fbpx

LÍFIÐ SEM SJÚKRAÞJÁLFARI, ATVINNUREKANDI & ÞRIGGJA BARNA MÓÐIR

2022VIÐTÖL

HVERSDAGSLEIKINN HJÁ SÖRU LIND 

Sara Lind Brynjólfsdóttir ofurmamma, atvinnurekandi & orkubolti. Það var ekkert smá gaman að fá smá innsýn inn í hversdagsleikann hjá Söru sem er með óteljandi bolta á lofti. Við Sara erum frænkur & ég hef alltaf verið með smá stjörnur í augunum yfir því hvernig hún fer að þessu öllu saman með bros á vör. Þess vegna var ég ekki lengi að senda á hana þegar hugmyndin að þessum nýja Trendnet lið kom upp.

Kynnumst Söru betur …

Sara Lind er menntaður sjúkraþjálfari og lýðheilsufræðingur. Hún starfar sem sjúkraþjálfari hjá Vivus sjúkraþjálfun og er sérfræðingur á forvarnarsviði Virk. 

Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?
Vinnudagarnir mínir geta verið mjög mismunandi. Við erum nýbúin að opna stöðina okkar (Vivus), svo eru mikið af tilfallandi verkefnum hér og þar þannig að dagarnir fara mjög oft ekki eins og planið var 😆🥰 En hinn fullkomni vinnudagur er að ég mæti og vinn smá í tölvunni, þjálfa svo einhverja af geggjuðu hópunum okkar, fæ mér hádegismat, tek svo nokkrar meðferðir eftir hádegi og enda daginn á æfingu. Markmiðið mitt er að ná fleiri svona dögum.

,,stöðin okkar er æfingastöð og sjúkraþjálfun”

Segðu okkur aðeins frá Vivus … afhverju ákváðuð þið að opna Vivus & eru allir velkomnir?
Stöðin okkar er æfingastöð og sjúkraþjálfun. Við erum þrír sjúkraþjálfarar sem eigum og rekum stöðina og þetta var búið að vera draumur hjá okkur öllum í nokkur ár, að opna hreyfimiðaða sjúkraþjálfunarstöð sem væri líka æfingastöð. Ég og maðurinn minn vorum búin að reka fyrirtæki sem heitir Netsjúkraþjálfun í 6 ár og sá rekstur var farin að þurfa húsnæði undir sig þar sem þjónustan var þess háttar að hún passaði ekki alveg inn á hefðbundnar sjúkraþjálfunarstofur. Við sem stöndum að Vivus þjálfun erum öll með mikla ástríðu fyrir hreyfingu og því að fólk finni sér hreyfingu við hæfi og fái sjálfstæði í að útfæra æfingar þannig að vellíðan og aukin styrkur og þol sé útkoman. Við leggjum líka mikla áherslu á að æfingarnar séu skemmtilegar og kröftugar. Við bjóðum bæði upp á hópþjálfun og sjúkraþjálfun og margir sem koma til okkar í sjúkraþjálfun eru samhliða eða koma við útskrift í hópþjálfun til okkar.

,,markmiðið er að hjálpa fólki að finna gleðina í hreyfingu”

Hvað er markmiðið með stöðinni ykkar?
Stóra markmiðið okkar með stöðinni frá upphafi er að hjálpa fólki að líða betur og gera fólk sjálfstætt í sinni meðferð ásamt því að hjálpa fólki að finna gleðina í hreyfingu. Það gerum við með því meðal annars að leiðbeina framhjá verkjum og með því að stunda skemmtilega hreyfingu í góðum hópi.

,,vikurnar mínar eru svakalega fjölbreyttar og fljúga áfram”

 Hvernig nærðu jafnvægi á milli Virk og Vivus?
Ég er að vinna í að ná þessu jafnvægi. Ég er tiltölulega nýkomin úr fæðingarorlofi og nýbyrjuð í að skipta mér svona í tvennt en finn að mér finnst mikilvægt að vera heila daga á hvorum stað fyrir sig, en ekki hálfan og hálfan dag. Kostirnir við þetta er að vikurnar mínar eru svakalega fjölbreyttar og fljúga áfram. Ég fæ oft innblástur í Vivus fyrir Virk og öfugt, þetta styður mjög vel við hvort annað. Ég fæ líka að nýta lýðheilsufræðinginn í mér meira hjá Virk og sjúkraþjálfarann meira hjá Vivus. En ókostirnir eru líka að stundum er ég frekar sundurtætt og getur verið erfitt að ná ekki að hella sér 100% á annan hvorn staðinn. En að sama skapi myndi ég ekki vilja breyta þessu, þannig kostirnir hljóta að vera fleiri <3

,,síðan eldum við kvöldmat oftast með einhvern hangandi í fótunum okkar”

Hvað gerirðu eftir vinnu?
Ég á þrjú börn þannig að ég eða maðurinn minn sækjum þau, förum heim og leikum eða förum út að hjóla. Síðan eldum við kvöldmat oftast með einhvern hangandi í fótunum okkar. Við reynum að láta stóru krakkana lesa og svo förum við í smá kósý áður en börnin fara að sofa. Núna upp á síðkastið höfum við verið að vinna eftir að þau sofna en það fer vonandi að minnka 😅

Hvað kemur þér í gott skap?
Góð æfing með vinkonu eða manninum mínum er nánast alltaf leiðin mín að góðu skapi og mér er oftast kastað á æfingu þegar ég er í vondu skapi heima 😆🙏

Hvað er það allra leiðinlegasta sem þú gerir?
Það leiðilegasta sem ég geri á heimilinu er að ganga frá og ég á sem betur fer mann sem gengur misánægður á eftir mér og tekur til eftir mig 😆 en ég reyni að vera skemmtileg í staðin.

Hvar sækirðu innblástur?
Klárlega frá fólkinu í kringum mig, ég er umkringd svo geggjuðu fólki sem gefur mér mikinn innblástur. Bæði hvað varðar viðhorf og markmið í lífinu, uppeldi og vinnu. Semsagt ekkert eðlilega heppin með fólkið mitt 🤍 

,,bara almennt í lífinu að láta vaða á það sem manni langar að gera”

Ef það er einhver þarna úti sem vill vinna við eða mennta sig í því sama, ertu með einhver skilaboð eða ráð?
Já bara go for it og bara almennt í lífinu að láta vaða á það sem manni langar að gera. En líka að vera dugleg/-ur að sækja sér þekkingu og reynslu í gegnum annað fólk í sömu stétt, fá að læra af öðrum, prufa sig áfram og elta það sem maður hefur virkilega áhuga á. Markmiðið ætti að vera að finna sér svið sem maður hefur ástríðu fyrir, það held ég að sé lykillinn 🥰

Þið getið fylgst betur með Söru hér:
Instagram: hér.
Vivus: vivus.is
Vivus Instagram: hér.

ArnaPetra (undirskrift)IG @arnapetra

NÝR TRENDNET LIÐUR

Skrifa Innlegg