fbpx

FYLLTAR KJÚKLINGABRINGUR MEÐ RJÓMAOSTI & JALAPENO

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Mhm…vá þessi réttur er ótrúlega bragðgóður og er tilvalinn til að útbúa um helgina eða bara hvenær sem er. Ég útbjó uppskriftina samstarfi við Innnes. Kjúklingabringur fylltar með Light Philadelphia rjómaosti, cheddar osti, fersku jalapeno og Jalapeno Tabasco sósu. Rétturinn er svo borinn fram með sætkartöflufrönskum með ljúffengri jalapeno sósu og avókadósalsa. Fyrir þá sem vilja ekki hafa þetta of sterkt þá er gott að minnka aðeins magnið af jalapeno og Tabasco sósunni. Mér finnst samt alveg ótrúlega gott þegar þetta rífur aðeins í og næst ætla ég að bæta aðeins meiri jalapeno í fyllinguna. Gott að njóta með ljúffengu og ísköldu hvítvíni.

Fyrir 4
4 afþýddar kjúklingabringur frá Rose Poultry (1 poki)
200 g Light Philadelphia rjómaostur (1 pkn)
1 msk ferskur jalapeno, smátt skorinn
1 dl rifinn cheddar ostur + smá aukalega til að strá yfir kjúklinginn
1-2 tsk Tabasco jalapeno sósa
1 dl rifinn cheddar ostur

Sætkartöflufranskar og sósa
1 sæt kartafla
1-2 msk ólífuolía
Krydd: 1 tsk saltflögur, ¼ tsk pipar, 1 tsk laukduft, 1 tsk cumin
Sósa
180 g sýrður rjómi
2 tsk Tabasco jalapeno sósa
Krydd: ½ tsk saltflögur, ¼ tsk pipar, ½ tsk laukduft, ½ tsk hvítlauksduft

Ferskt avókadó salsa
1 avókadó
18-20 kokteiltómatar
Safi úr ½ lime
Smátt skorið ferskt kóríander eftir smekk

Aðferð

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaosti, rifnum cheddar osti, ferskum jalapeno, Tabasco sósu, salti og pipar. 
  2. Snyrtið kjúklingabringurnar og skerið gat í miðjuna á þeim þannig að úr verði vasi.
  3. Fyllið bringurnar með rjómaostafyllingunni (gott að nota skeið).
  4. Leggið þær í eldfast mót. Saltið og piprið þær og dreifið rifnum cheddar osti yfir eftir smekk.
  5. Bakið í 40 mínútur við 190°C eða þar til þær eru eldaðar.

Sætkartöflufranskar og sósa

  1. Afhýðið sætu kartöfluna og skerið í strimla.
  2. Setið strimlana í skál og blandið vel saman við ólífuolíu og krydd.
  3. Dreifið á bökunarplötu þakta bökunarpappír og bakið í um 20-25 mínútur.
  4. Blandið öllum hráefnum í sósuna í skál og hrærið vel.

Ferskt avókadó salsa

  1. Skerið avókadó, tómata og kóríander smátt. Kreistið safa úr lime yfir og blandið saman.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & NJÓTIÐ! ♥

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

SÚKKULAÐI VEGAN GRANÓLA BITAR

Skrifa Innlegg