fbpx

SPURT & SVARAÐ / MEÐGANGAN

MEÐGANGANMÖMMULÍFIÐPERSÓNULEGT

Hæ kæru lesendur. Í gærmorgun ákvað ég að setja inn svokallað “spurningabox” í story á Instagram síðunni minni, tengt meðgöngunni. Ég hef ekki verið að vinna með þessi spurningabox áður en ákvað að slá til í gær því ég hafði fengið nokkrar fyrirspurnir út í meðgönguna sendar persónulega og langaði að prófa. Ég fékk þó nokkrar skemmtilegar spurningar sem ég svaraði í story og mig langaði að setja svörin mín hingað inn. Persónulegar upplýsingar um hitt og þetta tengt mér og minni meðgöngu… kannski gaman fyrir þær sem eru á svipuðum stað að lesa?

Mynd frá síðustu meðgöngu ♡

  1. Hvað ertu komin langt?
    Ég er gengin rétt tæpar 17 vikur, rúma 4 mánuði.
  2. Hvenær ertu sett?
    16. október. ♡
  3. Ætliði að fá að vita kynið?
    Já! Við getum ekki beðið eftir því að vita hvort að Kolbrún Anna dóttir okkar sé að eignast lítinn bróður eða systur. ♡
  4. Hvenær færðu að vita kynið?
    Í 20 vikna sónar eftir rétt tæpar 3 vikur – styttist!
  5. Hvenær komstu að því að þú værir ólétt?
    Um miðjan febrúar – þá gengin rúmar 5 vikur.
  6. Má ég spyrja þig hvaða vítamín þú ert að taka á meðgöngunni?
    Ég tek fólínsýru, D-vítamín og 2x Omega töflur og hef gert það mest megnis síðan ég komst að því að ég væri ólétt. Ég bætti Omega töflunum við á 10. viku og mun svo eflaust bæta járni við síðar á meðgöngunni. Eins og er þarf ég ekki á því að halda.
  7. Innilega til hamingju. Hvernig líður þér, hvernig ertu búin að hafa það?
    Kærar þakkir og takk fyrir að spyrja! Ég er öll að koma til þó ég geti ekki sagt annað en að fyrstu 14-15 vikurnar hafi verið örlítið strembnar. Ég var rosalega orkulaus, með mjög mikla ógleði þó ég hafi ekki verið að kasta upp. Ég var alltaf þreytt. Þessi tími gerði ekkert rosalega mikið fyrir sálartetrið þar sem ég upplifði mig sérlega lata. Ég kom litlu sem engu í verk og nennti nánast engu. Ég sofnaði undantekningarlaust með dóttur minni öll kvöld á milli 20-21. Ég var svipuð þegar ég var ólétt af Kolbrúnu Önnu en munurinn er sá að þá gat ég lagt mig öllum stundum á meðan núna er ég alltaf með lítinn gorm sem þarf að sinna. (Tíminn líður líka grilljón sinnum hraðar sem er mikill plús). Ég er öll að koma til en á aðeins í land með að endurheimta orkuna. Þetta fylgir þessu bara og sem betur fer er maður fljótur að gleyma – um leið og þetta líður hjá er þessi upplifun nánast gleymd og grafin. Fyrir utan hvað allt verður sannarlega þess virði og rúmlega það að lokum. ♡
  8. Hvað gerðiru í sambandi við ógleðina?
    Ég gat ósköp lítið annað gert en að bíða eftir að hún myndi líða hjá. Ég borðaði (og geri í rauninni ennþá) öllum stundum og upplifði mig með endarlausa matarlyst líkt og ég væri botnlaus. Ég þurfti að passa að verða ekki svöng því þá varð ógleðin mun verri. Ég fann það líka að ef ég svaf minna/illa var ógleðin mun verri daginn eftir svo ég reyndi að sofa sem mest. Ég var yfirleitt skárri yfir daginn og upplifði mun meiri seinniparts ógleði, um 16 leitið helltist hún yfir mig og fylgdi mér þar til ég fór að sofa. Ég myndi eins og ég segi reyna að sofa sem best, passa að verða ekki svöng og reyna eftir bestu getu að taka vítamín. Svo bara bíða og þrauka þar til þetta líður hjá.
