fbpx

STAÐAN: FLUTNINGAR

Góðan daginn! Það er lítið annað að frétta af mínu heimili en flutningar og allt sem flutningum tengist. Mig langaði að gefa ykkur smá update á stöðu mála og smá innsýn inn í þessi ósköp sem framundan eru hjá okkur, hvenær við flytjum, hvað við ætlum að gera í íbúðinni og þess háttar. Staðan er semsagt sú að við fáum afhent 1. desember, við afhendum einnig okkar íbúð 1. desember! Ekki spyrja mig af hverju það æxlaðist svoleiðis, það er ekki aðal atriðið. ;) Við þurfum því að flytja til mömmu og pabba í smá tíma á meðan við gerum það sem við ætlum að gera við íbúðina. Við erum alls ekki að fara í neinar stórvægilegar framkvæmdir en það sem við ætlum að gera mun hinsvegar gjörbreyta íbúðinni. Það eru mjög fallegar innréttingar frá Brúnás í íbúðinni, við ætlum að sjálfsögðu að halda þeim en þær eru allar í þessum klassíska eikarlit, sem og allir skápar, hurðir og gólf. Við ætlum að mála þetta allt, innréttingar, skápa og hurðir og einnig ætlum við að pússa parketið og lakka það í öðrum litatón. Veggirnir verða svo allir málaðir, ný gluggatjöld sett í alla glugga, svo þetta eitt og sér mun breyta henni stórkostlega. Einnig þarf svo aðeins að eiga við baðherbergið og þvottahúsið. Ég ætla að reyna að leyfa ykkur að koma með í þetta verkefni eins mikið og ég get. Sýna ykkur hvernig íbúðin er þegar við tökum við henni, sýna ykkur frá framkvæmdum og þar til að allt verður tilbúið. Líkt og ég hef áður sagt þá er heimili verkefni sem er aldrei fullkomnlega tilbúið, í raun eilífðar vinna sem alltaf er hægt að dunda sér í. Það er alls ekki raunhæft að leyfa sér að halda það að allt verði tilbúið fyrir jólin. Það er sannarlega ekki svoleiðis. Við höfum t.d. verið að kaupa okkur húsgögn sem þurfti að sérpanta og taka sum 8-12 vikur í framleiðslu. Sum rými verða því ekki fyllt fyrr en einhverntímann á næsta ári. Þetta kemur allt með kalda vatninu og það er afar mikilvægt að vera þolinmóður í svona verkefni! Fullt af ákvörðunum sem þarf að taka og ýmislegt sem er ekki hægt að ákveða fyrr en maður er fluttur inn! Litir, gardínur og húsgögn er ég því mikið með á heilanum þessa dagana ásamt því að vera hægt og rólega að koma búslóðinni fyrir í kössum. Tímasetningin er kannski ekki sú besta heldur þar sem það eru að koma jól og það er alltaf eitthvað auka stress sem því fylgir. Þessi tími líður svo ótrúlega hratt, alltaf nóg um að vera. Staðan á heimilinu er nokkurn veginn svona, allt komið af veggjum og verið að týna úr hillum. (Þetta er meira að segja smá glansmynd þar sem það er allt í drasli) ;)

En eins og þið kannski sáuð  hér fyrir neðan þá var ég að selja af mér föt og skó. Það tók miklu meiri tíma en mig óraði fyrir, en ég er búin að vera í fullri vinnu og rúmlega það við þetta síðustu daga. Ég hef eflaust aldrei selt jafn mikið magn og núna og því er það svosem skiljanlegt. Að finna þetta til, taka myndir af öllum flíkum, setja þær á netið, svara óteljandi skilaboðum, mæla sér svo mót við alla um að koma og sækja. Þetta er mikil vinna en ofsalega þess virði! Mér þykir rosalega vænt um að geta gefið þessum flíkum nýtt líf og eins fékk ég mörg ómetanleg skilaboð frá góðum “kúnnum” en ég fékk margar til mín oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á meðan söluferlinu stóð. Ég er hinsvegar fegin að þessu fari að ljúka en ég nefndi að ég mun eflaust setja inn eina og eina flík í gegnum flutningana svo fyrir áhugasama er ykkur velkomið að fylgjast með því. Ég ætla svo að fara með restina af því sem seldist ekki sem er dáágóður slatti í Konukot eða Kvennaathvarfið. Mig langaði ofsalega að koma flíkunum og skónum á stað þar sem að þörfin væri mikil og ég vissi að þetta yrði nýtt og fólk nyti góðs af. Þarna er hægt að finna marga kjóla sem vonandi gæti orðið jólakjóll einhvers. Ég spurðist fyrir á Instagram til að fá góðar ábendingar um hvar þörfin væri mest, hvort sem það væri einn einstaklingur eða stofnun. Ég fékk óteljandi skilaboð sem mér þótti afar vænt um! Ég fékk yfir 100 ábendingar um Kvennaathvarfið og Konukot svo það segir mér ýmislegt. Ef þið eruð í sömu hugleiðingum þá vitið þið allavega af því, eflaust kærkomið svona fyrir jólin. <3

Kona í aðeins öðruvísi stússi en vanalega. Þennan daginn var það Álnabær, Ormsson og Slippfélagið. Í dag er það IKEA…. Sjáum til hversu lengi ég mun nenna að skvísa mig svona upp fyrir þessi mission. ;)

Þið sem eruð áhugasöm að fylgjast með flutningaferlinu þá minni ég á Instagramið mitt: fanneyingvars 

Þangað til næst,
xxx Fanney

FÖT TIL SÖLU

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

  1. Fanney Ingvars

    15. November 2018

    Takk elsku! Ég mun eflaust þurfa að fá ráðleggingu frá aðal reynsluboltanum og fagurkeranum á einum tímapunkti eða öðrum. ;)
    <3 <3 <3