Elenora Rós er 19 ára ofurstelpa og bakaranemi og hún er að gefa út sína fyrstu bók. Bókin heitir Bakað með Elenoru Rós og inniheldur fjölmargar ómótstæðilegar uppskriftir; allt frá einföldum súrdeigsbakstri yfir í girnilegt bakkelsi, brauðrétti og samlokur. Bókin er strax komin á metsölulista Pennans Eymundsson og trónir núna í öðru sæti á listanum. Bókin er alveg hreint dásamlega falleg og tók Elenora Rós allar myndirnar sjálf fyrir utan myndirnar af henni sjálfri. Undirrituð getur ekki beðið eftir því að nota bókina og baka eitthvað girnilegt! Til hamingju duglega og flotta Elenora! :) Þið getið keypt bókina hér.
Ég fékk hana til að svara nokkrum spurningum fyrir Trendnet og deila með okkur girnilegri uppskrift úr bókinni.
NAFN OG ALDUR:
Elenora Rós Georgesdóttir, 19 ára en verð 20 ára þann 23.des næstkomandi.
HVAÐAN ERTU:
Ég er fædd og uppalin í Keflavík. Pabbi minn er skoskur og mamma mín er íslensk.
HVAÐ ERTU AÐ BRALLA ÞESSA STUNDINA?
Ó svo mikið og ó svo margt. Akkúrat þessa dagana er ég að stússast í minni fyrstu uppskriftarbók sem ég gaf út í lok október. Hún hefur fengið meiriháttar viðbrögð og því fylgir allskyns viðtöl sem ég þarf að fara í og tækifæri sem er ótrúlega skemmtilegt. Ég er líka að undirbúa smá jólasmákökukeppni ásamt því að vera að vinna samhliða þessu öllu í bakaríinu hjá Bláa Lóninu. Ég tók að mér að árita og dreifa bókum því ég vildi geta veitt aðeins persónulegri þjónustu en núverandi ástand leyfir. Það tók heila viku þar sem ég gerði ekki annað en að árita, pakka inn og dreifa með hjálp góðra vinkvenna og foreldra minna. Ég er einnig að útskrifast næsta vor og er aðeins farin að glósa og æfa mig fyrir sveinsprófið. Það er alltaf eitthvað í gangi og alltaf eitthvað spennandi að gerast sem mér finnst svo dýrmætt.
HVERNIG KOM BÓKIN TIL?
Elsku besti Jón Axel góðvinur minn sendir mér skilaboð þegar covid var í hæstu hæðum um miðjan apríl og spyr mig hvort ég hafi einhvern tímann hugsað um að gefa út bók. Það hefur í mörg, mörg ár verið risastór draumur hjá mér sem ég hélt samt einhvern veginn að myndi aldrei rætast. Hann segir mér þá að konan hans vinni fyrir Edduna og að hann ætli að láta hana heyra í mér. Ég kynnist Jóni Axel þegar ég mæti í K100 viðtal hjá þeim í morgunþættinum Ísland vaknar. Ég þekkti Kristínu og hún bauð mér í mitt fyrsta útvarpsviðtal fyrir tæplega ári síðan, til að tala um hvernig það er að vera bakaranemi. Jón Axel er einstaklega yndislegur og góður maður og tók mér strax mjög vel og mér þykir svo ótrúlega vænt um þau öll í þessum morgunþætti. Ég mætti síðan á fund með Eddunum eins og ég kalla þær en það eru þær María og Svala sem ég fundaði með. Þær sögðust ætla að hafa samband ef þær hefðu frekari áhuga á að halda áfram með þetta verkefni og litla hlédræga ég hafði enga trú á að þær myndu hafa samband aftur og gargaði því hástöfum þegar María sendir mér tölvupóst og segir mér að við getum byrjað að rúlla þessu öllu. Þegar covid byrjar var vinnan mín lokuð en ég vinn sem bakaranemi hjá Bláa Lóninu og til að halda mér gangandi og hafa eitthvað að gera fór ég að baka á fullu. Þá stúderaði ég súrdeigsgerð alveg í bak og fyrir en ég hef alltaf unnið með súrdeigsbrauð í öllum þeim bakaríum sem ég hef unnið í. Kaflarnir eiga að henta öllum og hugmyndin að bókinni kom eftir spjall milli okkar allra um hvaða uppskriftir ég ætti í bankanum mínum og hver sagan mín væri. Ég hef alltaf unnið í frekar töff og rustic bakaríum og ólst upp við gamaldags mömmubakstur og þessi bók sameinar þetta tvennt. Það mætti eiginlega segja að ég og mín stutta ævi séum sameinuð í þessari uppskriftabók.
HVER ER UPPÁHALDS UPPSKRIFTIN ÞÍN Í BÓKINNI?
