fbpx

BANH MI SAMLOKA MEÐ KJÚKLING

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Ég gerði þessar girnilegu víetnömsku samlokur sem kallast Banh mi í samstarfi við Hatting á Íslandi og vá hvað þær eru góðar! Ég er mikið búin að nota þessi súrdeigsrúnstykki frá Hatting og finnst þau dásamlega góð. Því langaði mig að prófa að gera meiri máltíð úr þeim og það heppnaðist svona líka vel. Það er ákaflega þægilegt að eiga þau til í frystinum til að grípa í. Ég hef nokkrum sinnum fengið Banh mi samloku á veitingastað og alltaf líkað það vel. Samlokurnar eru blanda af franskri og víetnamskri matargerð gerðar úr baguette brauði og oft fylltar með einhversskonar kjöti, súrsuðu daikon og gulrótum, gúrku, chili og kóríander. Hér kemur uppskrift af minni útgáfu af Banh mi en hún inniheldur kjúkling í ljúffengum kryddlegi. Kryddlögurinn er það ljúffengur að ég ætla klárlega að nota hann í grillmatinn í sumar.

Uppskrift gerir 7-8 samlokur (ég mæli með 2-3 á mann)
7-8 úrbeinuð kjúklingalæri

Kryddlögur:
Safi úr ½ lime
1 msk ólífuolía
1 msk sojasósa
2 stór hvítlauksrif
1 stórt chili (eða 2 lítil), smátt skorið
½ msk ferskt engifer, rifið
Laukduft
Salt og pipar

7-8 súrdeigsrúnstykki frá Hatting
Daikon radísa
1-2 stórar gulrætur
½ gúrka
Vorlaukur
Ferskur kóríander
Majónes
Sriracha sósa

Aðferð

  1. Byrjið á því að útbúa kryddlöginn. Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið kjúklingnum saman við. Látið kjúklinginn standa í minnst klukkustund í kryddleginum.
  2. Bakið kjúklinginn í 35-40 mínútur við 190°C eða þar til hann er fulleldaður.
  3. Á meðan kjúklingurinn bakast þá skerið þið grænmetið. Skerið daikon og gúrkur í strimla. Rífið gulræturnar. Saxið vorlaukinn og kóríander.
  4. Þegar kjúklingurinn er orðinn fullbakaður þá skerið þið hann í bita. 
  5. Bakið rúnstykkin samkvæmt leiðbeiningum og skerið þau í tvennt.
  6. Smyrjið þau með majónesi, dreifið daikon, gulrótum og gúrkum yfir. Því næst setjið kjúkling, vorlauk og kóríander. Að lokum dreifið þið Sriracha sósunni yfir. 

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

DÁSAMLEGIR PIZZASNÚÐAR

Skrifa Innlegg