Nokkrar valdar flíkur sem birtast hér í þessari færslu höfum við fengið að gjöf. Ég hef eytt fúlgum í fatnað á dóttur mína og vil ekki að fólk fái þær röngu hugmyndir um að hér sé allt um gjöf að ræða. Ég er ekki að skrifa þessa færslu í neinu auglýsingaskyni. :)
Frá því að við kærustuparið tilkynntum það fyrst opinberlega að við ættum von á barni hefur mér verið sýndur mikill áhugi varðandi allt sem kemur að barni og barneignum. Fólk varð strax ansi forvitið varðandi meðgönguna, kynið og fæðinguna og eftir að dóttir mín kom í heiminn svara ég reglulega fyrirspurnum um til dæmis fatnaðinn sem hún klæðist, herbergið hennar og fleira. Ég skil það mjög vel því sjálfri finnst mér fátt skemmtilegra en að skoða barnavörur og fá innblástur frá öðrum! Áhuginn breytist mikið við það að verða mamma og allt í einu finnst mér orðið skemmtilegra að versla föt á barnið mitt en á mig sjálfa. Öllu má að sjálfsögðu ofgera en ég reyni að rembast við að réttlæta það að þetta er fyrsta barn og þá má maður leyfa sér örlítið meira. Mér finnst ofsalega gaman að klæða dóttur mína í falleg dress, ég viðurkenni það fúslega! Minn áhugi vaknaði strax þegar ég var ólétt en ég fór strax að hugsa um hvernig mig langaði að herbergið hennar myndi líta út og fleira því um líkt. Ég var svo að sjálfsögðu að vinna sem flugfreyja fram að 16 viku meðgöngu og voru Ameríku stoppin fram að því nýtt í alls kyns kaup til þess að geta verslað ódýrara á barnið. Við fengum að vita kynið í 20 vikna sónarnum svo í vinnuferðunum fram að því vissi ég ekki kynið. Ég fann það strax hvað mér þótti það afar erfitt að versla í USA þegar ég vissi ekki kynið. Mér fannst allt ofsalega kynjaskipt í verslunum! Sem dæmi fann ég kannski afar fallega og látlausa samfellu en þá var oftast búið að merkja hana einhversstaðar ‘It’s a girl/boy’, bara sem dæmi.
Það sem að ég lærði sjálf eftir að dóttir mín kom í heiminn var hvaða fatnaður hentaði okkur og hvað hentaði ekki. Þetta er að sjálfsögðu afar persónulegt og ótrúlega misjafnt hvað fólki finnst. Nú er ég alfarið að segja frá minni upplifun. Það hafði verið keyptur alls kyns fatnaður sem að fór svo á endanum ónotaður ofan í kassa. Það er erfitt að sjá fyrir hvað mun henta manni og þetta var eitthvað sem að ég hugsaði ekki einu sinni út í. Ég fann það afar fljótt að allur fatnaðurinn frá Ameríku hentaði okkur síður og við kusum frekar skandinavískar vörur. Fyrsta árið hennar KA fannst mér að vísu alltaf margt fallegt í Baby Gap og eins svaf hún nánast alltaf í dásamlegum Ralph Lauren náttgöllum sem er hægt að fá á mjög góðu verði í USA. Ég heillast miklu meira af skandinavískum stíl og burt séð frá útlitinu á flíkunum finnst mér einnig svakalegur gæðamunur. Danskar vörur eru í miklu uppáhaldi en Danir eru afar framarlega í hönnun á barnaflíkum. Ég veit og átta mig á að margar af þessum flíkum eru mjög dýrar! Það er ekki spurning. En þegar maður hefur notað sömu flíkina í marga mánuði, séð hana stækka með barninu, þvegið flíkina óteljandi sinnum og hún er ennþá jafn mjúk og nánast eins og ný, lít ég töluvert öðrum augum á verðið. Tala nú ekki um eftir að barnið byrjar á leikskóla og þvottarnir verða enn fleiri. Svo pakka ég flíkinni niður í kassa þegar hún er orðin of lítil og get tekið hana upp fyrir næsta barn þegar vonandi að því kemur. Við Íslendingar höfum aðgang að dásamlegustu barnamerkjunum hér heima en verslanirnar Petit og Bíum Bíum hafa frá degi eitt verið í uppáhaldi hjá okkur. Ég hef alltaf verslað mikið í Petit en á meðan meðgöngunni stóð versluðum við nánast allt inn í herbergi dóttur okkar í Petit! Fyrstu mánuðina eftir að hún kom í heiminn klæddi ég hana nánast alla daga í sömu tvo heilgallanna frá Soft Gallery. Þeir reyndust okkur guðdómlega fyrstu mánuðina og öll önnur föt voru varla snert! Þetta var eitt af því sem ég fann eftir að Kolbrún Anna kom í heiminn. Mér fannst t.d. betra að hafa hana í heilgöllum frekar en samfellu og buxum fyrstu mánuðina. Ég segi það aftur að þetta var bara mín upplifun. Persónulega mæli ég með því að versla ekki allt of mikið af fatnaði áður en að barnið kemur í heiminn, sérstaklega með fyrsta barn. Maður á alveg eftir að finna hvað mun henta þér og barninu og það kemur ekki fyrr en litla kraftaverkið lætur sjá sig! Mér finnst ekkert betra en að klæða barnið mitt í fallegar og vandaðar flíkur sem ég veit að henni líður vel í!