Ég hef fengið þessa spurning nokkrum sinnum og mér finnst hún svo erfið. Uppskriftirnar eiga svo dýrmætar sögur á bakvið sig og mér þykir í alvöru mjög vænt um þær allar. Bakstur er mjög tilfinninga- og upplifunartengdur hjá mér. En ég held að ég velji Súrdeigsbrauðið með lakkrís og trönuberjum. Þetta var brauð sem ég vann fyrstu nemakeppnina sem ég keppti í með. Það kemur fáránlega á óvart og leikur við bragðlaukana. Ég var mjög lengi að fullkomna uppskriftina og þetta er uppáhalds brauðið hjá flest öllum í kringum mig.
HVENÆR BYRJAÐIR ÞÚ AÐ BAKA?
Ég var um 14 ára gömul þegar ég fór alveg á fullt. Ég hef bakað frá því ég man eftir mér. Uppáhalds æsku minningin mín eru afmælin á leikskólanum þar sem mér leið eins og prinsessu og ég fékk að gera súkkulaðiköku með bleiku kremi með leikskólakennurunum mínum. Það var samt alltaf skemmtilegast að sleikja sleifina, ég á ófáar svoleiðis myndir af mér. Mamma mín bakaði vikulega og stundum nokkrum sinnum í viku þegar ég var krakki og því var þetta allt í kringum mig en þó enginn bakari að mennt í ættinni. Ég ákvað þetta sjálf upp á mínar eigin spýtur. Ég var í 6.bekk þegar ég fékk að gera sjálf allar kökur fyrir árshátíðina í skólanum. Í 8.bekk var ég farin að eyða utanlandsferðum í að skoða bakarí, kaupa allskyns baksturs dót, búin að horfa á allskyns baksturs þætti og þess háttar.
HVAÐ FINNST ÞÉR SKEMMTILEGAST AÐ BAKA?
Allt sem tengist súrdegi og allt sem er erfitt. Ég ELSKA að skora á sjálfan mig og koma mér á ovart. Það er lang skemmtilegast að hafa lúmskt enga trú á að eitthvað heppnist en svo bara heppnast það vonum framar. Það fær hjartað í mér í alvöru til að slá aðeins hraðar. Súrdeig er síðan mikil vísindi og ég elska að pæla og fræðast. Ég varð mjög hratt mjög hugfangin að súrdeigsbakstri.
HVAR FÆRÐU INNBLÁSTU FYRIR BAKSTURINN?
Ég fæ innblásturinn minn úr öllum áttum. Stundum fæ ég innblástur þegar ég skrolla í gegnum instagram og mjög oft kemur hann frá umhverfinu í kringum mig. Þá meina ég t.d að þegar það er haust finnst mér gaman að gera hlýja hluti, nota eitthvað sem einkennir haustin eins og kanil en á sumrin er ég öll í berjum og sítrónum. Ég fæ mikinn innblástur frá fyrirmyndum mínum í bakstri og svo er fólkið í kringum mig duglegt að koma með allskonar hugmyndir.
ÁTTU ÞÉR UPPÁHALDS BAKARÍ?
Ómæ þetta er heldur betur erfitt. Ég þarf að gera upp á milli vina minna hér. Ég held ég verði að segja að uppáhalds íslenska bakaríið mitt sé Deig á Tryggvagötunni niðrí miðbæ en ef við erum að tala um almennt í heiminum þá verð ég annað hvort að segja Bread Ahead í London eða Kirstens Konditori í Danmörku. Bæði fyrirtækin eru fjölskyldurekin og með gæði í hámarki. Þetta eru tvö mjög ólík bakarí sem eiga fallegan stað í hjartanu mínu og geyma dýrmætar minningar. Matthew sem á og rekur Bread Ahead er fyrirmyndin mín. Mér líður alltaf eins og ég sé komin heim þegar ég fer til London og ég elska fátt meira í heiminum en að eyða heilum degi í London að rölta á milli bakaría.
HVER ER UPPÁHALDS MATURINN ÞINN?
Ég er algjör matgæðingur. Ég elska mat og ég elska að borða. Ég er leiðinleg týpa þegar kemur að þessari spurningu því ég fæ valkvíða og á erfitt með að nefna bara eitt. Ég er algjör sökker fyrir góðum hamborgara í brioche brauði eða góðri súrdeigspizzu, það væri uppáhalds skyndibitinn minn. Uppáhalds mömmumaturinn minn er soðinn fiskur, kjötfars og kál eða rjómapasta, ef ég fæ að velja hvað er í matinn heima þá er það eitthvað af þessu. En ég veit ekkert skemmtilegra né betra en að fara fínt út að borða og fá mér fínan mat sem maður fær sér sjaldan og smakka einhvað nýtt og framandi. Mat sem algjörlega leikur við bragðlaukana.
TIPS FYRIR NÝJA BAKARA?
Það er svo margt sem ég hefði viljað vita þegar ég byrjaði. En ég held að mitt helsta tip sé að fylgja hjartanu og hafa trú á sér. Ég var alltof lengi að telja mér trú um að ég gæti ekki þetta og hitt og væri ekki nógu góð. En um leið og ég fann vinnustað sem mér leið vel á og ég fór að umgangast fólk sem hvatti mig skilyrðislaust áfram þá blómstraði ég. Þolinmæði er lykilatriði og það að halda alltaf áfram og reyna aftur ef eitthvað misheppnast. Leyfðu þér að dreyma stórt því ef þú ert tilbúin að vinna fyrir því þá er allt hægt. Mundu síðan að baka aldrei nema með hjartanu því ef þú gerir það þá gengur allt vel.
