fbpx

BARNAHERBERGIÐ HANS

BARNAHERBERGIÐFRAMKVÆMDIRHEIMILIÐHÚSGÖGNMEÐGANGANSAMSTARFSMÁFÓLKIÐ

Góðan daginn úr rokinu á höfuðborgarsvæðinu. Á mínu heimili er allt með kyrrum kjörum ennþá en settur dagur er eftir tvo (!) daga. Það er ótrúlegt að þessi meðganga sé gott sem liðin en það er stutt í litla strákinn okkar sama hvað. Þessir tímar eru stórskrítnir hjá öllum – það að hafa verið ólétt meira og minna allt þetta covid ástand hefur verið furðulegt, vægt til orða tekið. Ég hef hugað að öllum smitvörnum eftir allra bestu getu og passað upp á mig og mína. Ég hef ekki fundið fyrir miklu covid stressi það sem af er meðgöngu en ég viðurkenni að það er farið að grípa örlítið um mig núna í ljósi þess að það er fæðing í vændum hjá okkur. Ég átti ótrúlega langa og erfiða fæðingu síðast en við eyddum þremur sólarhringum á fæðingardeildinni. Tilhugsunin um að Teitur megi rétt dvelja yfir fæðingu drengsins veldur mér smá óhug og tala nú ekki um ef að við þyrftum að sitja sóttkví á næstu dögum og Teitur myndi missa alfarið af henni! Ég reyni samt að hugsa eins jákvætt um fæðinguna og möguleiki er og vonast til að fæðingin í þetta skiptið gangi hratt fyrir sig svo Teitur geti verið sem mest viðstaddur. Miðað við útbreiðslu veirunnar undnanfarið tel ég það gangandi tímasprengju hvenær einhver í kringum okkur smitast og við þurfum að sitja sóttkví, þess vegna vona ég innilega að drengurinn láti sjá sig áður en slíkt á sér stað. Við höfum haldið okkur heima að mestu leiti og hitt fáa nema okkar nánustu fjölskyldu undanfarnar vikur. Teitur vinnur heima og ég geri lítið annað en að dunda mér í hreiðurgerð og fl. sem er að vísu ótrúlega dásamlegt. Sem kemur mér aftur að efninu og ástæða þessarar færslu fyrir það fyrsta – covid umræða átti alls ekki að vera partur af þessari færslu, en jæja! Haha.

________________________________________________________________________________

Líkt og ég nefndi þá höfum við dundað okkur við að gera barnaherbergin tilbúin undanfarnar vikur og mánuði. Það hefur verið afar notalegt að dunda sér í hreiðurgerðinni á þessum tímum. Það stóð ekkert endilega til að gera alveg tilbúið barnaherbergi fyrir komu hans en tímarnir einhvernveginn leiddu þá staðreynd í ljós og við gætum ekki verið ánægðari með útkomuna. Mig hafði einnig langað lengi að breyta herbergi dóttur minnar, breyta skipulaginu til að hlutir yrðu aðgengilegri og sýnilegri fyrir hana sjálfa sem myndi auka þægindi í tiltekt og slíku. Breyta “ungbarnaherberginu” hennar í meira “stelpuherbergi”. Ég ætla hinsvegar að taka hennar herbergi alveg fyrir í annari færslu sem von er á á næstu dögum.

Herbergið hans er gamla tölvuherbergið okkar. Við tókum allt í gegn, máluðum og gerðum fínt. Allir stórir hlutir eru hlutir sem við notuðum í herbergi Kolbrúnar Önnu dóttur minnar eins og rúmið, kommóðan, skiptiaðstaðan, hillan, babynestið, bíllinn, mottan og fl. en svo leyfðum við okkur aðeins að breyta til með fallegum smáhlutum eins og nýrri skiptidýnu, stuðkannti og fleiru sem passaði svo ótrúlega vel við litinn á veggnum hans. Þegar Kolbrún Anna var ungi þá var allt í kringum hana svo hvítt og ljóst. Mér finnst svo gaman hvað við erum að fara í algjörlega nýja átt núna með nýjum litum og fallegum og litríkum mynstrum.

