fbpx

SÍÐUSTU DAGAR

Mikið líður tíminn hratt! Ég held að við getum öll verið sammála um það. Undanfarnir dagar hafa verið vægast sagt dásamlegir. Ég tala allavega fyrir sjálfa mig þegar ég segi að með hækkandi sólu fylgi aukin hamingja. Þegar veðrið er gott og sólin skín er lífið einfaldlega bara betra! Mig langaði aðeins að segja ykkur frá bæði í máli og myndum hvað ég hef verið að bralla undanfarna daga.

Þar síðustu helgi hittumst við vinkonurnar í mat og drykk. Ég held að flestar mæður tengi við það að svona vinkonuhittingum fækki (eðlilega) við það að verða móðir, en fyrir vikið verða þeir töluvert dýrmætari.

Á mánudaginn var kíktum við mæðgur í heimsókn í Yeoman á Skólavörðustíg. Tilgangurinn var til að kíkja á sample sale hjá Kalda shoes sem eru til sölu í versluninni. Það er alltaf gaman að heimsækja Yeoman, nóg af fallegum vörum þar sem hugurinn girnist. Á myndunum hér að ofan klæðist ég skyrtu frá Yeoman, mig dreymir enn um að eignast hana! Stígvélin eru guðdómleg og eru frá Kalda, sem og bleiku skórnir. Ég fékk þó nokkrar spurningar um hvítu buxurnar mínar. Þær keypti ég í Zöru árið 2012 og uppgötvaði þær aftur síðasta sumar og klippti þær aðeins til. Ótrúlega ánægð með þær og gaman hvað maður les úti um allt núna að hvítar buxur verði aftur aðal málið í sumar?

Regalo Fagmenn. Stutt stopp hér til að halda dúinu góðu – bestu vörurnar. Ég skiptist á að nota Moroccanoil og Maria Nila í hárið mitt.

Á miðvikudaginn tókum við aldeilis mikla skyndiákvörðun og brunuðum upp í sumarbústað beint eftir vinnu. Sumardagurinn fyrsti var á fimmtudeginum svo við ákváðum að nýta fríið og gera eitthvað skemmtilegt. Við fórum fjórar vinkonur ásamt mökum og börnum og mikið var gaman! Svo gaman að þetta eru einu myndirnar sem voru teknar. Við keyrðum aftur í bæinn á föstudagsmorguninn svo fríið var nýtt til hins ítrasta. Dásamleg ferð í meiriháttar félagsskap!

Á föstudagskvöldið ákváðum við að gera vel við okkur og fórum út á borða á Út í bláinn, veitingastaður sem er staðsettur á efstu hæð í Perlunni. Við höfðum aldrei komið þangað áður og vorum mjög forvitin að smakka. Þetta var aðeins öðruvísi stefnumót að því leitinu til að okkur langaði að taka Kolbrúnu Önnu með okkur og pöntuðum því borðið snemma og vorum farin snemma. Þar sem við búum nálægt ákváðum við líka að rölta með vagninn. Þetta var fullkomið kvöld. Góður matur, skemmtilegur staður og besti félagsskapurinn.

Hér er ég í öðrum hvítum buxum, en þessar eru frá Lee og voru í eign mömmu minnar fyrir langa löngu. Ég gróf þær upp fyrr í vetur. Ég held að ég sé alveg sammála sumar trendinu, það er nokkuð ljóst!

Á sunnudaginn fengum við Íslendingar á höfuðborgarsvæðinu sannkallað draumaveður. Við fjölskyldan byrjuðum daginn snemma í sundi í Vesturbæjarlaug. Það er algjör skylda (allavega á okkar heimili) að grilla þegar veðrið er svona svo við buðum góðum vinum yfir til okkar seinni partinn í dýrindis mat. Fullkominn sumardagur!

Á laugardaginn varð dóttir mín, Kolbrún Anna 11 mánaða. Það er kannski ekki frásögufærandi nema hvað að ég hef lagt það í vana minn að taka alltaf myndir af henni á mánaðarafmælinu hennar. Þó svo að ég nenni því alls ekki alltaf og krafan um þolinmæði í kringum myndatökurnar eftir því sem hún verður eldri verður meiri veit ég að ég verð afar þakklát að eiga þessar myndir í framtíðinni. Ég smellti af henni myndum sem mig langaði að deila með ykkur.

Dressið hennar er allt saman úr Petit og er svo guðdómlegt. Ég notaðist við myndavélina mína sem fylgir mér allt þessa dagana, hún heitir Canon EOS M100 og er frá Origo. Þið getið fundið hana HÉR.

Þar til næst,

x Fanney

Instagram: fanneyingvars

BARNAHERBERGIÐ

Skrifa Innlegg