fbpx

FÆÐINGARSAGAN OKKAR

2021EMILÍA BIRNALÍFIÐMEÐGANGAN

Ég veit ekki hversu oft ég er búin að ætla að setjast niður og skrifa þessa færslu. Núna lét ég loksins verða af því á meðan Emma litla sefur hér við hliðina á mér. Ég elska að lesa aðrar fæðingasögur og ég veit ekki hversu margar fæðingasögur ég las, hversu mörg fæðingamyndbönd ég horfði á eða hversu mörg hlaðvörp ég hlustaði á á meðgöngunni minni. Og það sem mér fannst svo magnað var að engin ein fæðing er eins.  

En að sögunni okkar Tómasar … 

Í desember fórum við Tómas á fæðingarnámskeið (online). Þar fengum við kynningu á því sem er í boði á spítalanum sem var mjög gott að vita. Það gerði það að verkum að ég fór inní fæðinguna með opnum huga og ekkert var fyrirfram ákveðið. Það fannst mér gott að gera af því það er svo margt sem getur komið upp á og allt sem ég hafði hlustað á styrkti mig í að ákveða sem minnst. Það er svo algengt að of mikil plön sem ekki ganga eftir valdi vonbrigðum og draumafæðingin verður ekki alltaf eins og vonast var til. 

Klukkan 4:30 vaknaði ég við það að það fór að leka í rúmið þannig að ég stóð strax upp og SPLASHHH … það fossaði á gólfið. Þetta var eins og í bíómyndunum en það sem var kannski ólíkt bíómyndunum var að ég reyndi að GRÍPA vatnið. Ég kalla þá strax á Tómas: ,,Tómas vaknaðu, ég er að pissa á mig!!’’. Örugglega furðulegt að vakna við þessa setningu haha. Ég fór svo á klósettið og náði að pissa. Þá grunaði mig að þetta hafi verið vatnið sem fór. Ég hringdi beint á spítalann á Akranesi af því að ég ætlaði að reyna að eiga þar. Mér var sagt að taka því rólega og reyna að sofna til þess að safna orku fyrir fæðinguna og hringja svo aftur þegar ég myndi byrja að fá verki af því að þarna var ég að fá verkjalausa samdrætti. Ég hoppaði í fullorðinsbleyju af því að vatnið hélt áfram að leka og svo reyndi ég að leggja mig sem gekk bara ekki baun. Ég gat ekki hætt að hugsa um það að ég væri að fara að eignast barn! Núna er þetta að fara að gerast, litla stelpan ætlar að mæta 10 dögum fyrir settan dag?! Ég sem var viss um að ég myndi ganga 2 vikur fram yfir. 

Klukkan 8 var orðið mun styttra á milli hríða. Ég ákvað þá að fara í sturtu og klæða mig. Klukkan 8:30 hringdum við aftur á Akranes en þá var orðið fullt hjá þeim. Þannig að við lögðum af stað niður á Landspítala til þess að taka stöðuna (það þarf nefnilega að fylgjast vel með þeim sem missa vatnið af því að þá er meiri hætta á sýkingu). Þarna voru verkirnir orðnir frekar miklir og lýstu sér eins og túrverkir í mjóbakinu x50.

Klukkan 9:20 fékk ég að hitta ljósmóður. Því miður fékk Tómas ekki að koma með og beið úti í bíl á meðan. Það var mjög skrítið fyrir okkur bæði að fá ekki að vera saman. Ljósan staðfesti síðan að þetta hefði verið legvatnið sem fór um morguninn og að ég væri komin með 3 í útvíkkun og leghálsinn næstum fullstyttur. Ég fékk tvær parkódín töflur og ákvað að fara heim. Við töldum það vera best í stöðunni af því að þar líður mér vel. En um leið og við komum heim þá ældi ég töflunum:) 

Um kl. 11:00 skellti ég mér í bað og eftir að hafa verið í baðinu í um klukkutíma ákvað ég að ég vildi fara aftur niður á spítala af því að ég var hreint út sagt að drepast úr verkjum og þarna voru 3 mín á milli hríða. Við vorum komin um kl. 12:00 á Landspítalann og ég fékk að hitta hjúkrunarfræðing. Hún ætlaði ekki að skoða mig af því að það var svo stutt síðan ég var skoðuð og þá ætti ekki að vera mikil breyting. Svo sá hún hvað hríðarnar voru reglulegar og ég gat ekki talað á meðan á þeim stóð þannig að hún ákvað að skoða mig. Þá kom í ljós að ég var komin með 6-7cm í útvíkkun. 