  9. Er þessi meðganga lík eða ólík fyrri meðgöngu?
    Ég myndi segja að þær væru mjög svipaðar svona hvað líðan mína varðar. Ég var svooo fljót að gleyma þessum fyrstu vikum þegar ég gekk með Kolbrúnu Önnu en það rifjaðist strax upp núna þegar sömu tilfinningar helltust yfir mig á þessari meðgöngu. Þær eru hinsvegar afar ólíkar að því leitinu til að tíminn líður milljón sinnum hraðar núna, sem ég þakka mikið fyrir og eins að ég kemst töluvert minna upp með alla þessa þreytu og orkuleysi með lítinn gorm á kanntinum – sem útskýrir kannski af hverju ég er lengur að endurheimta orkuna í þetta skiptið.
  10. Ef þú fékkst ógleði ertu með einhver solid ráð við því?
    Nei í rauninni hef ég enga lausn á því fyrir mitt leiti því miður Ég þurfti bara að bíða eftir að hún myndi líða hjá. Ég myndi þó alltaf passa að verða alls ekki svöng, hafa alltaf eitthvað matarkyns meðferðis ef þú ert á ferðinni til að koma í veg fyrir að verða svöng, sofa eins vel og hægt er og taka vítamín eftir bestu getu. Þetta er ótrúlega pesónubundið og misjafnt hvað virkar á hverja og eina. Í mínu tilfelli gat ég ekki komist hjá ógleðinni, heldur bara passað að hún yrði ekki verri með þessum aðferðum, og svo bíða eftir að hún líður hjá.
  11. Breytast matarvenjur þínar þegar þú ert ólétt? Ertu með meiri matarlyst?
    Já 100%! Báðar meðgöngurnar mínar hafa verið nákvæmlega eins hvað matarlyst varðar en strax á 5.-6. viku fann ég miklu meiri þörf fyrir að borða. Ég borða bæði mun oftar og mun meira í hvert sinn. Eg borða t.d. meira en Teitur í öll mál og það er alls engin lygi haha. Strax á 12. viku meðgöngu var ég búin að þyngjast um 4kg þrátt fyrir að baunin í bumbunni væri á stærð við lime sem vóg örfá grömm. Þetta var nákvæmlega eins með Kolbrúnu Önnu. Mér þótti þetta skrítið í fyrstu en svo breyttist hugsunarhátturinn – ég borða það sem líkaminn minn kallar eftir og geri það sem ég þarf til að líða betur. Hver líkami er misjafn og hvert kraftaverk í bumbu kallar eftir mismunandi hlutum. ♡
  12. Uppáhalds spurningin mín til óléttrar konu! Cravings?
    Það er pínu glatað að spyrja mig að þessu því flestar óléttar konur hafa frá einhverju fyndnu að segja haha – ég get eiginlega ekki sagt að ég muni eftir einhverjum cravings né finni fyrir einhverjum so far á þessari meðgöngu. Nema jú, kannski kolvetni yfir höfuð. Ég held að ég hafi sett einhverskonar met í pizzuáti þegar ég gekk með KA – við grínuðumst með að hún kæmi hringlaga í heiminn og það er eflaust eina “cravings” sem ég man eftir. Það kemur kannski eitthvað þegar líða tekur á. // Teitur kærastinn minn var svo fljótur að leiðrétta mig og minna mig á það að hann var sendur út í ísbúð öll kvöld að kaupa ís fyrir alls ekki svo löngu. Ég var án gríns búin að gleyma því haha – en það er alls ekki langt síðan ég sendi elsku Teitsann minn í ísbúðina öll kvöld að kaupa fyrir mig bragðaref haha. Eg held að það megi flokka það undir cravings!
