Sala á hinum vinsælu Mottumars sokkum hefst í dag, 29.febrúar og stendur til 14.mars. Sérhannaðir Mottumars sokkar hafa síðastliðin tvö ár vakið mikla lukku. Hönnuður þeirra er Gunnar Hilmarsson, yfirhönnuður Herrafataverzlunar Kormáks og Skjaldar en hann, ásamt dóttur sinni, afhenti sjálfum forseta Íslands fyrsta sokkaparið á Bessastöðum í gær.
Sokkarnir eru fáanlegir í fullorðins og barnastærðum á mottumars.is en í fullorðinsstærðum í verslunum um land allt. Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum.
Mottumars er í senn vitundarvakning um krabbamein hjá körlum og fjáröflun fyrir félagið. Í ár leggur félagið áherslu á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum. Rannsóknir sýna að reglubundin hreyfing dregur úr líkum á krabbameinum auk þess sem hreyfing er til góðs fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein.
Með heilsusamlegum lífsstíl er hægt að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum. Krabbameinsfélagið vinnur að forvörnum gegn krabbameinum og hefur það að markmiði að fækka þeim sem greinast með krabbamein. Starfsemi félagsins byggir alfarið á styrkjum einstaklinga og fyrirtækja og með kaupum á Mottumarssokkum leggur fólk stórt lóð á vogarskálarnar.
Kæru landsmenn, upp með sokkana! Trendnet mælir með!
//TRENDNET
Skrifa Innlegg