Við fengum strax herbergi og þá fékk Tómas að koma með inn. Við vorum á fæðingarstofu nr. 3 sem var stór og fín með baði. Ég labbaði um herbergið fram og til baka af því að ég gat ekki hugsað mér að liggja eða sitja. Mig grunar að það hafi hjálpað henni mikið að koma sér lengra niður (þyngdaraflið). Tómas vildi svo mikið hjálpa mér þegar hríðin kom og fór þá að tala við mig en ég gat alls ekki talað og ég vildi helst ekki að neinn myndi tala í kring um mig. Það eina sem ég gat gert var að einbeita mér að önduninni. 

Eftir að hafa labbað um herbergið varð ég svo ótrúlega verkjuð þannig ég ákvað að prófa glaðloftið. Ég var búin að lofa ljósunni í mæðraverndinni að gefa því tíma og séns en ég gerði það svo sannarlega ekki. Ég var búin að vera með mjög góða öndun en um leið og ég byrjaði að nota glaðloftið þá missti ég allan takt og liggur við andann. Ég er viss um að ég hafi ekki verið að nota glaðloftið rétt þannig að ég hafði enga þolinmæði til þess að reyna við þetta á meðan ég var svona verkjuð. 

Um kl. 13:30 ákveður ljósan að skoða mig og þá var leghálsinn opinn og komnir 9cm. Tómas lét hitapoka við bakið á mér sem bjargaði mér alveg. Þessi hitapoki var mín verkjastilling! Stuttu seinna fann ég allt í einu að ég þyrfti að fara á klósettið og þá nr 2. Má ég vera hreinskilin?? Ókei, mér leið smá eins og ég væri aaalveg að fara að kúka á mig. JEBB búin að pissa & næstum kúka á mig á einum sólarhring. Brjálað álag.

Ljósan sagði mér þá að fara á klósettið og prófa að rembast líka. Eftir að hafa verið á klósettinu í dágóðan tíma, ákvað ég að skella mér í baðið og stuttu eftir að ég fór ofan í baðið fann ég fyrir rosalega mikilli rembingstilfinningu. Ég prófaði að rembast nokkrum sinnum með hríðunum og svo fór ég uppúr. Ljósan skoðaði mig og þá var útvíkkuninni lokið og ég tilbúin að koma stelpunni okkar í heiminn. Ég var deyfð í spöngina sem ég fann ekkert fyrir. Þá var klukkan um 14:50. 

3. janúar klukkan 16:10 teygði ég mig eftir litlu stelpunni okkar og tók hana í fangið. Velkomin í heiminn elsku Emilía Birna. Við vorum með nokkur nöfn í huga en um leið og við sáum hana þá vissum við að þetta væri Emilía – lítil Emma. Hún var 50 cm og 3340 g af hreinni fullkomnun.

 Tómas klippti naflastrenginn og svo fæddi ég fylgjuna og var síðan saumuð þar sem ég rifnaði fyrsta stigs. Við fengum síðan að vera á fæðingarstofunni þangað til að við fórum heim um kvöldið þennan sama dag. Ástæðan fyrir því að við fórum heim var sú að allt gekk vel og ef ég hefði verið þarna um nóttina, þá hefði Tómas ekki fengið að vera með. Tilfinningin að fara út af spítalanum þrjú saman var ótrúleg. Þarna vorum við komin með nýjan einstakling sem við eigum eftir að elska í tætlur restina af lífinu. Þetta var & er svo yndislegt.

Hvernig í ósköpunum förum við að þessu? Ég fékk svo sannarlega að sjá nýja hlið af sjálfri mér.
Þessi líkami er svo magnaður!

BALIOS GIVEAWAY!

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

  1. Elísabet Gunnars

    23. February 2021

    Svo fallegt, og svo dýrmætt að setja söguna í orð. Takk fyrir að deila <3 ég hlakka líka til að elska þessa litlu Emmu sín út lífið

  2. Hildur Rut

    23. February 2021

    Dásamlegt að lesa ❤️😍