Dóttir mín byrjaði á dásamlegum ungbarnaleikskóla í sumar. Þessi leikskólatími er svo skemmtilegur og auðvitað alveg nýr fyrir foreldra með fyrsta barn. Ég þurfti að eðlilega að spyrjast fyrir um hvað barnið þyrfti að eiga fyrir leikskólann. Núna er að koma vetur og þá þarf víst að verða sér úti um ýmsar nauðsynjavörur! Mig langaði að segja ykkur frá og sýna, hvernig við mæðgur erum búnar fyrir veturinn og hvað er í leikskólatöskunni hennar Kolbrúnar Önnu. Einnig í ljósi þess að ég er myndaóð móðir og átti efni í heila færslu af þessu tagi, haha. Ég fékk góðan díl á völdum flíkum hér fyrir neðan en þessi færsla er alls ekki skrifuð í auglýsingaskyni þar sem ég vildi skrifa hana til þeirra sem gætu haft not af! Gott að geta sótt í “leikskólatöskulista” til að hafa sér til hliðsjónar, líkt og ég hefði viljað geta sótt í sjálf.
Það sem að er semsagt í leikskólatöskunni hennar Kolbrúnar Önnu fyrir veturinn er eftirfarandi:
- Snjógalli
- Úlpa
- Pollagalli
- Polla-heilgalli sem er með fóðraður með flís.
- Tvö pör af vettlingum, þunnir og þykkir.
- Einnig tvö pör af lambúshettum, þunn og þykk.
- Ullarföt og ullarsokkar
- Stígvél
- Kuldaskór
- Inniskór
- Auka föt (Samfella, sokkabuxur, buxur, bolur og peysa)
Dásamlegi snjógallinn hennar er frá Ver De Terre, ég vissi ekki að snjógallar gætu verið svona fallegir! Ver De Terre er æðislegt merki úr Petit en Kolbrún Anna er ný vaxin upp úr polla/vindgalla sem við áttum frá því merki og reyndist okkur æðislega. Hlýja lambúshettan hennar og vettlingarnir eru frá danska merkinu Joha og stígvélin eru frá Bisgaard. Mér finnst stígvélin æðisleg sérstaklega því þau eru loðfóðruð svo þau ganga líka vel sem kuldaskór. Allar þessar vörur fást í Petit.
Þessi guðdómlegi pollagalli er aðeins öðruvísi að því leitinu til að vera heilgalli og er fóðraður með flís. Hann er því hlýrri en aðrir pollagallar. Við fengum þennan að gjöf frá Petit en hann er frá merkinu Kuling. Kuling er nýtt útivistarmerki í Petit með allar helstu nauðsynjavörur fyrir veturinn. Vettlingarnir og lambúshettan er frá Joha. Allt frá Petit.
Þessi dásamlega yfirhöfn er frá sama merki, Kuling. Við höfum notað hana óspart síðan við fengum hana en hún er í raun fóðruð regnkápa og við höfum verið að nota hana sem úlpu. Mér finnst hún æðisleg. Skórnir eru dásamlegir loðfóðraðir kuldaskór frá merkinu Pom Pom úr Petit. Við höfum keypt okkur 3(!) pör af inniskóm frá því merki sem hafa reynst okkur ótrúlega vel! Hún var farin að nota þá langt áður en hún gat gengið en Kolbrún Anna er alltaf í inniskónum á leikskólanum og hér heima. Dásamlega húfan hennar er svo frá Pom Poms & co sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur mæðgum!
Ullarföt eru algjört lykilatriði til að eiga fyrir veturinn að mínu mati. Síðasta vetur notuðum við ullarföt frá 66Norður en núna í haust keypti ég þessi hér að ofan frá dásamlega merkinu Joha úr Petit. Ég á því miður enga betri mynd af henni í settinu en um ræðir er semsagt þessi ullarpeysa og buxur í stíl. Nauðsynlegt undir pollagallann og einnig snjógallann þegar extra kalt er í veðri. En Kolbrún Anna á einnig dásamlegan “basic” pollagalla frá 66Norður sem er nýtekin við af þeim gamla. Ótrúlegt en satt að þá hef ég ekki enn náð mynd af henni í honum, það hlýtur að gerast fyrr eða síðar. ;)
Mig langaði góðfúslega að segja ykkur frá því að ég tók eftir því um helgina að Petit er með 15% afslátt af völdum kuldafötum og skóm. Nú segi ég það frá dýpstu hjartarótum að ég er ekki að minnast á það í samstarfsskyni heldur einungis vegna þess að ég tók eftir því á þeirra samfélagsmiðlum um helgina og fannst viðeigandi að nefna það hér þar sem það er eflaust hægt að fjárfesta í einhverju af þeim flíkum sem Kolbrún Anna klæðist hér að ofan á 15% afslætti. Ég veit ekki hversu lengi afslátturinn stendur yfir, það yrði pínu glatað að segja frá honum ef hann rennur svo út á miðnætti! En um að gera að nýta sér að versla dýrari flíkur eins og útivistarföt á afslætti.
Annars hefur þessi vika farið í allt annað en ég hafði séð fyrir. Loksins fékk ég smá frí eftir þétta vinnutörn og þurfti að nýta vikuna í ýmislegt stúss og fleira. Ég hef hinsvegar setið heima síðan á mánudaginn með lítinn eldhnött með 40 stiga hita í fanginu. Hitinn hennar fer loksins lækkandi og vonandi getum við mæðgur fengið okkur frískt loft í lok vikunnar. <3
Við Kolbrún Anna kveðjum í bili og bjóðum góða helgi!
xxx Fanney
Instagram: fanneyingvars
Skrifa Innlegg