Hvað er betra en dásamlegur bakki stútfullur af grilluðum bruchettum ásamt allskonar góðgæti og ískalt Prosecco rosé með? Maí byrjar heldur betur vel með þessu yndislega veðri og svona réttur á vel við sem snarl eða forréttur í sólinni. Bruschettur með þeyttum fetaosti, jarðaberjum og fíkjum og bruschettur með ferskum mozzarella, tómötum, basiliku og hráskinku. Fullkomin blanda og gaman að raða þessu fallega upp á bakka. Það er líka svo gaman að skála í fallegum glösum en þessi eru úr Heimahúsinu og fást hér.
1-2 bruschetta brauð (ég keypti súrdeigs)
½ dl ólífuolía
2 hvítlauksrif, rifin eða pressuð
125 g hreinn fetaostur
100 g rjómaostur (ég nota Philadelphia)
2 msk hunang
1 msk pistasíuhnetur (má sleppa eða nota annað)
½ tsk sesam fræ (má sleppa eða nota annað)
200-250 g kokteiltómatar
120-180 g ferskur mozzarella
2 msk fersk basilika
1 msk ólífuolía
Salt og pipar
Hráskinka og salami eftir smekk
Jarðaber
Fíkjur
Aðferð
- Byrjið á því að hræra saman fetaost, rjómaost og hunang með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til blandan verður mjúk. Setjið blönduna í litla skál og dreifið smátt söxuðum pistasíuhnetur og sesamfræjum (eða notið aðrar hnetur og fræ í staðinn).
- Skerið tómata, mozzarella og basilku smátt. Blandið öllu vel saman í skál og hrærið saman við ólífuolíu, salti og pipar.
- Skerið jarðaberin og fíkjurnar í bita.
- Blandið saman ½ dl ólífuolíu og hvítlauksrifi í skál.
- Skerið baguette í sneiðar. Dreifið sneiðunum á bökunarpappír eða bakka og penslið báðar hliðar með hvítlauksolíunni.
- Steikið brauðið á grillpönnu eða á grilli þar til það verður stökkt og gott.
- Raðið öllu fallega á bakka og njótið vel!
VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & GÓÐA HELGI ♥
// HILDUR RUT
INSTAGRAM: @hildurrutingimars
Skrifa Innlegg