Fyrir stuttu síðan hélt ég gæsun fyrir Viktoríu sem er ein af mínum bestu vinkonum en hún mun gifta sig seinna í sumar. Mér til mikillar gleði gekk allt upp, veðrið var yndislegt og allir skemmtu sér konunglega. Við vorum nokkrar sem stóðum að skipulagningunni og gekk hún virkilega vel. Mig langar að deila með ykkur því sem við gerðum þennan frábæra dag og leyfa myndunum hér að neðan að tala.
Við sóttum Viktoríu í vinnuna á föstudegi kl 10 það kom henni heldur betur á óvart. Þaðan lá leið okkar í fullkominn bröns og mímósu hjá mömmu hennar. Við leigðum rútu og vorum keyrðar á milli staða sem var mjög þægilegt. Fyrst fórum við í fjórhjólaferð í Úlfarsárdal sem var tryllt og heppnaðist mjög vel.
Allar sem tóku þátt í gæsuninni fengu svona geggjaða gjafapoka merktar gæsinni! Þórunn á heiðurinn á þessari hugmynd! Freyðivín & kampavínsglas, treo, prufur ofl.
Þaðan fórum við í snekkjuferð, skáluðum í freyðivíni og Hreimur tók nokkur lög. Æðisleg upplifun. Við fórum svo í dans hjá Magneu vinkonu minni í JSB – sem var svo skemmtilegt. Þar gátum við tekið okkur til fyrir kvöldið.
Við enduðum svo kvöldið í geggjuðum sal á Álftanesi við sjóinn. Salurinn er í gamalli hlöðu sem búið er að gera upp og lítur mjög vel út! Sjórinn, lítil tjörn fyrir framan, gæsir og náttúran gera upplifunina einstaklega skemmtilega. Þarna er einnig heitur pottur með útsýni yfir sjónn. Mæli með að skoða þetta á instagram @hladan_alftanesi
Ég útbjó DIY kokteilabar og þar buðum við upp á Moscow mule og Jarðaberjamojito. Ég keypti ramma, krítartöflu og krítartöflutúss í Ikea. Klippti krítartöfluna til, setti í rammann og skrifaði kokteilauppskriftirnar. Mér fannst þetta koma skemmtilega út og gaman að blanda sinn eiginn kokteil. Ég notaði svo krukkur fyrir hráefnin og var með skurðarbretti og hníf.
Hvítvínskonan kíkti í heimsókn og vá hvað ég mæli með henni! Það var lopapeysu-og sveitaþema um kvöldið sem passaði vel við salinn. Pöntuðum veislubakka frá Mandi og enduðum svo kvöldið á að dansa og skemmta okkur.
Ógleymanlegur dagur og fullkomin gæs og ég hlakka mikið til brúðkaupsins síðar í sumar!
Takk fyrir að lesa! <3
// HILDUR RUT
Skrifa Innlegg