fbpx

TACO TUESDAY : RISARÆKJUTACO

AÐALRÉTTIRUPPSKRIFTIR

Ég elska taco og er alltaf að prófa eitthvað nýtt í tacogerð. Þið getið sko alveg búist við því að ég deili með ykkur mörgum girnilegum taco uppskriftum. Ég sýndi frá þessu taco á instagram um daginn, fékk mjög góð viðbrögð og margir eru að bíða eftir uppskrift. Því er það tilvalið að þessi uppskrift sé sú fyrsta sem ég deili með ykkur hér. Í uppskriftinni eru risarækjur sem er eitt af mínum uppáhalds hráefnum. Ég fæ margoft spurningar varðandi hvar ég kaupi risarækjur en ég kaupi þær oftast í Costco en annars eru mjög góðar risarækjur í flestum matvöruverslunum. Þær eru alltaf staðsettar í frystivörunni. Að djúpsteikja risarækjur í tempura deigi er vægast sagt ótrúlega gott! Svo eru þær líka góðar einar sér og jafnvel með sósunni. Það er í raun ekkert mál að djúpsteikja. Það tekur enga stund og algjörlega þess virði. Sriracha majónesið og salatið passar sérlega vel með þessu. Þið hreinlega verðið að prófa og tilvalið að útbúa á taco tuesday eða bara hvenær sem er!

Fyrir tvo. Þrjú taco á mann
6 litlar tortillur, soft taco (ég nota frá Santa maria sem fæst í Hagkaup)
18 risarækjur, hráar
1-2 hvítlauksrif, pressað
Chili flögur
Salt og pipar
1-2 msk Ólífuolía
Ólía til djúpsteikingar

Tempura deig
130 g hveiti + smá auka
¼ tsk matarsódi
1 eggjarauða
220 ml sódavatn, mjög kalt

Kínakálsalat
Kínakál, 4 blöð
2 tómatar
2-3 msk rauðlaukur
½-1 rautt chili
1-2 avókadó
Safi úr ½ lime
Salt og pipar

Sriracha mayo
4 msk majónes (ég notaði Hellmanns)
1 tsk sriracha sósa
1-2 msk ferskur kóríander, smátt saxað
Safi úr ½ lime

Toppa með ferskum kóríander, eftir smekk

Aðferð

  1. Blandið saman í skál risarækjum, ólífuolíu, hvítlauksrifi, chili flögum, salti og pipar.
  2. Því næst gerið þið tempura deigið. Blandið saman hveiti og matarsóda í skál. Hrærið saman eggjarauðu og sódavatni og blandið saman við hveitiblönduna. Saltið og piprið eftir smekk. Haldið tempura blöndunni kaldri því þá verður deigið stökkara og betra.
  3. Hellið olíu í rúmgóðan pott þannig að olían þeki risarækjurnar. Hitið olíuna. Gott ráð er að dýfa tréskafti ofan í t.d. á trésleikju og ef að það sýður (bubblar) þá er olían tilbúin.
  4. Hellið hveiti á disk og veltið risarækjunum upp úr því. Að því loknu veltið þeim upp úr tempura deiginu og steikið upp úr olíunni þangað til að rækjurnar eru orðnar gylltar og stökkar. Ég nota stáltangir í þetta verk. Það tekur í kringum 2 mínútur að fullelda rækjurnar.
  5. Steikið tortillurnar upp úr smá olíu og fyllið þær með salatinu, risarækjunum, sósunni og toppið svo með kóríander. 

Kínakálsalat

  1. Skerið kínakál, tómata, rauðlauk, avókadó og chili smátt. Kreistið safa úr lime og saltið og piprið. Blandið öllu vel saman.

Sriracha sósa

  1. Blandið saman majónesi, sriracha sósu, kóríander og safa úr lime.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! ;)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

HÆ TRENDNET

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

  1. Telma

    31. March 2020

    Tetta er alveg gjeggjad??
    Takk fyrir mig?

    • Hildur Rut

      31. March 2020

      Æj gaman að heyra!:D Takk kærlega <3