fbpx

JÓLAHUGLEIÐING / GESTAPISTILL

GESTAPISTILLINNBLÁSTURLÍFIÐPERSÓNULEGT

Ég er svo heppin að vera rík af góðum vinkonum í kringum mig. Ein þeirra heitir Svava Guðrún og hefur hún nánast verið mín hægri hönd síðastliðin ár. Svava er einstaklega réttsýn á lífið, nægjusöm, hjartahlý, klár… – guð minn, ég gæti talið endalaust áfram. Svava er með BS gráðu í sálfræði en hefur verið minn einkasálfræðingur og sálufélagi frá því að ég kynntist henni. Hún er ótrúlega góður penni og hefur skrifað fjöldan allan af pistlum sem hún hefur hingað til haldið fyrir sjálfa sig. Ég var spennt að opna Fréttablaðið í morgun þar sem ég vissi að von væri á einstaklega fallegum pistli undir hennar nafni sem hún las fyrir mig fyrir nokkrum vikum. Ég man að ég spurði hana strax hvort að ég mætti birta hann hér á Trendnet ef hann færi í Fréttablaðið og hún lofaði mér því. Við Svava höfum oft verið sagðar líkar í fasi sem við sjáum að sjálfsögðu hvorugar en það er samt alltaf að koma okkur á óvart hvað við hugsum eins og klárum oft setningar fyrir hvor aðra. Þegar hún las þennan pistil fyrir mig hitti hann að sjálfsögðu beint í mark. Ég er mesta jólabarn í heimi og tilhlökkun mín fyrir jólunum hefur alltaf verið einstaklega mikil. Undanfarin ár hefur hugur minn í desember þó oftar en ekki leitað til þeirra sem eiga um sárt að binda þar sem hátíðarnar eru oftast erfiðasti tíminn fyrir þau. Hvort sem um fátækt, sorg, missi eða annað er að ræða. Ég hef sjaldan upplifað fyrir öðru eins þakklæti líkt og á jólunum undanfarin ár. Þetta er tilfinning sem kemur yfir mig og ég verð oft meyr bara við tilhugsunina. Maður verður aldrei of oft minntur á það að vera þakklátur fyrir allt sem maður hefur í lífinu, það er nefnilega svo sannarlega ekki sjálfsagt! Ég vona innilega að allir geti fundið fyrir gleði og hamingju á jólunum. <3

___________________________________________________________________________

Elsku Svava Guðrún mín skrifaði þennan fallega pistil sem birtist í Fréttablaðinu í morgun:

“Það var síðla kvölds í vikunni sem leið að ég gekk um götur Reykjavíkurborgar og virti fyrir mér fegurðina sem miðbærinn hafði upp á að bjóða það kvöldið. Á göngu minni varð mér hugsað til þeirra hversdagslegu áhyggja sem við jú öll höfum og velti vöngum yfir hinu og þessu sem í stóru samhengi engu máli skiptir. Rétt í allri þessari hugsanaflækju ef flækju skal kalla varð mér hugsað til jólanna og þeirra sem eiga um sárt að binda yfir hátíðarnar líkt og aðra daga ársins. Þessar hugsanir mínar voru áhyggjunum yfirsterkari og fylgdu mér góðan spöl.

Um víða veröld eru til einstaklingar sem eiga í engin hús að venda vegna fátæktar, sjúkdóma og aðstæðna sem þeir ekki fá við ráðið. Það eru til einstaklingar sem búa í stríðshrjáðum löndum og geta enga björg sér veitt. Það eru sannarlega til einstaklingar sem brotnir hafa verið niður af lífsins ólgusjó og telja enga ákjósanlega leið út úr sínum aðstæðum. Einstaklingar sem hreinlega vita ekki hvernig þeir eiga að takast á við daginn, hvað þá jólin. Aðstæður þar sem sorgin er gríðarleg, eymdin áþreifanleg. Þegar ég hafði leitt hugann að þessum fjölda fólks féllust mér hendur og ég leit örlítið í eigin barm. Hvað er það sem okkur raunverulega hamingju færir?

Eftir nokkra stund gekk ég minn veg full forréttinda, steig upp í bíl sem ég hef til afnota, keyrði heim hugsi og gekk inn í hlýtt húsaskjólið sem ég er svo sérlega heppin að hafa yfir höfuð mér. Ég lagðist á koddann og leiddi hugann að þeim forréttindum sem ég bý við og gat ekki annað en fundið til skammar en á sama tíma óendanlegs þakklætis.

Nú gengur senn í garð hátíð ljóss og friðar með öllum sínum kræsingum, litum, gjöfum og glingri. Þegar ég fer að gleyma mér í öllum ljósunum og þeirri ringulreið sem jólunum kann að fylgja ætla ég að leiða hugann að þeim sem ekkert af þessu hafa. Ég ætla að leiða hugann að því sem mér raunverulega hamingju veitir. Þakka fyrir alla þá hluti tilverunnar sem öllu máli skipta en aldrei fást keyptir. Já, þakka fyrir friðinn.

Það er nefnilega hægt að búa við allsnægtir en vera á sama tíma bláfátækur.

Verum þakklát, auðmjúk og nægjusöm með kærleikann að leiðar­ljósi. Það eru síður en svo allir sem hafa færi á því að halda gleðileg jól.”

Svava Guðrún Helgadóttir.

________________________________________________________________________

Einstaklega góð áminning fyrir hátíð ljóss og friðar sem framundan er. <3

Hlýjar jólakveðjur til allra xx

NÝJA HEIMA

Skrifa Innlegg