fbpx

TRENDNÝTT

Helmut Newton dansar báðum megin við línuna

FÓLK

Saga Sigurðardóttir, betur þekkt sem Saga Sig, er einn vinsælasti ljósmyndari landsins. Hún hefur unnið fjölda verkefna fyrir þekkt fatamerki og hönuði t.a.m. Apple, Nike og 66°Norður.

Saga Sig

Líkt og flestir tískuljósmyndarar er Saga vel kunnug verkum ljósmyndarans Helmut Newton en heimildamynd um hann, Helmut Newton-The Good and The Bad, er sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF sem hefst þann 24. september næstkomandi.

Saga segir myndina vera áhugaverða heimild um Helmut sem er heimsfrægur fyrir  ljósmyndir sínar, tísku og portrait myndir. Í myndinni er farið yfir lífshlaup ljósmyndarans og söguna á bak við nokkrar af frægum ljósmyndum hans. Þá er talað við konur sem sátu fyrir hjá honum þar á meðal Charlotte Rampling, Grace Jones, Isabellu Rossellini og Önnu Wintour ritstjóra bandaríska Vogue.

„Helmut er mjög skemmtilegur karakter og áhugavert að sjá hvernig hann myndar. Það hafa verið gerðar fleiri myndir um hann en í þessari er lögð meiri áhersla á konurnar sem hann myndaði og hvernig þær upplifðu að vinna með honum. Það er mjög áhugavert að heyra og sjá þá hlið,“ segir Saga.

Hún segir einna helst hafa komið sér á óvart í myndinni hvað tenging Helmut við að vera gyðingur í Þýskalandi er sterk og hvað myndmál Leni Riefenstahl og nasista hafði mikil áhrif á listsköpun hans. Eins hafi verið áhugavert að sjá Susan Sontag taka hann í gegn en hún var ekki hrifin af myndunum hans.

„Helmut Newton er einn af þeim sem breytti heilmiklu í tískuheiminum og konurnar í myndum hans eru yfirleitt sýndar sem sterkar valkyrjur. Það er stundum talað um að ákveðnir ljósmyndarar eða módel stuðli að breytingum og komi ákveðinni bylgju í gang í tískuheiminum. Samanber t.d. Kate Moss og Corinne Day og heroin chick  bylgjunni. Newton kom fram með þessar sterku konur powerbabes og myndaði oft með flassi eða náttúrulegu ljósi svolítið hráar ljósmyndir. Hann varð fljótt mjög vinsæll og vann með öllum helstu fatahönnuðum heims. Mér finnst margar myndir hans flottar og oft meira í líkingu við skúlptúr þar sem mannslíkaminn er skoðaður sem form á meðan aðrar eru alveg á mörkum eða yfir mörkin að exploita konur. Hann dansar báðum megin við línuna, samanber fyrirsögn myndarinnar the good and the bad,“ segir Saga.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík RIFF hefst þann 24. september næstkomandi. Trendnet telur niður í stuðið!

Miðasala fer fram á www.riff.is.

//
TRENDNET

Marine Vacth er andlit les Beiges frá Chanel

Skrifa Innlegg