Mbl spurði mig á dögunum út í mömmulífið. Margar hverjar persónulegar & skemmtilegar:) Lesið hér fyrir neðan …
Finnur þú fyrir miklum breytingum á lífi þínu núna þegar þú ert orðin móðir og hvernig mamma langar þig að vera?
„Ég var ekki beint með einhver svakaleg framtíðarplön en það að verða mamma 23 ára var ekki eitthvað sem ég var búin að sjá fyrir mér. Um leið og ég sá jákvætt þungunarpróf þá fann ég strax hvað mig langaði ekkert meira en að verða mamma og að þetta væri einmitt fullkominn tími.“
„Ég vil vera hressa mamman eins og mamma mín. Hún er fyrirmyndin mín, alltaf hress og tekur öllum opnum örmum. Ég vil ekkert vera að taka hlutunum neitt alltof alvarlega þó við Tómas ætlum klárlega að setja niður skýrar reglur þegar Emilía eldist. Ég vil að Emilía horfi á mig sem mömmu og vinkonu. Að hún geti alltaf leitað til mín og fundið fyrir öryggi. Þannig líður mér gagnvart mömmu minni,“ segir Arna Petra.
Hvernig gekk meðgangan?
„Meðgangan gekk eins og í sögu. Mér leið mjög vel, fann fyrir smá þreytu í upphafi en slapp alveg við ógleðina. Það hræddi mig mikið fyrstu vikurnar að hafa fundið fyrir litlum einkennum þannig að ég fór tvisvar í snemmsónar sem róaði mig mikið. Ég fór á sjöttu og níundu viku og allt var alveg eðlilegt. Ég tók líka reglulega óléttupróf aftur til þess að láta mér líða betur sem ég vissi í rauninni ekkert hvort það hafi verið áreiðanlegt. Svona verður maður heltekinn af þessu,“ segir Arna Petra og tekur fram að þetta hafi verið skrýtið því fyrstu vikur óléttunnar hafi hún verið út í Svíþjóð þar sem Tómas stundaði nám, langt frá vinum og fjölskyldu.
„Ég vildi ekki segja fólkinu mínu í gegnum síma þannig að ég beið eftir því að segja þeim þar til að ég var komin heim. Þessar fyrstu vikur voru mjög lengi að líða og mér leið eins og ég væri alein í heiminum að bera stærsta leyndarmál sem ég hef nokkurn tímann geymt,“ segir Arna Petra og er handviss að þegar hún verður ólétt næst þá ætlar hún að segja sínum nánustu strax frá því og segir að ef eitthvað gerist þá verða þau til staðar.
Eftir tólftu viku flaug tíminn frá mér. Ég var ekki alveg að tengja við mömmurnar sem voru að farast úr spennu og óþolinmæðin alveg að gera útaf við þær. Ég var sultuslök og fannst smá eins og ég ætti eftir að gera heilan helling áður en hún myndi koma. Svo var ég búin að ákveða að ég myndi fara 2 vikur framyfir þar sem flest allar sögðu að það myndi gerast með fyrsta barn. Ekki grunaði mig að hún myndi síðan mæta 10 dögum fyrir settan dag.“
Hvernig er morgunrútínan þín?
„Þegar Emilía vaknar þá spjallar hún yfirleitt út í loftið og ég kíki svo yfir í rúmið hennar og fæ þetta breiðasta fallegasta bros sem til er. Alla morgna! Það hefur ekki klikkað hingað til. Svo færi ég hana yfir í mitt rúm og leyfi henni að sitja hjá mér af því að ég nenni alls ekki að standa upp strax.
En við tökum því bara rólega, ég er yfirleitt ennþá á náttfötunum en hún fer í fötin fyrir daginn eftir að ég skipti á henni. Svo fáum við okkur að borða saman. Ég elska þessar stundir á morgnana. Við hlustum mikið á tónlist og hún dillar sér í stólnum við uppáhalds lögin. Svo leikum við aðeins áður en við tökum morgungöngutúrinn. Þegar hún sofnar fer ég inn og fæ mér fyrsta kaffibollann í rólegheitum,“ segir Arna Petra og segist spennt að vakna í fyrramálið eftir þessa frásögn sína.
Þetta var hluti af viðtalinu en þú getur lesið það í heild sinni hér.
Takk fyrir að lesa <3
Instagram: arnapetra
YouTube: Arna Petra
Skrifa Innlegg