fbpx

NÝJA HEIMA

FLUTNINGARFRAMKVÆMDIRHEIMILIÐLÍFIÐPERSÓNULEGT

Jæja, ég vona að þið séuð ekki búin að gleyma mér! Ég held að ég hafi aldrei verið á jafn miklum þeytingi og undanfarna daga ef ég á að vera alveg hreinskilin. Við afhentum gömlu íbúðina okkar síðastliðinn laugardag, 1. desember og klukkustund síðar fengum við nýju íbúðina okkar afhenda! Það var því nóg um að vera þann daginn en í vikunni á undan fluttum við búslóðina okkar alla til mömmu og pabba þar sem við yfirtókum gamla herbergið mitt, núverandi herbergi litlu systur minnar sem dvelur nú á efri hæðinni í sínu gamla herbergi. Þetta eru vægast sagt skrítnir tímar en jafnframt ótrúlega skemmtilegir og spennandi! Það er aðeins erfiðara að halda gömlu rútínunni gangandi þegar maður býr ekki heima hjá sér en ástæðan fyrir dvöl okkar hér hjá foreldrum mínum er vegna framkvæmda sem við stöndum nú í í nýju íbúðinni okkar. Við ákváðum að flytja hingað tveimur dögum fyrir afhendingu svo við gætum þrifið vel og vandlega og skilað bestu Barmahlíðinni okkar vel frá okkur. Hennar verður sárt saknað – en satt best að segja hefur maður ekki haft tíma til að hugsa til íbúðarinnar þar sem það hefur verið nóg að hugsa um, gera og græja. Ég lýg því ekki þegar ég segi að ég hef ekki haft neinn einasta tíma til að setjast við tölvuskrif og blogga – en hér með verður breyting þar á! Ég hlakka ofsalega til að leyfa ykkur að fylgjast með! Ég hef að vísu verið mjög dugleg (þó ég segi sjálf frá)! að leyfa fylgjendum mínum á Instagram að fylgjast með og mæli ég með því ef þið viljið fá framkvæmdir beint í æð, að fylgja mér á Instagram: fanneyingvars

Við fluttum heim í Garðabæinn, stækkuðum aðeins við okkur og erum hæst ánægð með íbúðina og staðsetningu. Ég er vissulega fædd og uppalinn Garðbæingur svo mat mitt er ekki hlutlaust. Það kom mér ótrúlega á óvart hvað mér leið fljótt “heima” eftir að ég flutti inn til Teits í Barmahlíðina. Staðsetningin er sannkallaður draumur og mun ég sakna hverfisins ótrúlega mikið. Það eru milljón plúsar við að vera svona miðsvæðis og er ég ólýsanlega þakklát fyrir okkar tíma þar. Nauðsynlegt að opna augun og prófa eitthvað nýtt. Það kemur eflaust flestum á óvart að kaup okkar í Garðabænum voru algjörlega Tetis frumkvæði en ég var ekkert að flýta mér. Okkur lá í raun og veru alls ekkert á að flytja en eins og ég nefndi hér einhverntímann var þetta mikil hvatvísi og gerðist hratt. Teitur benti mér á eignina á fasteignavefnum og stakk upp á að kíkja á opið hús því vissulega fannst okkur hverfið heillandi. Í kjölfarið gerðum við tilboð sem var samþykkt og þá var ekkert annað í stöðunni en að setja okkar íbúð á sölu, sem seldist svo fljótlega í kjölfarið. Þetta gerðist ótrúlega hratt, fullhratt kannski fyrir mitt tempó og var ég lengi að átta mig á að þetta væri raunverulega að gerast. Ef ég á að segja eins og er er ég fyrst núna að finna fyrir ólýsanlegum spenningi og viðveran í íbúðinni undanfarna daga hefur sannarlega gert þetta raunverulegt. Í fyrsta sinn sem ég kaupi mér íbúð og tilhugsunin um að þessi fallega íbúð sé okkar, er dásamleg! Hér eru nokkrar myndir sem ég tók á sunnudaginn og í gær af íbúðinni en það er ótrúlega margt sem við ætlum að breyta. Íbúðin mun breytast stórkostlega og ég er svo spennt að sýna ykkur og leyfa ykkur að fylgjast með!

Íbúðin er semsagt 126fm og þar af 6fm geymsla, þrjú afar rúmgóð svefnherbergi, stór og björt stofa, borðstofa, eldhús, eitt baðherbergi og þvottahús. Eins og þið sjáið í fljótu bragði er íbúðin öll í þessum týpíska eikar-lit. Parketið, innréttingar, skápar og hurðir. Innréttingarnar í íbúðinni, bæði eldhús- og baðinnréttingar, eru ofsalega fínar frá Brúnás og ætlum við að halda þeim en breyta þeim verulega. Mála þær og skipta um höldur. Eins ætlum við að mála skápa og hurðir. Parketið hefur verið okkar mesti höfuðverkur hingað til en ég veit ekki hversu oft við höfum skipt um skoðun varðandi það. Þetta er semsagt ótrúlega fínt og veglegt viðarparket og þar sem íbúðin er tiltölulega ný eigum við afar erfitt með að réttlæta það fyrir okkur að rífa það út og leggja nýtt. Það hefur því verið planið frá upphafi að pússa það niður, taka gula litinn í burtu og lakka það í ljósari/grárri tón. Það verkefni er hinsvegar töluvert kostnaðarsamara en við þorðum að vona og eins veit maður aldrei, þar sem viðurinn er lifandi, hvernig hann tekur í lakkið. Það yrði því afar svekkjandi að pússa parketið og lakka fyrir háa upphæð, og enda svo mögulega ekki nógu ánægð að þeim aðgerðum loknum! Við fórum því í seinustu viku að kanna möguleikana á því að rífa það hreinlega út og fá okkur nýtt parket sem við yrðum 100% sátt með, þá kom í ljós að parketið á íbúðinni er töluvert hærra heldur en flest parket eru í dag og því eru dyrakarmarnir sagaðir samkvæmt því. Þá þyrftum við að finna parket í sömu þykkt eða skipta út öllum hurðakörmum í íbúðinni líka. Þetta eru pælingar sem við höfum skipst á að flakka á milli. Eina mínútuna ætlum við að pússa og þá næstu ætlum við að skipta út parketinu. Svona höfum við farið fram og til baka mörgum sinnum! Ótrúlega fyndið! Ég er vog í stjörnumerki en Teitur hefur enga afsökun! ;)

Við ætlum svo að mála alla íbúðina í fallegum litum en ég valdi mér í samstarfi við Slippfélagið ótrúlega fallega liti sem ég hlakka til að segja ykkur betur frá. Við erum byrjuð að mála veggina og það verkefni verður búið á næstu dögum og ég er ótrúlega spennt að sýna ykkur útkomuna (og sjá hana sjálf)! Við þurfum einnig að gera ýmislegt inni á baðherbergi en það verkefni má bíða þar til eftir áramót. Það er sannarlega ekki hægt að gera allt í einu!

Þetta var bara stutt lýsing í fljótu bragði en ég mun klárlega segja ykkur vel frá hverri framkvæmd fyrir sig á næstu dögum! Ég finn fyrir gríðarlega miklum áhuga sem hvetur mig líka til að sýna ykkur meira frá – en áhorfið á Instagram Story hjá mér hefur held ég aldrei verið meira en núna! Ég minni ykkur sem viljið fylgjast ítarlega með að fylgja mér þar: fanneyingvars

Þangað til næst,
Knús, Fanney xxxx

HVAÐA BRÚNKUKREM NOTA ÉG

Skrifa Innlegg