fbpx

STOFUVEGGUR FYRIR & EFTIR

FRAMKVÆMDIRHEIMILIÐHÚSGÖGNNEW IN

Það er ótrúlega magnað hvað maður lærir mikið á því að standa í framkvæmdum – sérstaklega svona í fyrsta skipti. Ég hef lært heilan helling sjálf, lært á ný tæki og tól, lært hversu mikil vinna liggur að baki ýmissa verkefna, lært að þolinmæði er mikilvægur eiginleiki í framkvæmdum og svo miklu fleira. Ég er líka mjög ánægð með hversu virkan þátt ég tók sjálf í mörgum verkefnum og lærði mest á því! Auðvitað er hver upplifun ólík og astæður ólíkar hverju sinni. Bara sem dæmi er einhvern veginn öll vinna miklu meiri og tímafrekari en maður leyfði sér að vona. Ég held að allir sem staðið hafa í framkvæmdum viti nákvæmlega hvað ég eigi við. Við erum samt langt því frá að vera búin en eins og ég nefndi þá lökkuðum við eldhúsinnréttinguna og forstofuskápinn í svörtu, möttu lakki. Við ætlum að gera slíkt hið sama við baðherbergisinnréttinguna, hurðir og fataskápa svo það er ansi mikil vinna eftir. Það var ákveðin pressa að flytja inn fyrir jólin en það sem ég vissi vel var að um leið og maður er fluttur inn er svo auðvelt að fresta hlutunum. Við byrjum á morgun,  nei hinn, nei hinn, svo er allt í einu liðinn mánuður. Það er svo auðvelt að gleyma sér í amstri dagsins og sérstaklega með lítið barn. Ég hélt að á þessum tímapunkti yrði ég búin að gera fullt af færslum hér á Trendnet til að sýna ykkur og segja skref fyrir skref hvað við höfum verið að gera. Það er hins vegar sannarlega ekki raunin eins og þið best vitið! Mig langar ekki að sýna frá ókláruðu verki en ég átta mig að sjálfsögðu á því að heimilið er eilífðar vinna sem verður aldrei tilbúin. Það sem ég er hvað spenntust að segja ykkur frá er einmitt þessi lakk aðferð, þá líka sérstaklega fyrir sjálfa mig því inboxið mitt fyllist daglega af spurningum um það. Við erum hins vegar enn að bíða eftir ísskápnum okkar og eins eigum við eftir að setja plötuna framan á innbyggðu uppþvottavélina. Um leið og það er komið kemur loksins falleg heildarmynd á eldhúsið og verðið þið fyrst til að sjá myndir af því, ásamt uppskrift af framkvæmdinni og nóg af fyrir og eftir myndum. Við erum einnig að bíða eftir borðstofuborðinu okkar sem við eigum von á í febrúar. Borðstofurýmið er því fullt núna af alls kyns drasli sem við þurfum að losa okkur við. Einnig finnst mér pínu pirrandi að mynda alrýmið þegar hurðirnar eru ekki orðnar svartar haha. Núna er ég bara að hugsa upphátt! Enn og aftur, þolinmæði er lykilatriði í svona ferli og það er bara einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess að allt sé tilbúið einn tveir og bingó! Mín ráð til ykkar sem eru með fyrirhugaðar framkvæmdir er að gera alltaf ráð fyrir meiri tíma, það kemur í veg fyrir vonbrigði því auðvitað er maður spenntur að flytja inn á nýja heimilið sitt, eðlilega! Á meðan ferlinu stendur koma oftar en ekki upp einhver óvænt atriði sem tefja og lengja tímann og er það eitthvað sem er mikilvægt að taka með opnum hug. Þetta er bara partur af þessu.

Það er einn veggur í stofunni sem er nokkurn veginn tilbúinn – eða ekki. Mögulega verður hann orðinn allt öðruvísi í næsta mánuði… en hvað um það.


Fyrir…
Og eftir.

Hér er búið að mála veggi, loft og lista (við máluðum alrýmið með litnum Volgur frá Slippfélaginu, en meira um það síðar), búið að pússa og lakka parketið og auðvitað setja upp húsgögn. Ég var einhvern veginn alveg búin að sjá þennan vegg fyrir mér áður en við fengum afhent. Sem betur fer náði ég alveg að selja Teiti þá hugmynd og fékk nánast alveg að ráða þessari útfærslu. Ég birti þessa mynd á Instagraminu mínu og fékk óteljandi fyrirspurnir út í hvaðan vörurnar eru og ætla ég að leyfa þeim upplýsingum að fylgja með ef fleiri eru áhugasamir um það. Skenkurinn er semsagt frá IKEA en ég var löngu búin að ákveða að þessi yrði fyrir valinu. Hann uppfyllir einhvernveginn allar kröfur, fallegur, tímalaus og stílhreinn og eflaust með ódýrari skenkum sem völ er á. Spegillinn er úr Módern og eflaust margir sem kannast við hann. Hann er einstaklega fallegt stofudjásn sem stækkar rýmið til muna. Hann er til í þremur litum og í þremur stærðum. Við fengum okkur svarta litinn og í stærstu útgáfu, eða 110 cm. Veggurinn bauð upp á spegillinn yrði stór og kom ekki annað til greina en að taka hann í stærstu gerð. Græjurnar átti Teitur áður en við byrjuðum saman en þær eru frá Bang&Olufsen. Blaðastandinn höfum við einnig átt mjög lengi en hann er frá Ferm Living úr Hrím. Blómavasinn er gamall úr Norr11 og gerviblómin eru úr Módern.

Ég hlakka til að sýna ykkur meira, þetta kemur allt með kalda vatninu…
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

ÁRAMÓT

Skrifa Innlegg