fbpx

DÖÐLUR & SMJÖR

EFTIRRÉTTIR & KÖKURUPPSKRIFTIR

Döðlur og smjör (dodlurogsmjor.is) er fallegt og áhugavert matarblogg sem er í miklu uppáhaldi hjá undirritaðri. Ég er búin að fylgjast með síðunni frá upphafi en hún opnaði fyrir einu og hálfu ári. Guðrún Ýr stendur á bakvið Döðlur og smjör og er hún mikill matgæðingur sem gaman er að fylgjast með. Hún starfar sem verkefnastjóri Klifsins- skapandi seturs í Garðbæ og um tíma starfaði hún hjá Gestgjafanum og við vöruþróun hjá Kruðerí, kaffihús Kaffitárs. Ég mæli með að þið skoðið vefinn og Instagramið hennar. Ég fékk hana til að svara nokkrum spurningum fyrir Trendnet og deila með okkur girnilegri uppskrift að döðluköku í hollari kantinum.

NAFN OG ALDUR:
Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir – 32 ára

HVAÐAN ERTU:
Er úr Kópavoginum upphaflega, búin að prófa að búa hér og þar og er nú búin að finna minn stað í miðbæ Hafnarfjarðar

HVAÐ ERTU AÐ BRALLA ÞESSA STUNDINA?
Svona það helsta er að ég geng með barn ásamt því að vera í allskonar tilraunastarfsemi í eldhúsinu og sinna vinnunni með.

HVERNIG KOM TIL AÐ ÞÚ OPNAÐIR DÖÐLUR OG SMJÖR?
Það að fara af stað með matarblogg hefur verið draumur hjá mér í mörg ár. Þurfti að finna þorið og demba mér af stað sem ég gerði fyrir einu og hálfu ári og það hefur verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi. 

HVER ER UPPÁHALDS UPPSKRIFTIN ÞÍN Á SÍÐUNNI?
Sú uppskrift sem ég nota mest er klárlega skinkuhorns uppskriftin mín en súkkulaðikakan með hindberjum & lakkrís fylgir þar á eftir, hún er í miklu uppáhaldi hjá mér. 

HVAÐ FINNST ÞÉR SKEMMTILEGAST AÐ BAKA?
Það fer eiginlega rosalega eftir dögum, hverju ég er í stuði fyrir. Hvort sem það er deigbakstur, háar og miklar kökur eða einföld galette. 

HVER ER UPPÁHALDS MATURINN ÞINN?
Finnst indverskur og mexíkóskur matur alltaf góður, sem er eiginlega smá kómískt þar sem það má samt ekki vera of sterkt, sem bæði eru þekkt fyrir.

HVORT FINNST ÞÉR SKEMMTILEGRA AÐ ELDA EÐA BAKA?
Eiginlega bæði betra. 

ÁTTU ÞÉR UPPÁHALDS VEITINGASTAÐ?
Í augnablikinu er það Hraðlestin, Tikka Masala pizzan þeirra er í miklu uppáhaldi þessa dagana.

HVAÐ ER UPPÁHALDS HLUTURINN ÞINN Í ELDHÚSINU?
Mjög auðsvarað, tveir hlutir – Klassísk tré sleif og góð sleikja, þarf ekki að vera flókið.

ERTU MEÐ ELDHÚS EÐA BAKSTURS TIPS?
Njóta og slaka, styttu sér leiðir ef það er eitthvað stress, njóttu ef þú hefur tíma.

DÁSAMLEG DÖÐLUKAKA Í HOLLARI KANTINUM
Ljúffeng kaka sem passar sérlega vel með rjóma. Einföld í framkvæmd og geymist vel.

Döðlukaka
1 dl döðlumauk (6 ferskar döðlur & u.þ.b. ½ vatn)
4 eggjahvítur
100 g döðlur, saxaðar
50 g suðusúkkulaði (hægt að skipta út fyrir sykurlaust súkkulaði)
1 dl kókosmjöl

Aðferð

  1. Setjið saman döðlur og vatn í pott á miðlungs stillingu og leyfið að malla þangað til það er orðið að mauki.
  2. Stillið ofn á 170°c blástur. Stífþeytið eggjahvíturnar, hægt er að kaupa saxaðar döðlur en ef þið notið heilar skerið þær niður í litla bita ásamt súkkulaðinu. Setjið döðlumaukið, döðlurnar, súkkulaðið og kókosmjölið saman við eggjahvíturnar og hrærið varlega saman með sleikju.
  3. Spreyið 20 cm form að innan með PAM spreyi en einnig hægt að setja bökunarpappír í botninn. Skellið deiginu í formið og bakið í 15-20 mín. Leyfið kökunni að kólna.

Krem
100 g dökkt súkkulaði
2 msk kókosolía
½ dl kókosmjólk

Aðferð

  1. Setjið hráefnin saman í skál og bræðið saman yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni, leyfið því að kólna og taka sig í smá tíma, dreyfið kreminu síðan yfir kökuna.

  2. Ef kakan er borðuð samdægurs er ótrúlega gott að setja banana yfir kökuna í sneiðum og síðan kremið yfir. Svo er eiginlega mikilvægt fyrir þá sem finnst rjómi góður að bera hana fram með rjóma.

Ég mæli með að þið fylgið yndislegu Guðrúnu Ýr á Instagram @dodlurogsmjor 

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

PÖNNUKÖKU HUGMYNDIR & GJAFALEIKUR

Skrifa Innlegg