á að bjóða. Stefndu að merkingarfullu lífi í staðinn fyrir hamingjusömu lífi.
Ekki hika við að segja mér hvað ykkur finnst: @beggiolafs á Instagram.
Skrifa Innlegg