Ég hef verið í frábæru samstarfi við vini mína hjá Slippfélaginu síðan við fluttum í nýju íbúðina okkar og þeir hafa hjálpað okkur og ráðlagt í hinum ýmsu, ófáu pælingum sem okkur hefur dottið í hug. Með málningarpensilinn að vopni höfum við umturnað íbúðinni okkar til hins betra og ég er afar þakklát fyrir okkar góða samstarf. Ég fór að sjálfsögðu í Slippfélagið og valdi nýja liti á veggina í bæði barnaherbergin. Það hefur blundað í mér lengi að hafa herbergin þeirra tvískipt, þ.e. með lit fyrir ofan og annan lit fyrir neðan. Liturinn Stilltur frá Slippfélaginu prýddi bæði aukaherbergin, veggi, loft og gólflista, og er litur sem mér finnst ótrúlega fallegur. Hann er mjög ljósgrár með örlitlum brúnum tón og er fullkominn í hvaða rými sem er, líka í alrými. Mig langaði að halda honum fyrir ofan þar sem ég sá hann alveg fyrir mér tóna vel á móti þeim litum sem ég hafði í huga í herbergin þeirra. Ég valdi litinn ‘Kastaníugrænn‘ inn til hans og litinn ‘Fallegur‘ inn til Kolbrúnar Önnu. Þeir eru vægast sagt fullkomnir saman á móti Stilltum, þó ég segi sjálf frá og ég gæti ekki verið ánægðari með útkomuna! Stilltur tónar ótrúlega vel á móti þeim báðum en ég var alveg viss um að ég vildi ekki hafa alveg hvítan lit á móti heldur örlítið hlýlegri lit sem myndi tóna vel á móti. Útkoman varð nákvæmelga eins og ég sá fyrir mér í huganum og ég er svo ótrúlega ánægð að það hálfa væri nóg. Kastaníugræni liturinn inni hjá litla manninum mínum er hinn fullkomni græni litur sem ég sá fyrir mér – allir sem ég hafði skoðað voru annað hvort aðeins of kaldir eða aðeins of hlýir og ég er ótrúlega glöð að hafa fundið þennan. Hlýleikinn er nákvæmlega eins og ég sá hann fyrir mér og hann er hvorki of dökkur né of ljós. Við máluðum Kastaníugrænan u.þ.b. 60% upp vegginn, ss. gólflistana og svo 60% upp. Mig langaði ekki að hafa vegginn alveg skiptan 50/50 svo útkoman var 60% Kastaníugrænn á móti 40% Stilltum, sem er svo líka í loftinu. Margir spurðu mig út í þetta á Instagram á meðan ferlinu stóð svo ég ákvað að koma því fram hér líka. Við notuðumst við laser græju frá tengdapabba og teipuðum eftir því svo að línan yrði þráðbein.

Ég hef eflaust eytt allt of mörgum klukkustundum hér inni undanfarin misseri en mér finnst fátt skemmtilegra en að útrétta barnaherbergi, (og mynda það). Miðað við þann tíma sem ég hef haft hef ég náð að velta mörgu fyrir mér hér inni haha, fært hluti fram og til baka og ég veit ekki hvað og hvað. Þegar skiptiaðstaðan mun svo heyra sögunni til ætlum við að kaupa aðra Ivar skápa í Ikea og mála í sama græna lit og hengja upp á veggina, en við gerðum það inni hjá dóttur minni. Okkur fannst það hinsvegar ekki passa að hafa allar þessar hirslur í gangi í rýminu á meðan kommóðan er uppi við. Það verður fullkomið þegar að því kemur! En eins og er lítur herbergið svona út og við erum í skýjunum með þessa útkomu, vægast sagt.

Mynstrið á rúminu hans og skiptidýnunni er mynstur sem ég fell meira fyrir með hverjum deginum sem líður. Það heitir ‘Orangery‘ og er frá Konges Slojd og við fengum það að gjöf í Petit. Það passar svo fullkomnlega við litasamsetninguna inni hjá honum. Mynstrið er eitt af þeim guðdómlega fallegu mynstrum þetta season frá Konges Slojd en ég er gjörsamlega veik fyrir þessu merki. Það er allt svo fallegt frá þeim hvort sem það eru vörur inn í herbergið eða fatnaður. Ég á mjög erfitt með að hemja mig – það er bara svoleiðis.

Ég vona að ég verði orðin tveggja barna móðir næst þegar ég skrifa færslu hér inn – ég hlakka til að deila með ykkur herbergi dóttur minnar, en það er næsta mál á dagskrá. Vonandi gefur þetta ykkur einhverjar skemmtilegar hugmyndir – ef það eru einhverjar spurningar um hvaðan eitthvað er eða annað slíkt, ekki hika við að skilja eftir athugasemd og ég reyni að svara fljótt.

Hafið það sem allra best og áfram Ísland í kvöld!
Xxx Fanney

Fylgstu með á Instagram: fanneyingvars

AFMÆLISDAGURINN MINN

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

  1. Anna

    14. October 2020

    Ótrúlega fallegt :) mig langar svo að spurja hvaðan skipti-unitið ofan á kommóðuna er? Takk

    • Fanney Ingvarsdóttir

      15. October 2020

      Hæhæ, kærar þakkir. :) Ég pantaði skipti-unitið frá Danmörku þegar ég var ólétt af dóttur minni fyrir tæpum 4 árum, af heimasíðu Ønskebørn. :) Mér skilst að svipað sé til í Húsgagnaheimilinu? Þú getur kannað það. Og svo smelltum við því ofan á Malm IKEA kommóðu.
      Bestu,
      Fanney