HVAÐ FANNST ÞÉR SKEMMTILEGAST VIÐ AÐ GERA BÓKINA?
Mér fannst ferlið einstakt frá byrjun til enda og heldur betur allt öðruvísi en ég var búin að ímynda mér. En ég held að það skemmtilegasta hafi verið að fá tækifæri til að baka alla daga endalaust af bakkelsi sem mér fannst bæði gott og fallegt. Ég var dugleg að fara með bakkelsið til vina og vandamanna og gleðja aðra og það var mjög gefandi. Ferlið sjálft var allt svo skemmtilegt. Símtalið frá Þóru þar sem hún segir mér að ég fái að gjöf draumahrærivélina mína, myndatakan fyrir forsíðuna sem var svo dýrmæt, Sólborg dásamlega vinkona mín farðaði mig og Þóra kom fram við mig eins og prinsessu á meðan hæfileikaríki Gassi tók dásamlegar myndir. Að kynnast öllu frábæra fólkinu, að koma sjálfri mér á óvart með þrautseigjunni minni og að finna fyrir ómetanlegum stuðningi.
EN MESTA ÁSKORUNIN?
Mesta áskorunin við að búa til bókina var klárlega að sitja kyrr og skrifa texta þegar það var sól úti. Stundum sat ég þó úti og skrifaði, stundum tók ég líka tölvuna og keyrði eitthvert í kvöldsólinni, lagði bílnum og skrifaði á meðan ég hlustaði á góða tónlist. Það var reyndar líka ólýsanlega erfitt að bíða eftir að fá hana í hendurnar en það var eitt það skemmtilegasta sem ég hef upplifað á ævinni, að fá hana loksins í hendurnar og fletta í gegnum hana.
HVAÐ ER NÆST?
Ég hef alltaf sagt að mig langi að opna bakarí og það er langtíma markmiðið. En mig langar svo mikið meira en það. Mig langar að búa erlendis og fara í skóla þar, mig langar að útskrifast með góða einkunn, mig langar að gefa meira af mér, mig langar mögulega að gefa út aðra bók eða vera með sjónvarpsþátt. Þessi bók sýndi mér svo mikið að það er ALLT hægt ef maður hefur trú á sér, vinnur fyrir því og leyfir sér að dreyma stórt. Ég er hætt að halda aftur af mér, núna veit ég að þetta er allt rétt að byrja.
NUTELLA SNÚNINGUR
Þessi tegund af bakkelsi kallast á alþjóðlegu máli “Babka”. Þetta er mjúk og djúsí lengja og deigið líkist snúðadegi. Það elska allir Nutella og því er þessi alveg guðdómleg. Sérstaklega með krönsinu frá hnetunum.
550 g kökuhveiti
70 g sykur
30 g púðursykur
15 g þurrger
3 egg
60 ml mjólk
70 ml vatn
165 g smjör við stofuhita
Ein Nutella krukka
100 g súkkulaðidropar
50 g smátt saxaðar heslihnetur
Aðferð
- Setjið þurrger, púðursykur, sykur og hveiti saman í skál og hrærið því saman.
- Bætið mjólk, vatni og eggjum saman við í mjórri bunu á meðan hnoðarinn á hrærivélinni er í gangi. Hnoðið deigið í hrærivélinni í 4-6 mínútur eða þar til deigið fer að losna frá hliðunum á skálinni og kemur saman.
- Bætið saltinu saman við og aukið hraðann. Hærið í 2-3 mínútur í viðbót
- Þegar deigið hefur komið aftur saman og saltið er komið saman við deigið er mjúku smjörinu bætt saman við deigið .
- Þegar smjörið er komið saman við deigið er deigið keyrt áfram á miðlungs hraða í 10-15 mínútur þar til deigið er ekki lengur jafn blautt, það er teyjanlegt og hætt að festast við hliðarnar á skálinni.
- Setjið deigið á plötu og plastið plötuna. Setjið plötuna inn á kæli yfir nótt.
- Næsta dag er deigið rúllað út og Nutell smurt á. Síðan er súkkulaðidropum og heslihnetum dreift yfir.
- Rúllið deiginu upp eins og snúðum og skerið svo lárétt í gegnum lengjuna svo það verði að tvem lengjum og þið sjáið fyllinguna og snúninginn að innan.
- Snúið núna lengjunum um hvor aðra eins og þið séuð að flétta þær saman.
- Setjið núna snúninginn ykkar í smurt form og hefið snúninginn í u.þ.b 2 klukkutíma eða þar til hann hefur tvöfaldast í stærð.
- Stillið ofninn ykkar á 180°C og bakið í 20-30 mínútur eða þar til liturinn á deiginu er orðinn gullinbrúnn.
Ég mæli með að þið fylgið dásamlegu Elenoru Rós á instagram @bakaranora
Njótið dagsins! :)
// HILDUR RUT
Skrifa Innlegg