Loksins, loksins, LOKSINS get ég deilt því með ykkur sem ég hef verið að vinna að undanfarna mánuði. Síðasta vor, eða nánar tiltekið í maí í fyrra, var fyrsti undirbúnings fundur formlega haldinn svo ferlið er því orðið ansi langt og margir stórskemmtilegir mánuðir af vinnu að baki. Hingað til hefur þetta verið algjört “leyniverkefni” og hef ég í allan þennan tíma haldið því fyrir sjálfa mig og mína nánustu. Undanfarna daga og vikur hefur verið meira en nóg að gera hjá mér enda er loksins komið að því að deila með ykkur gleðinni og útkomunni. Þetta litla (samt risastóra) leyniverkefni er sumsé samstarfsverkefni mitt við NTC sem samanstendur af nýrri fatalínu sem ég vann með Galleri 17, MOSS X FANNEY INGVARS. Þið hafið eflaust mörg hver tekið eftir smá “tease-i” á samfélagsmiðlum undanfarna daga en ég hef verið að klæðast og birta myndir af mér í flíkum úr línunni. Það reyndist á endanum mjög erfitt því mér bárust óteljandi fyrirspurnir um flíkurnar og þótti mér mjög erfitt að geta ekki svarað ykkur með fullnægjandi svörum, þó ég væri að sjálfsögðu óendanlega þakklát að finna fyrir áhuganum! Nú get ég loksins skýlt mér á bakvið það en þessar flíkur tilheyra sumsé fatalínunni minni, MOSS X FANNEY INGVARS sem ég er ofsalega stolt af.
Þann 11. apríl næst komandi munum við “launcha” MOSS X FANNEY INGVARS í verslun Galleri 17 og ég einfaldlega get ekki beðið. Undanfarna daga hafa allar heimsins tilfinningar komið yfir mig en núna get ég ekki annað en brosað út að eyrum. Ég varð einfaldlega smá meyr af stolti þegar ég sá allar flíkurnar mínar hangandi saman á slá í fyrsta sinn í síðustu viku.
Ég mun á næstu dögum segja ykkur meira frá línunni sjálfri en hún samanstendur af hvorki meira né minna en 18 flíkum, 23 ef við teljum liti með og er ég vægast sagt ólýsanlega ánægð og stolt með útkomuna. Allar flíkurnar skírði ég í höfuðið á mínum nánustu vinkonum en mér þótti það viðeigandi þar sem þær voru mér afar mikilvægur stuðningur í gegnum þetta ferli. Alltaf tilbúnar að gefa mér ráðleggingar þegar ég þurfti og eins gáfu mér nauðsynleg “pepp” á þeim stundum sem ég leyfði mér að efast. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát og fyrir vikið langaði mig að skíra flíkurnar mínar í höfuðið á þeim.
Ég vona innilega að þið verðið jafn ánægð með línuna og ég er. <3 Ég hlakka til að segja ykkur meira frá henni núna á næstu dögum.
Í síðustu viku skutum við svokallað lookbook fyrir línuna en við fengum landsliðið í þessu fagi með okkur í lið. Sara Dögg Johansen sá um förðun og Íris Dögg Einarsdóttir myndaði. Dagurinn var langur, 10 klukkustundir nánar tiltekið en þrátt fyrir það var hann ólýsanlega skemmtilegur og var það eiginlega bara svolítið skemmtilegt að setjast aftur fyrir framan myndavélina og reyna að rifja upp gamla takta. Með þetta svokallaða dream-team á bak við mig tókst það bara nokkuð ágætlega til. Takk fyrir meiriháttar dag stelpur. Ég mun sýna ykkur miklu, miklu meira á næstu dögum kæru lesendur og halda ykkur vel upplýstum svo fylgist vel með! <3 Ég hlakka svo til að bjóða ykkur formlega velkomin í opnunarpartý línunnar minnar svo takið 11. apríl frá kæru vinir.
Hér er smá sneak peek úr myndatökunni en ég hlakka til að sýna ykkur miklu meira. Aftur, þá var það Íris Dögg Einarsdóttir sem myndaði og Sara Dögg Johansen farðaði. Fagmanneskjur fram í fingurgóma og hefðum við aldrei getað fengið betra team með okkur í þetta.
Allar fyrstu upplýsingar verða birtar hér á Trendnet að sjálfsögðu, þar fyrir utan er ég ansi virk á Instagraminu mínu, @fanneyingvars varðandi allt sem kemur að línunni. Mig langar líka að minna á reikning @galleri17 á Instagram og einnig bjó ég til sérstakan aðgang fyrir línuna mína, @mossxfanneyingvars þar sem okkur langar að vera dugleg að birta myndir af öllum þeim sem klæðast flíkunum mínum og vil ég biðja ykkur um, sem gerist svo elskuleg að fjárfesta í þeim að merkja MOSS X FANNEY INGVARS á Instagram og nota myllumerkið #MossXFanneyIngvars svo ég sjái ykkur! <3 <3
Vá hvað ég er spennt að sýna ykkur meira!
Endalaust þakklæti!!! <3
Xxx Fanney
Skrifa Innlegg