Gleðilega hátíð kæru lesendur! Ég er aðeins of sein þar sem jólin voru jú formlega kvödd í gær á þrettánda degi jóla. Þetta er fyrsta færslan mín á þessu nýja og glæsilega ári, 2020 og því vil ég byrja á að óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs! Ég vona innilega að þið hafið notið hátíðanna eins vel og kostur er með ykkar fólki. Það gerði ég svo sannarlega. Ég er mikið jólabarn og finnst ofboðslega skemmtilegt að undirbúa jólin í rólegheitum. Það er ekki eins gaman þegar jólin eru farin að snúast upp í stress því jólin koma alltaf sama hvað, það er alltaf gott að minna sig á það. Þó að maður sé ekki með allt tilbúið þá er það bara svoleiðis og óþarfi að stressa sig á því. Við höfum öll mis mikinn tíma og desember er mánuður sem líður hjá á ljóshraða og úr nægu að snúast fyrir jólin. Með vinnu og öllu er eflaust stundum ógerlegt að komast yfir öll verkefnin sem maður er búin/n að setja sér og því mikilvægt að stilla hugann þannig að það sé bara allt í góðu þó að það klárist ekki allt í tæka tíð.
Ég hafði aðeins meiri tíma en vanalega þessi jólin og naut þess í botn að geta dúllað mér við jólaundirbúninginn. Ég var örlítið peppaðri í ár sökum þess að fyrir rúmu ári, eða nánar tiltekið, 1.desember 2018 fengum við nýju íbúðina okkar afhenta. Ég sá það fyrir mér þá að eiga notalegan jólatíma á nýja heimilinu en allt kom fyrir ekki. Hér var ekki tekið upp eitt einasta skraut þau jólin, kassar úti um allt og við í miklum framkvæmdum. Jólabarninu mér þótti það afar erfitt og að öllu leiti mjög skringilegt! Ég var því spennt að geta undirbúið jólin núna og sérstaklega þar sem við ákváðum það í desember að halda í fyrsta skipti upp á jólin heima. Við buðum fjölskyldunni minni og tengdaforeldrum til okkar á aðfangadagskvöld sem var stórkostlegt og gekk vonum framar. Ég fann mér algjörlega nýtt áhugasvið en ó hvað mér þótti gaman að leggja á borð og gera borðið fínt. Ég fékk ótrúlega góðar undirtektir þegar ég birti myndir af borðhaldi á Instagram og ég ákvað strax að mig langaði að deila myndunum með ykkur hér. Gaman að geta gefið hugmyndir fyrir þá sem áhuga hafa.
Allt matarstellið okkar er frá Bitz living en við höfum safnað okkur í það stell undanfarin ár. Lúkkið höfðar ótrúlega til mín og úrvalið er svo mikið. Mér finnst gylltu hnífapörin frá Bitz svo falleg með, punkturinn yfir i-ið að mínu mati. Bitz er eflaust orðið flestum kunnugt en merkið er m.a. fáanlegt í Bast, Húsgagnahöllinni og Snúrunni. Borðdúkinn, diskamotturnar, könglaseríuna og svörtu jólakertin fékk ég að gjöf frá Bast í Kringlunni. Svo ótrúlega fallegt en ég keypti greni í Garðheimum og lagði seríuna með könglunum yfir. Gylltu stjörnurnar sem ég keypti í Módern og svörtu kertin raðaði ég svo með. Svo þegar maturinn fór á borðið þá færði ég allt saman yfir á skenkinn okkar undir sjónvarpinu þar sem það naut sín svo fallega þar til jólin voru tekin niður núna eftir áramótin. Ég keypti þessi steingráu vatnsglös fyrir jólin en ég er ótrúlega hrifin af þeim! Þau eru frá merki sem heitir Libbey og fæst í Bast. Þau eru á mjög góðu verði, ótrúlega falleg og í þokkabót er glerið í þeim tvöfalt og því erfiðara að brjóta þau. Ég verð líka að segja ykkur betur frá borðdúknum en ég nefndi hér fyrir ofan að ég hafi fengið hann að gjöf frá Bast. Dúkurinn er frá danska merkinu Södahl en hann er stamur undir svo hann helst alveg kyrr á borðinu, tilvalið fyrir matarboð með börnum sem geta þá ekki togað í dúkinn! Ég var yfir mig hrifin og hann reyndist okkur stórkostlega hér yfir hátíðarnar. Dúkurinn var klipptur fyrir mig eftir stærð borðsins en úrvalið af dúkum sem þessum er ótrúlega mikið í Bast – ég mæli með að kíkja á þetta! Tau servíetturnar eru svo frá Seimei, mér finnst þær alveg setja punktinn yfir i-ið á borðinu. Ég var ótrúlega ánægð með borðið þó ég segi sjálf frá og skemmti mér stórkostlega við að dúlla mér við að gera það huggulegt. Fallegi jólakjóllinn minn er úr smiðju Hildar Yeoman.
Meiriháttar aðfangadagur með mínu fólki. Hátíðarnar minna mig alltaf á að vera þakklát fyrir allt mitt. Þakklát fyrir fjölskylduna mína og vini, þakklát fyrir að vera hamingjusöm og þakklát fyrir góða heilsu – þegar öllu er á botninn hvolft er það alltaf það sem raunverulega skiptir máli í þessu lífi.
Ég vona að þið hafið haft það sem allra best kæru vinir <3
Þangað til næst,
Xxx Fanney
Instagram: fanneyingvars
Skrifa Innlegg