fbpx

GRILLSPJÓT MEÐ CHIMICHURRI & FERSKUR MAÍS

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Óvá, grilluð nautaspjót með grænmeti, chimichurri sósu og ferskum maís er afar gómsætur réttur. Ég útbjó uppskriftina í samstarfi við Krónuna þar sem öll hráefnin fást. Chimichurri er argentísk sósa sem er svo fersk og góð en hún inniheldur ferskar kryddjurtir, ólífuolíu, hvítvínsedik, chili og hvítlauk. Sósan er er ekki aðeins borin fram með kjötinu heldur er það látið marinerast í henni og er því gott að undirbúa kjötið með góðum fyrirvara svo það fái tíma til að drekka í sig dásamlega bragðið af sósunni. Ég notaði tilbúið kartöflusmælki með timian sem fæst í Krónunni og kallast Meðlæti með læti og vá hvað það var gott með nautakjötinu. Þægilegt að þræða allt á grillpinnann. Maískólfar með smjöri, parmesan og cayenne pipar setja svo punktinn yfir i-ið en þeir í miklu uppáhaldi hjá mér og fjölskyldunni. 

Uppskrift gerir 7 grillspjót
400-500 g Nauta innralæri eða annað nautakjöt
1 rauðlaukur, skorinn í bita
7-10 sveppir
1 pakkning Smælki með timian frá Krónunni

Chimichurri sósa
½ rauðlaukur, smátt skorinn
1 rauður chili, smátt skorið
3-4 hvítlauksrif, rifin eða pressuð
1 tsk salt
80 ml hvítvínsedik
½ dl steinselja, smátt skorin
1 dl kóríander, smátt skorið
2 tsk þurrkað oregano
1 dl ólífuolía

Maískólfar með parmesan
Maískólfar
Smjör
Rifinn parmesan ostur
Cayenne pipar

Aðferð

  1. Byrjið á því að útbúa Chimichurri sósuna. Smátt skerið rauðlauk, steinselju og kóríander. Fræhreinsið chili og skerið smátt. Skerið allt extra smátt.
  2. Blandið saman rauðlauk, chili, hvítlauksrifi, hvítvínsediki og salti í skál. Leyfið að standa í 10 mínútur.
  3. Hrærið steinselju, kóríander, oregano og ólífuolíu saman við.
  4. Skerið nautakjötið í bita og blandið saman við 4 msk af chimichurri sósunni. Leyfið því að standa í klst eða meira. 
  5. Þræðið kjöt, rauðlauk, sveppi og smælki til skiptis á grillpinna. 
  6. Grillið pinnana í 4-5 mínútur á hverri hlið eða þar til kjötið er eldað eftir smekk.
  7. Berið fram með restinni af chimichurri sósunni og grilluðum maískólfum.

Maískólfar með parmesan

  1. Leggið maískólfana í kalt vatni í 20 mínútur og þerrið.
  2. Losið hýðið utan af kólfinum en passið að slíta það ekki af stilkinum. Losið alla þræðina utan af maísnum. Lokið maísnum aftur með blöðunum og bindið fyrir endana með maísblaði. 
  3. Grillið maískólfana á meðalheitu grilli í 15-20 mínútur.
  4. Smyrjið kólfana með smjöri og veltið þeim upp úr rifnum parmesan osti. Kryddið með cayenne pipar eftir smekk.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & NJÓTIÐ !

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

GRILLAÐAR KJÚKLINGALUNDIR & KARTÖFLUSALAT

Skrifa Innlegg