fbpx

DRAUMA BORÐSTOFUBORÐIÐ

HEIMILIÐHÚSGÖGN

Drauma borðstofuborðið okkar kom loksins til okkar í byrjun febrúar. Frá því að við keyptum íbúðina okkar höfðum við lengi haft augun opin fyrir borðstofuborði þar sem íbúðin bauð upp á þetta fallega borðstofurými með gólfsíðum gluggum. Við fórum í margar verslanir hér heima og fannst okkur þetta verkefni pínulítið yfirþyrmandi því að okkar mati var þetta ansi stór ákvörðun og mikilvægt að vera viss með kaupin. Borðstofan okkar er mikill miðpunktur í íbúðinni og því vildum við vanda valið vel. Ég er ofsalega hrifin af dökkbrúnni reyktri eik og var það eiginlega alltaf það sem greip mitt auga fyrst, og í raun það eina sem ég leit á. Við litum einnig á þessi kaup sem fjárfestingu til frambúðar svo við vildum hafa það fallegt, veglegt, tímalaust og stílhreint. Líkt og ég nefndi fórum við á ótal marga staði. Fyrsta verslunin sem við heimsóttum með borðstofuborð í huga var Módern. Þar sáum við drauma borðið okkar, LAX borðið frá More. Ég held að ég hafi hreinlega aldrei séð fallegra borðstofuborð ef ég á að segja sjálf frá en það hafði einhvern veginn allt. Dökkbrúna reykta eikin var óaðfinnanleg, fæturnir ótrúlega stílhreinir og fallegir og það sem er svo ofboðslega hentugt við hönnunina á fótunum er hvernig hægt er að raða eins mörgum stólum og mögulega komast við borðið án þess að fæturnir á borðinu séu fyrir. Það er ótrúlega mikill kostur en hver hefur ekki lent í því að sitja við borð þar sem fæturnir á borðinu eru stöðugt að þvælast fyrir manni og í raun alls ekki hægt að raða stólum hvernig sem er við borðið. Þetta þótti okkur afar mikill kostur.

Við tókum okkur margar vikur til umhugsunar, fórum á milli óteljandi staða og rákumst á mörg fín borð en ekkert sem heillaði okkur líkt og LAX borðið gerði. Það var mjög erfitt að reyna að sjá annað fyrir sér, sama hvað við reyndum! Það var einhvern veginn ekkert sem komst með tærnar þar sem LAX borðið hafði hælana. Eftir nokkrar vikur vorum við sannfærð um að þetta borð yrði okkar. Það kom svo í byrjun febrúar og fullkomnaði rýmið að mínu mati. Ég er svo ólýsanlega ánægð með það að það nær engri átt – við gætum ekki verið ánægðari með borðið og það passar fullkomnlega inn í litasamsetninguna í íbúðinni en dökkbrúna eikin nýtur sín ótrúlega vel á móti gráum veggjum og svörtum innréttingum. <3

     Borðstofuborð: LAX frá More / Módern

Við keyptum okkur borðið í stærð 220 cm og óstækkanlegt. Það er hægt að fá það í mörgum stærðum og að sjálfsögðu líka stækkanlegt en við ákváðum að taka það örlítið lengra og í staðinn hafa það óstækkanlegt. Þá er bara að byrja að safna sér fyrir borðstofustólum en það er önnur stór ákvörðun sem þarf að taka og aftur, mikilvægt að vanda valið vel. Ég er ofboðslega hrifin af “Sjöunni” frá Arne Jacobsen en þær þykja mér alltaf ofboðslega fallegar og stílhreinar. Þessir stólar sem við notum núna eru gamlir sem við áttum úr Rúmfatalagernum (heiðarleg eftirlíking af Sjöunni) og bekkur úr IKEA. Látum það duga þar til síðar. <3 Borðið nýtur sín fullkomnlega á meðan!

Ég ákvað að uppfæra bloggið örlítið þegar lúðinn ég áttaði sig á því að myndirnar sem ég væri að deila með ykkur innihéldu gömlu hangandi ljósin haha – mér þótti það pínu synd þar sem að við erum loksins búin að uppfæra ljósin okkar. Ég ætla einn góðan veðurdag að gera sérstaka færslu um ljósin okkar í alrýminu því ég hefði sjálf verið til í að geta fundið mér smá innblástur þegar við vorum í því verkefni. Við eigum ennþá eftir að fjárfesta í ljósakrónu yfir borðstofuborðið, það kemur einn daginn. Íbúðin er vægast sagt allt önnur og ótrúlegt hvað lýsing í alrými setur mikinn svip á heildarlúkkið, eitthvað sem mig hefði ekki grunað fyrir. Ljósin okkar eru öll úr Pfaff á Grensásvegi (samstarf) og við erum vægast sagt lukkuleg með útkomuna. Veðrið í dag er svo óskaplega fallegt og fyrir vikið dásamleg birta sem skín inn, ég smellti nokkrum myndum rétt í þessu af örlítið snyrtilegri borðstofu. (Þ.e. ljósalega-séð) haha.

Lovelovelove it!

Þangað til næst,
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

GJAFALEIKUR MEÐ TE OG KAFFI

Skrifa Innlegg