fbpx

HEIMILIÐ OKKAR –

Mig langaði að leyfa ykkur að koma í heimsókn inn á heimilið mitt á þessum sólríka sunnudegi. Við höfum alltaf verið pínu feimin og spéhrædd við að sína svona ítarlega inn á heimilið okkar. Ég fæ reglulega fyrirspurnir varðandi hin og þessi horn sem ég hef sýnt frá íbúðinni og fólk virðist mjög áhugasamt um hvernig við höfum komið okkur fyrir og hvernig við búum. Við búum sumsé í Hlíðunum, en eins og margir vita er ég fædd og uppalin Garðabæjarmær og eins og eflaust flestir kannast við gat ég ekki ímyndað mér að líða vel á öðrum stað en í Garðabæ. Þegar ég flutti inn til Teits breyttist sú hugsun nánast samdægurs. Hér er dásamlegt að vera, vægast sagt! Ég elska að vera svona miðsvæðis og nálægt öllu. Fæðingarorlofið var draumur einn en við vorum ótrúlega dugleg að labba með vagninn niður í bæ, fá okkur að borða og njóta með allt þetta líf í kringum okkur. Ég mun aldrei gleyma öllum þeim dásamlegu minningum sem hafa átt sér stað hér – já ég ætla bara að leyfa mér að vera væmin. Fyrsta heimilið eftir að ég flutti frá foreldrum mínum, fyrsta alvöru ástin, fyrsta meðgangan, fyrsta barnið og allt þar á milli.

Þegar Teitur Páll keypti þessa íbúð var hún vægast sagt öðruvísi útlítandi. Það má segja að þetta hafi verið týpísk “hólfuð” íbúð í Hlíðunum – með grænum og brúnum innréttingum og afar illa skipulögð ef mér leyfist að segja. Teitur tók strax niður allar innréttingar og braut niður veggi, stækkaði rýmið og breytti skipulagi íbúðarinnar. Þegar ég kom svo í leikana breyttum við henni enn frekar og færðum eldhúsið inn í borðstofu og gerðum barnaherbergi úr gamla eldhúsinu. Þannig varð íbúðin aftur tveggja svefnherbergja (þriggja herbergja), og meikaði strax töluvert meiri sens. Við hlægjum oft af því að með komu minni höfum við breytt íbúðinni úr piparsveina íbúð yfir í fallega fjölskylduíbúð, en það er eiginlega ekki hægt að orða það betur. Kompuna notum við svo sem fataherbergi en ég sagði ykkur frá breytingunum sem áttu sér stað um daginn. Við tókum semsagt gömlu innréttingarnar sem voru þar og settum upp skápa og gerðum það töluvert huggulegra. Þó það sé alltaf erfitt að koma jafn miklu magni af fötum fyrir í litlu rými og láta það líta vel út.

Svefnherbergið okkar. Við keyptum okkur fyrir um hálfu ári síðan nýtt rúm í Svefn&Heilsu. Við ákváðum að fá okkur stærðina 200×200, svo það er örlítið þröngt í þessu rými en reddast samt alveg.

Gangurinn. Þetta litla útskot finnst mér gera heilan helling fyrir ganginn og stækka hann mikið. Einnig fá “kraftaverkahillurnar” okkar góðu, Billy bóka/skóhillurnar að prýða ganginn en það er önnur slík akkúrat hinum megin við vegginn. Ég gerði ítarlegri færslu um skóhirslurnar okkar HÉR fyrir áhugasama.

Eldhúsið. Þetta svæði var í raun borðstofa sem nýttist ekki í neitt annað. Þessi breyting bæði stækkaði og opnaði eldhúsið og við erum vægast sagt himinlifandi með þessa útkomu. Við gátum líka bætt við skápum með þessu móti og aukið því skápaplássið í eldhúsinu sem er aldrei nóg af! Ég er líka alltaf jafn ótrúlega skotin í SMEG ísskápnum okkar. Þetta var klárlega breyting til hins betra. Hér göngum við svo út á notalega pallinn okkar og stóran garð.

Stofan. Hér er ofsalega notalegt að vera. Gamla sófaborðið var alls ekki nógu barnvænt svo því var skipt út – þetta ágæta og ódýra IKEA sófaborð prýðir því stofuna á meðan.

Barnaherbergið. Hér var eldhúsið fyrir breytingar. Meikar miklu meiri sens svona ekki satt? – ég gerði ítarlega færslu um barnaherbergið hennar dóttur minnar sem þið getið skoðað HÉR!

Baðherbergið. Mér finnst innréttingarnar inni á baði ótrúlega fallegar og sturtan sérstaklega. Vel nýtt í litlu rými.

Fataherbergið. Það er töluvert huggulegra en það var þó það sé alltaf eins og ég nefndi áðan, mjög erfitt að koma svona miklu magni af fötum fyrir á jafn litlu svæði og láta það líta huggulega út.

________________________________________________________________

Það sem að mér þykir LANG erfiðast að skrifa hér með þessari færslu er það að þessi dásamlega fallega eign okkar er komin Á SÖLU!! Við vorum alls ekki í neinum flutningahugleiðingum enda líður okkur ótrúlega vel hérna og íbúðin alveg nógu stór fyrir okkur þrjú. Við hins vegar rákumst á fasteign sem að heillaði okkur ótrúlega mikið svo við í hvatvísi okkar fórum að skoða eignina. Sú hvatvísi endaði allavega svo að nú neyðumst við til að setja elsku Barmahlíðina okkar á sölu. Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að hlægja eða gráta – þetta gerðist allt svo hratt og ég get ekki ímyndað mér að kveðja þessa dásamlegu íbúð og þessa drauma staðsetningu. En heimilið er þar sem hjartað er og ég veit fyrir víst að okkur mun líða vel á nýja staðnum. Allar dásamlegu minningarnar héðan munu alltaf fylgja okkur. <3

Fyrir áhugasama eru nánari upplýsingar og upplýsingar um opna húsið að finna á fasteignavef Vísis – þið farið beint inn á eignina með því að smella HÉR! <3

Þangað til næst,

xxxx Fanney

MY SKIN CARE ROUTINE

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Elísabet Gunnars

    27. August 2018

    Æ fallegt hjá ykkur og ég tengi við tilfinninguna. En næsta heimili verður jafn gott þegar þið færið sömu hluti og sama fólk undir nýtt þak. Gangi ykkur vel ♥️