fbpx

ÖÐRUVÍSI BAUNASÚPA Á SPRENGIDAG

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR
Baunasúpa er klassískur réttur sem margir elska að fá sér á sprengidag. Mér finnst baunasúpa mjög góð en hef aldrei eldað hana sjálf. Ég fékk hana oft þegar ég var lítil en fæ hana ekki svo oft í dag. Þá fannst mér tilvalið að prófa að gera hana á minn hátt með baunasúpugrunni í samstarfi við Kötlu. Ég toppaði súpuna með sýrðum rjóma, stökku beikoni og steinselju, það setti punktinn yfir i-ið og gerði hana ferskari. Margir setja beikon ofan í súpuna en ég ákvað að baka beikonið þangað til að það varð mjög stökkt og bera það fram með súpunni í staðinn fyrir saltkjötið. Svo er líka bara mjög gott að sleppa alveg kjötinu. Súper einfaldur og saðsamur réttur sem tekur 30 mínútur í eldun. Mæli með að þið prófið.
Fyrir 4
1 baunasúpugrunnur frá Kötlu
1 lítill blaðlaukur eða ½ stór blaðlaukur
1 lítil sæt kartafla eða ½ stór sæt kartafla
2-3 gulrætur
6-8 kartöflur
6-8 beikonsneiðar
3-4 dl vatn (eftir smekk, fer eftir hvað þið viljið hafa súpuna þykka)
Cayenne pipar
Pipar
Sýrður rjómi
Fersk steinselja
Aðferð
  1. Skrælið kartöflurnar og skerið allt grænmetið í litla bita.
  2. Hellið súpunni í pott.
  3. Blandið grænmetinu saman við súpuna. Kryddið og bætið vatni eftir þörfum.
  4. Látið súpuna malla í 30 mínútur eða þar til grænmetið er orðið eldað. Passið að láta hana ekki bullsjóða.
  5. Bakið beikonið á meðan súpan mallar í pottinum. Bakið það við 200°C í 10-13 mínútur eða þar til það er orðið mjög stökkt. Skerið beikonið í litla bita þegar það er tilbúið.
  6. Berið súpuna fram með sýrðum rjóma, beikoni og ferskri steinselju.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið ;)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

VALENTÍNUSARKOKTEILL: COSMOPOLITAN

Skrifa Innlegg