fbpx

GLEÐILEGT NÝTT ÁR

BRÚÐKAUPFRAMKVÆMDIRHEIMILIÐHÚSGÖGNJÓLINKOLBRÚN ANNALÍFIÐOUTFITPERSÓNULEGTSMÁFÓLKIÐ

Gleðilegt nýtt ár elsku vinir. Ég vona að hátíðarnar hafi verið ykkur gleðilegar með ástvinum. Mig langaði að fara “örstutt” í gegnum það sem stóð upp úr í desember mánuði hjá mér, aðeins til að borga fyrir hversu óvirk ég var þann mánuðinn sökum anna. Hér kemur því framkvæmda uppfærsla frá íbúðinni sem og hinar ýmsu uppákomur desember mánaðar, allt í bland. Vonandi hafið þið góðan tíma. ;)

Desember hófst á jólahlaðborði með vinnunni hans Teits. Daginn eftir jólahlaðborðið var dagurinn sem við afhentum Barmahlíðina sem og fengum lyklana afhenda af okkar íbúð svo Teitur ákvað að gera örlítið meira úr fögnuðinum og hafði pantað fyrir okkur hótelgistingu á Reykjavík Konsúlat Hótel. Æðislegt kvöld og ekki verra að hefja stóra daginn með dýrindis morgunmat og öllu því sem fylgir að gista á fallegu hóteli. Gaman að vera túristi í miðborginni og nauðsynlegt að muna að njóta lífsins líka þrátt fyrir miklar annir.

____________________________________________________________________________

Nýbúin að fá íbúðina okkar afhenta þann 1. desember. Það var hellings spasl vinna sem beið okkar og fór nánast heil helgi í það eitt að spasla aftur og aftur ofan í götótta veggina. Við máluðum svo í kjölfarið en hver einn og einasti veggur í íbúðinni var málaður svo það var mikil vinna út af fyrir sig. Ég ætla að gera sér færslu hér á Trendnet varðandi það fljótlega, hvaða liti við völdum og svo framvegis en ég er ólýsanlega ánægð með útkomuna á litavali!

Hér erum við byrjuð að lakka eldhúsinnréttinguna og forstofuskápinn. Við gerðum það í fjórum skrefum. 1. Þrífa vel og pússa 2. Grunna 3. Lakka 4. Lakka seinni umferð. Ég ætla einnig að fara vel í gegnum þessa framkvæmd með ykkur. Ég fékk ótrúleg viðbrögð við þessu verkefni. Fyrirspurnir, áhugi og ábendingar úr öllum áttum sem var ofsalega gaman að finna fyrir. Greinilega margir sem eru í sömu stöðu og langar að breyta til. Við erum enn að bíða eftir ísskápnum sem er á leið til landsins og að geta sett plötuna framan á uppþvottavélina okkar, um leið og það kemur ætla ég að mynda eldhúsið bak og fyrir og segja ykkur svo frá framkvæmdinni skref fyrir skref.

Við ákváðum eftir óteljandi og óþolandi vangaveltur að láta pússa parketið. Við vorum semsagt að væflast með það hvort við ættum að pússa það og lakka, eða hreinlega að rífa parketið upp og leggja nýtt. Við keyptum fagþjónustu sem sá um þessa framkvæmd fyrir okkur en við vildum losna alfarið við gula litinn á parketinu. Myndirnar hér að ofan eru teknar þegar búið er að pússa parketið niður. Við vorum auðvitað ástfangin af þessum ljósa lit og vildum helst halda honum. Við vissum þó betur því parket dökknar alltaf aðeins aftur eftir að það er svo lakkað.

Hér er parketið svo tilbúið. Búið að lakka og þið sjáið að það hefur dökknað aðeins. Við vorum samt sem áður í skýjunum með útkomuna og ofsalega fegin að það dökknaði ekki meira en þetta. Guli liturinn í parketinu alveg farinn og parketið töluvert ljósara og fallegra en fyrr. Við vorum því ofsalega fegin að hafa tekið þessa ákvörðun. Við létum ekki hvítta parketið en við völdum allra mattasta glæra lakk sem völ er á. Við grunnuðum og máluðum einnig alla lista í íbúðinni (svakaleg vinna haha..). Við máluðum þá í sama lit og viðeigandi veggur en ég er sérstaklega ánægð með þá ákvörðun. Það kemur ótrúlega vel út og ég mæli með fyrir fólk sem veit ekki hvað það eigi að gera við listana.

Hér er verkefnið sem ég er svo stolt af aðeins farið að taka á sig mynd. Mig langar að skrifa ofsalega mikið með þessum myndum en ég ætla að bíða með það þar til ég geri sér færslu varðandi þessa framkvæmd. Við erum í skýjunum með þessa útkomu en þessar myndir voru teknar um leið og plöturnar fóru upp. Allt annað líf og innréttingin eins og ný!

Nokkrar af litlu draumadísinni minni í desember, afar mikilvægt að koma henni að þar sem hún er náttúrulega í aðalhlutverki í lífi okkar allra í kringum hana. ;)

Dásamlegur jólahittingur með vinkonum.

Þann 22. desember giftist Jóna mín besta vinkona ástinni sinni, honum Hólmari. Það var dásamlegur dagur frá upphafi til enda og fékk ég þann heiður að vera veislustjóri ásamt algjörum snillingum. Desember mánuður fór því líka mikið í undirbúning fyrir brúðkaupið. Dagurinn var fullkominn og brúðhjónin þau allra fallegustu. Takk fyrir mig <3

Veislustjórar í undirbúningsvinnu vs. veislustjórar að skála fyrir vel heppnuðu kvöldi! Snillingar.

________________________________________________________________________________

Ég ætla að enda þessa löngu færslu á þessum tveimur myndum sem ég hef nýlega birt á Instagraminu mínu af íbúðinni okkar en hún er hægt og rólega að taka á sig mynd þrátt fyrir að ýmis verkefni séu eftir. Ég hlakka til að sýna og segja ykkur meira.

Takk fyrir að lesa!
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

GLEÐILEGA HÁTÍÐ

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

    • Fanney Ingvars

      3. January 2019

      Takk sömuleiðis elsku besta <3