fbpx

GLEÐILEGA HÁTÍÐ

JÓLINKOLBRÚN ANNALÍFIÐOUTFITPERSÓNULEGT

Gleðilega hátíð kæru vinir og lesendur Trendnet. Ég hef því miður verið ansi off þennan mánuðinn og er stór útskýring fyrir því. Desember mánuður og allur aðdragandi jólanna hefur verið aðeins öðruvísi hjá okkur fjölskyldunni þetta árið þar sem við fengum afhenda lyklana af nýju íbúðinni okkar þann 1. desember og við tóku framkvæmdir sem tóku lengri tíma en ráð gerðu fyrir. Við fluttum inn þann 19. desember, þrátt fyrir að hér væri ýmislegt eftir ógert. Síðan þá höfum við reynt að koma okkur fyrir, undirbúa jólin og á sama tíma var ég að skipuleggja brúðkaup hjá minni bestu vinkonu sem gifti sig þann 22. desember. Ýmislegt hefur því þurft að mæta afgangi eins og til dæmis að skreyta og setja upp jólatré. Pínu erfitt fyrir jólabarnið sem ég er en jólin koma víst alltaf, sama hvað og hversu tilbúinn maður er fyrir þau. Dóttir mín hélt svo upp á jólin með 39 stiga hita þetta árið svo að veikindin banka líka upp á hvenær sem er óháð því hvaða dagur er. Trendnet hefur því miður líka þurft að mæta afgangi – ég lýg því ekki þegar ég segi að ég settist í fyrsta sinn upp í sófa og horfði á mynd í gærkvöldi síðan í nóvember og það var einungis vegna þess að þá hafði ég nælt mér í smá flensu. Ég þurfti því að hringja mig inn veika í jólaboð í gærkvöldi og hafði í fyrsta sinn “afsökun” fyrir því að leggjast upp í sófa. Já ég hugsa að við reynum að velja aðra tímasetningu næst þegar við flytjum, ekki korter í jól! ;)

Gleðilega hátíð elsku vinir og fjölskylda. Þakklæti er mér alltaf efst í huga yfir hátíðarnar. Það að geta haldið heilög jól með ástvinum er nefnilega alls ekki sjálfsagt og flestir sem eiga um sárt að binda þykja jólin erfiðasti tími ársins. Ég er ofsalega heppin með allt mitt fólk og þá sérstaklega þennan fallega mann og litla einkaafkvæmið okkar. <3 Ég vona innilega að allir hafi haft það sem allra best.

Íbúðin okkar er loksins farin að taka á sig smá mynd þrátt fyrir að það sé ýmislegt eftir ógert. Ég hef fengið óteljandi fyrirspurnir í gegnum framkvæmdirnar varðandi hitt og þetta og hef ég svarað öllum að Trendnet verði minn vettvangur til að koma öllu vel frá mér varðandi framkvæmdirnar. Þegar allt verður tilbúið, (sem gerist reyndar aldrei, en þá meina ég svona nokkurn veginn tilbúið), þá mun ég setja inn fyrir og eftir myndir, lýsa öllum framkvæmdum skref fyrir skref og fleira. Ég kem sterk inn hér strax aftur eftir áramótin! Ég segi ykkur líka betur frá því sem stóð upp úr í desember von bráðar, ég vildi bara rétt stökkva inn til að láta vita að ég væri á lífi og til þess að óska ykkur gleðilegra jóla! Vonandi hafið þið haft það sem allra, allra best.

Hlýjar jólakveðjur til ykkar,
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

JÓLAGJAFAHUGMYNDIR / FYRIR HANN

Skrifa Innlegg