fbpx

ALL ENDINGS HAVE ANOTHER BEGINNINGS

Full dramatískur titill kannski? Vissulega! Þessi setning á samt við svo margt og oft gott að hafa þessi orð á bakvið eyrað. Oft eigum við það til að festast í sama sessi og vera hrædd við að breyta til. Sumir þurfa þess alls ekki á meðan aðrir hafa ofboðslega gott af því. Megin ástæða þessarar færslu var nú samt sem áður á persónulegu nótunum, eins og svo oft áður. Ég var nú bara að breyta um starfsvettvang, eða öllu heldur skipta um fyrirtæki. Sem er alls ekki svo stórkostleg breyting. Það er hinsvegar margt annað í gangi á okkar heimili núna en dóttir mín er líka að byrja í aðlögun á ungbarnaleikskóla. Við mæðgur höfum verið svo heppnar að fá heilt ár saman heima í orlofi svo það er ansi mikil breyting í vændum hjá okkur. Þessari breytingu fylgir ansi mikill aðskilnaðarkvíði af hálfu móðurinnar en almáttugur hvað ég held að við höfum báðar gott af þessu. Ég er spennt að fara að koma lífi okkar nokkurn veginn í rútínu og koma okkur almennilega út í lífið.

Ég semsagt hef starfað sem flugfreyja hjá WOW Air frá nánast upphafi fyrirtækisins og tók þá ákvörðun að færa mig yfir til Icelandair. WOW Air er frábært fyrirtæki sem ég kveð með miklum söknuði og þá allra helst alla dásamlegu samstarfsfélaga mína sem ég kynntist þar. Það hefur verið ótrúlegt ævintýri að byrja hjá fyrirtæki, sem var þá, ansi lítið en á mikilli uppleið. Þegar ég byrjaði flaug WOW til að mynda aðeins til Evrópu svo að stoppin komu ekki fyrr en seinna. Ég var orðin fyrsta freyja sem var ofsalega skemmtilegt og margir eflaust sem spyrja sig af hverju ég ákvað að skipta. Það er allavega spurning sem ég hef svarað ansi oft! Ég er hreinlega ekki með neitt rétt svar. Í miðju fæðingarorlofi ákvað ég einfaldlega að sækja um á hinum staðnum, fékk inngöngu og svo í kjölfarið ákvað ég að skella mér á það. Ég er mjög spennt fyrir sumrinu í bláa búningum og að kveðja orlofs-kósýgallann!

Hér notaði ég myndavélina mína, Canon EOS M100 sem ég er virkilega ánægð með!

Annars er maí mánuður runninn upp og það er ansi mikið um að vera að þessu sinni. Bæði er ég að byrja að fljúga aftur og dóttir mín að byrja á leikskóla. Það er mikið um frídaga, gamla góða Eurovision er á sínum stað, minn maður verður þrítugur og dóttir mín 1 árs. Þessi mánuður mun eflaust fljúga hjá en það er lang skemmtilegast þegar mikið er um að vera!

Þangað til næst,
xx Fanney

Ég er alltaf virk á Instagram: fanneyingvars

 

 

SÍÐUSTU DAGAR

Skrifa Innlegg