  13. Hvenær byrjaðiru að finna almennilegar hreyfingar á fyrri meðgöngu?
    Fylgjan lá framan á hjá mér svo frekar seint, eða í kringum 22.-23. viku fann ég fyrstu hreyfingu, svona hreyfingu sem fór ekki á milli mála að væri hreyfing frá litla krílinu. Fylgjan er aftur að framanverðu núna svo þetta verður eflaust svipað.
  14. Hvaða einkenni fannstu fyrst og hvenær byrjaðiru að finna einkenni?
    Fyrstu einkenni með Kolbrúnu Önnu voru verkir í brjóstum á 5. viku.. þá vissi ég ekki að ég væri ólétt, mér þótti það frekar sérstakt og ákvað að pissa á próf fyrir vikið. Ógleðin kom ekki fyrr en á 8. viku með hana en núna fann ég ekki þessa verki í brjóstum heldur kom ógleðin og þreytan strax á 6. viku svo ég myndi því segja að það hafi verið fyrstu einkennin.
  15. Ertu með hugmyndir að fötum á meðgöngu & í brjóstagjöf? Kv. ein hugmyndasnauð!
    Ég hef ekki alveg kynnt mér þennan markað nógu vel ennþá en ég mun eflaust gera það þegar ég verð orðin stærri. Ég pantaði mér nokkur klassísk meðgöngu föt á ASOS um daginn og finnst úrvalið þar mjög gott. Ég mæli með því. Eins ef þú ert að hugsa um gjafatoppa og annað mæli ég alltaf með Lindex – ég notaði eingöngu toppa þaðan á síðustu meðgöngu og í brjóstagjöfinni.
  16. Hvernig er húðin þín á meðgöngu? Hvaða húðvörur ertu að nota?
    Húðin mín er vanalega frekar blönduð, ég er þurr en á sama tíma með olíumyndun og fæ bólur. Hinsvegar hefur húðin mín blessunarlega verið nokkuð fín á báðum meðgöngum – ég fæ alveg bólur en þá er það iðulega tengt miklu nammiáti frekar en hormónum. Mikið nammiát bitnar alltaf á húðinni minni. Þá á ég ekki við í hófi mér er alveg óhætt að fá mér nammipoka eitt kvöld án þess að útkoman verði skelfileg – en um leið og það verður kvöld eftir kvöld sést það strax. Samkomubannið og fyrstu vikur meðgöngu einkenndist því miður af mjög miklu nammiáti svo húðin mín var alls ekki góð á þeim tíma. Hinsvegar um leið og ég minnkaði nammið varð húðin betri! Síðastliðna tvo mánuði hef ég verið í algjörlega nýju prógrami hvað varðar hina daglegu húðrútínu. Ég er að prófa nýtt merki frá Húðlæknastöðinni sem heitir Skin Ceuticals, og setti ég allt það sem ég var vön að nota á hold á meðan. Smá prufukeyrsla í von um að húðin mín verði betri. Þetta var algjörlega óháð meðgöngunni en þetta var ákveðið áður en ég vissi að ég væri ólétt. Ég hlakka til að segja ykkur betur frá því en ég hef sumsé, notað vörurnar í 2 mánuði og vildi fá góða reynslu áður en ég myndi segja ykkur frá vörunum. Ég er vægast sagt í skýjunum með þær og mun segja ykkur betur frá þeim asap.

Takk kærlega fyrir að lesa og fyrir að senda þessar spurningar. Ég hafði mjög gaman að þessu sjálf og mun jafnvel henda í vol. 2 síðar á meðgöngunni. ♡

Þangað til næst,
Xxx Fanney

Fylgstu með á Instagram: @fanneyingvars

ÞRJÚ, BRÁÐUM FJÖGUR ♡

Skrifa Innlegg