fbpx

HIN FULLKOMNA HUMARSÚPA

Klassísk íslensk humarsúpa er eitt það besta sem ég fær en ég hafði aldrei lagt í það að gera hana sjálf. Ég skoðaði lengi uppskriftir og margar mismunandi leiðir. Mig langaði til þess að gera hana frekar klassíska og púslaði ég nokkrum saman. Þegar kom að því að smakka hana til þá fannst mér vanta eitthvað örlítið við hana og kom Mamma með þá frábæru hugmynd að bæta við tsk af chillisultu sem var til í ísskápnum og passaði það svona svakalega vel við. Smá sæta og hiti við súpuna sem setti algjörlega punktinn yfir i-ið.

Hráefni fyrir 4
800 g humar
8 msk smjör
2 msk ólífuolía
2 smátt saxaðar gulrætur
2 smátt saxað sellerí
1 stór laukur smátt saxaður
2 msk tómatpúrra
2 tsk paprikukrydd
Salt
Pipar
2,5 líter sjávarrétta eða fiskisoð
2 hvítlauksgeirar
1 msk karrý
1 tsk chillisulta
Rjómi
Þurrt hvítvín
Graslaukur

Aðferð
1. Byrjið á því að taka humarinn úr skelinni. Mér þykir best að brjóta hliðarnar og klippa svo lengjuna og losa kjötið frá. Finnið til stóran pott og bræðið 1 matskeið af smjöri við miðlungshita.Steiki skeljarnar, gulræturnar, sellerí og hálfan lauk í 5-8 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið aðeins mjúkt. Bætið við tómatapúrra, paprikukryddi salti og pipar og steikið saman í aðrar 2 mínútur. Bætið við fiskisoðinu og látið malla saman í minnstakosti 1,5 klukkutíma. Sigtið síðan soðið frá.

2. Notið sama pott þegar þið hafið sigtað soðið frá. Bræðið 3 matskeiðar smjör og steikið hinn helminginn af lauknum og hvítlaukinn í 3-5 mínútur eða þangað til laukurinn er orðin aðeins mjúkur. Bætið við karrýkryddinu og steikið í rúma mínútu í viðbót. Bætið við 1 bolla af rjómanum, hvítvíninu og chillísultunni við og sjóðið saman á lágum hita í 15-20 mínútur. Bætið þá við soðinu og látið malla saman í aðrar 30 mínútur.

3. Þeytið restina af rjómanum þangað til hann er léttþeyttur. Bræðið smjör á pönnu við miðlungshita. Saltið og piprið humarhalana á báðum hliðum og steikið í 3-5 mínútur.
Setjið súpu í skál, nokkra humarhala,þeyttan rjóma og saxaða seinsellíju eða graslauk.

Marta Rún

TRYLLTUR KJÚKLINGABORGARI MEÐ HEIMAGERÐRI BBQ SÓSU

Skrifa Innlegg