Halló Trendnet!

Hæ kæru lesendur Trendnet.

Ég heiti Fanney Ingvarsdóttir og er nýr bloggari hér á Trendnet. Ég er mjög stolt af því að vera orðin partur af þessu ótrúlega flotta teymi sem að Trendnet saman stendur af og hlakka mikið til komandi tíma. Mig langaði að byrja á því að kynna sjálfa mig örlítið. Ég er 26 ára gömul stúlka fædd og uppalin í Garðabæ, en fluttist í Hlíðarnar í Reykjavík fyrir um tveimur árum síðan. Ég bý þar með kærastanum mínum, Teiti Páli og dóttur okkar, Kolbrúnu Önnu sem er rétt rúmlega 9 mánaða draumadís.

Ef ég á að lýsa áhugamálum mínum þá hugsa ég strax um tísku, en ég hef lengi fylgst með helstu tískustraumum og hef mjög gaman af því að klæða mig upp og spá og spegúlera í klæðaburði. Þá hef ég stundað íþróttir frá blautu barnsbeini en ég æfði lengi bæði handbolta og fótbolta með Stjörnunni í Garðabæ. Einnig eru ferðalög mér ofarlega í huga þar sem mér finnst fátt skemmtilegra en að ferðast um heiminn og skoða nýja menningarheima. Svo auðvitað þetta klassíska; tónlist, góður matur, vinir og fjölskylda. Árið 2010 hlaut ég titilinn Ungfrú Ísland, þó að sá titill heyri sögunni til í mínu lífi get ég klárlega ekki gert lítið úr þeim tækifærum sem mér buðust í kjölfarið. Titillinn skilaði mér ómetanlegri reynslu en ég ferðaðist mikið um heiminn á vegum Ungfrú Ísland, meðal annars til Kína, Mongólíu, Finnlands og Hvíta Rússlands, einnig fékk ég að fara tvisvar sinnum til Indlands að sinna dýrmætu góðgerðarstarfi með börnum og eldra fólki. Ég hélt úti mínu eigin bloggi í um þrjú ár og hef því örlitla reynslu á þessu sviði. Ég hef starfað sem flugfreyja hjá WOW Air nánast frá upphafi félagsins, en fram að því starfaði ég sem verslunarstjóri hjá verslunum NTC. Samhliða flugfreyjunni var ég framkvæmdastjóri Ungfrú Ísland í tvö ár og árið 2017 var ég einnig partur af skipulagsteymi Reykjavík Fashion Festival, eða RFF. Þann 21. maí 2017 kom svo dóttir mín í heiminn og síðan þá höfum við mæðgur notið þess að vera saman í fæðingarorlofi. Það fer að styttast í annan endan á þeim dýrmæta tíma en þá taka nýir og skemmtilegir hlutir við! Ég er ótrúlega spennt fyrir komandi tímum hér á Trendnet og vona innilega að þið séuð það líka.

Ég er mjög virk á Instagram fyrir ykkur sem viljið forvitnast meira um mig og mína, þið finnið mig þar undir: fanneyingvars

Þangað til næst,

x Fanney

Skrifa Innlegg