Gleðilegt nýtt ár ♡
Áramót, tímamót & 365 ný tækifæri eða 359 tækifæri þegar þetta er skrifað :)
Um áramót sest ég alltaf niður og lít yfir farinn veg, gef mér tíma til að láta mig dreyma um framtíðina og set mér markmið. Ég skrifa niður raunhæfa og óraunhæfa drauma, það má láta sig dreyma, það er gott fyrir hjartað og sálina og hver veit nema að draumarnir rætist? Mér finnst a.m.k að þeir fái smá líf bara við það að tala um þá eða skrifa þá niður. EN ég gef þeim alltaf góðan tíma, það er ekki víst að draumarnir rætist á morgun eða á þessu ári en kannski einhverntíman í lífinu.
Ég á bækur “dagbækur” sem ég hef skrifað í síðan ég var tvítug. Ég skrifa alls ekki á hverjum degi og ekki í hverjum mánuði, en á hverju ári kemur þó alltaf eitthvað. Aðallega markmið & draumar, hvað mig langar að gera, verða og hvernig mig langar að hafa hlutina í kringum mig og lífið sjálft. Í bókunum eru líka allskonar hlutir sem ég elska að lesa og rifja upp, gullkorn frá börnunum og þessháttar. Ég sé svo núna þegar að ég er nýbúin að lesa 20 ár aftur í tímann að ég skrifa reglulega um það sem ég er glöð og þakklát fyrir. Ég held að það sé að einhverju leiti lykillinn að því að líða vel, að fókusera á góðu hlutina og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, ég held sem betur fer ekki mikið bókhald utan um leiðinlega og erfiða hluti :)
Það er svo magnað að sjá hversu mikið hefur ræst, sumt mörgum árum eftir að ég skrifaði það niður annað fljótlega. T.d rak ég augun í búðardrauminn …. sem ég skrifaði niður 1999 eða fyrir 20 árum.
16 Nóvember 1999 … Skrifaði ég í dagbókina að mig langaði til að eiga eigin fataverslun, með fylgdi svo lýsing hvernig búðin ætti að vera, lítil og kósý með vel völdum vörum og skrifaði svo niður hvernig ég sá þetta allt fyrir mér.
Þarna var ég nýbökuð móðir og við að kaupa okkar fyrstu íbúð. Ég fór að vinna í tískubransanum í mörg ár sem ég sé svo eftirá að það var akkúrat skólinn sem ég þurfti að fara í til að geta látið þennan draum rætast. Ég lærði líka fatahönnun sem var annar lykill í að láta þennan draum rætast.
24 Október 2009 … Opnaði verslunin AndreA á Strandötu 19 HFJ … Nákvæmlega 10 árum síðar.
Þessi draumur hefur svo vaxið og dafnað hann er ennþá virkur, ég bæti reglulega við hann, langar að breyta búðinni, stækka eða flytja eins og við gerðum 2018, mig dreymir líka um að bætia við línuna og að gera fleiri hluti eins og td skó svo að ég nefni eitthvað. Ég hef lengi haft skýra sýn um það hvernig mig langar að hafa merkið mitt, ég færist nær og nær í hænuskrefum en ég á ennþá langt í land.
Mig hefur oft langað að gefast upp, þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt og oft pirrandi að vita hvað þú vilt en komast ekki hraðar áfram. En þrautseigja er sennilega lykillinn og það að gefast aldrei aldrei aldrei upp.
Ég mæli með að þið leyfið ykkur að láta ykkur dreyma og skrifið draumana niður alveg sama hversu stórir eða klikkaðir þeir eru, kannski rætast ekki allir draumar en pottþétt sumir og einhverjir rætast jafnvel í aðeins öðruvísi útgáfu en þið sáuð fyrir ykkur.
Maður þarf auðvitað líka að vera tilbúinn að vinna vinnuna því að ekkert gerist að sjálfu sér og að láta draumana rætast er undir sjálfum okkur komið.
Aðalatriðið er að vita hvað þú vilt og hafa kjarkinn í að segja það upphátt eða skrifa það niður og leyfa aldrei öðrum að dimma ljósið þitt.
Það eru margir aðrir draumar og markmið sem ég hef náð en ég á líka marga eftir. Sem betur fer því að það væri lítið um að vera í lífinu ef það væri búið að haka í öll box.
–
Þessa litlu bók keypti ég mér á BALI … Ég elska það sem stendur utan á henni og reyni að fara eftir því.
VINNA ELSKA & DANSA
LoveLove
Andrea
INSTAGRAM: @andreamagnus
INSTAGRAM: @andreabyandrea
Skrifa Innlegg