fbpx

FISKIBORGARI Í TEMPURA & KARTÖFLUBÁTAR

AÐALRÉTTIRUPPSKRIFTIR

Hafið þið smakkað fiskiborgara? Þessi er sjúklega góður! Djúpsteiktur þorskhnakki í tempura deigi með dásamlegri sósu, avókadó, tómötum og hvítkáli í brioche hamborgarabrauði. Ég bar þetta fram með kartöflubátum með fetaosti og steinselju. Ég er búin að gera þennan borgara nokkrum sinnum og hann er alltaf jafn góður! Þorskhnakki passar mjög vel í þennan rétt en ég er viss um að það er gott að vera með annan hvítan fisk eins og t.d. löngu.

Uppskrift gerir 4 borgara
½ dl hveiti
Cayenne pipar
Laukduft
Salt og pipar
Þorskhnakkar 600-700 g
Avókadó, skorið í sneiðar
Tómatar, skornir í sneiðar
Hvítkál, skorið í þunnar ræmur
Gulrætur, rifnar (má sleppa)
4 brioche hamborgarabrauð

Tempura deig
1½ dl hveiti
¼ tsk matarsódi
200 ml sódavatn, mjög kalt
1 eggjarauða

Sósa
4 msk majónes
1 msk sýrður rjómi
1 msk safi úr sítrónu
1-2 msk jalapeno (má sleppa)
2 msk capers, lítið
Salt og pipar

Kartöflubátar með fetaosti og steinselju
8-10 kartöflur
Ólífuolía
Chili flögur
Salt og pipar
1 dl stappaður fetakubbur
1 dl fersk steinselja

Aðferð

  1. Skerið fiskinn í bita sem passa í hamborgarabrauðin.
  2. Dreifið hveiti og kryddi á disk. Veltið fiskibitunum upp úr hveitinu.
  3. Því næst útbúið þið tempura deigið. Blandið saman hveiti og matarsóda í skál. Hrærið saman eggjarauðu og sódavatni og blandið saman við hveitiblönduna. Saltið og piprið eftir smekk. Munið að halda tempura blöndunni kaldri því þá verður deigið stökkara og betra.
  4. Hellið olíu í pott þannig að olían þekji fiskinn. Hitið olíuna. Gott ráð er að dýfa tréskafti ofan í t.d. á trésleikju og ef að það sýður (bubblar) þá er olían tilbúin.
  5. Veltið fiskinum upp úr tempura deiginu og steikið upp úr olíunni í 6-8 mínútur. Fiskurinn verður gylltur og stökkur. Ég nota stáltangir í þetta. 
  6. Hitið hamborgarabrauðin í ofni og smyrjið sósunni á botninn og dreifið hvítkálinu og gulrótum. Setjið fisk, tómata, avocado, meiri sósu og lokið borgaranum.

Sósa

  1. Skerið jalapeno smátt. Blandið öllu sama með skeið. 

Kartöflubátar með fetaosti og steinselju

  1. Skerið kartöflurnar í báta, veltið þeim upp úr ólífuolíu og kryddið.
  2. Setjið kartöflubátana í eldfast mót eða dreifið þeim á ofnplötu þakta bökunarpappír. 
  3. Bakið í 20-30 mínútur. Takið þá út þegar það eru 6-8 mínútur eftir af bökunartímanum, dreifið fetaosti yfiir og setjið aftur inn í ofn.
  4. Saxið steinselju og dreifið yfir kartöflurnar þegar þær eru tilbúnar.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

GRANÓLA MEÐ RISTUÐUM KÓKOSFLÖGUM

Skrifa Innlegg